Pottþétt ráð gegn skattsvikum

Nefnd á vegum fjármálaráðherra hefur fundið nýja og skothelda aðferð til þess að koma í veg fyrir skattsvik. Lagt er til að fimm- og tíuþúsundkróna seðlar verði einfaldlega teknir úr umferð. Nefndin var skipuð í kjöfar uppljóstrunarinnar um Panamaskjölin og virðist því sem markmiðið sé sérstaklega að bregðast við svikum af því tagi.

Þetta er hið mesta snilldarráð  sem vafalaust mun draga verulega úr skattsvikum ef ekki útrýma þeim með öllu. Ekki dytti helstu skattsvikurum landsins í hug að nota aðra aðferð en þá að fara með fulla ferðatösku af 5000 köllum til Tortóla enda gífurleg eftirspurn eftir íslensku krónni á þeim slóðum.  Ætla má að einnig verði komið í veg fyrir minniháttar skattsvik því engar líkur eru á að iðnaðarmenn, leigusalar eða dópmangarar fáist til að taka við greiðslu í  evrum eða einhverjum öðrum gjaldmiðli.

Bónusvinningur felst svo í því að núna verður hægt að rekja hvert fótspor hins almenna borgara. Yfirvaldið getur fylgst með því hvort þú ferð í sjoppu, apótek, strippbúllu eða bifreiðaverkstæði. Það verður að teljast góð viðbót við örlæti dómara á hlerunarheimildir og víðtæka skráningu lögreglu á atferli, ferðum og samskiptum þeirra sem grunaðir eru um óæskilegar stjórnmálaskoðanir.

Share to Facebook