Ólöglegir innflytjendur fá ekki krónu

Jón Magnússon fullyrðir að ólöglegir innflytjendur fái 215 þúsund krónur í dagpeninga á mánuði og Pressan lepur þessa speki upp án þess að sýna minnstu viðleitni til að fá þetta staðfest eða leita skýringa á því hversvegna ólöglegir innflytjendur fái hærri greiðslur en löglegir borgarar.

Sannleikurinn er sá að ólöglegir innflytjendur fá ekki krónu frá ríkinu og njóta engra réttinda. Jón er sennilega með hælisleitendur í huga en þegar flóttamaður kemur til landins er hann fyrst fangelsaður í 15-30 daga og svo er hann annaðhvort sendur úr landi eða þá að hann  fær stöðu hælisleitanda á meðan Útlendingastofnun er að reyna að finna afsökun til að koma honum úr landi. Flóttamennirnir á Fit eru því ekki „ólöglegir innflytjendur“, heldur hælisleitendur sem eiga rétt á vernd, framfærslueyri, húsaskjóli og heilsugæslu. Ég veit ekki hvaðan þessi tala, 215 þúsund fyrir utan húsnæði, er fengin en rétt væri að Jón upplýsti það. Hitt veit ég að það fara ofboðslegir fjármunir í að vista þetta fólk í fangelsum að ástæðulausu og að þeir flóttamenn sem ég hef hitt vilja ekkert frekar en að komast í vinnu. Þeim er meinað það, jafnvel þótt þeir hafi atvinnuloforð. Þar sem þeir hafa aðeins tímabundin dvalarleyfi og enga vinnu, fá þeir heldur ekki leiguhúsnæði og þar sem Fit er eina húsnæðið sem stendur þeim til boða er nánast útilokað fyrir þá að mynda þau tengsl sem þarf til að fá vinnu þegar og ef þeir loksins fá dvalarleyfi til lengri tíma. Fyrir vikið situr ríkið oft uppi með þá ennþá lengur en ástæða er til.

Einnig væri rétt að Jón upplýsti hvaðan hann hefur þær upplýsingar að „ólöglegum innflytjendum“ (ég reikna með að hann eigi við flóttamenn) fjölgi vegna frétta um að Íslendingar taki á málum af linkind. Mér er kunnugt um að a.m.k. fram á mitt ár 2011 var sjaldgæft að menn gæfu sig fram og óskuðu eftir hæli við komuna til landsins. Langflestir voru á leið til Kanada eða Bandaríkjanna og hefðu ekki sótt um hæli á Íslandi nema vegna þess að þeir voru stöðvaðir í Leifsstöð. Þeir voru því alls ekki að sækjast eftir dvalarleyfi á Íslandi og hefðu helst viljað losna við þessa millilendingu. Hefur þetta gerbreyst á tæpu ári og ef svo er, hvaðan hefur Jón þær upplýsingar að linkind Íslendinga laði fólk að landinu?

Umræðan um mál piltanna sem komu frá Finnlandi nú á dögunum varpar ljósi á það hversu lítið almenningur veit um stöðu hælisleitenda. Þótt margir hafi lýst hneykslun sinni á þessum fangelsisdómi heyrist líka sá misskilningur sem sést svo glögglega í pistli Jóns Magnússonar, að til Íslands streymi fólk í þeim tilgangi að biðja um hæli. Einnig gætir tortryggni vegna þess að af myndum að dæma eru þessir piltar eldri en þeir segjast vera og það út af fyrir sig gerir þá ótrúverðuga. Ég treysti mér ekki til að aldursgreina fólk af myndum en samkvæmt flóttamannasamningi SÞ á flóttamaður að njóta vafans ef ekki tekst að færa sönnur á sögu hans og í fangelsisdómnum er gengið út frá því að drengirnir  hafi gefið upp réttan aldur. Þar sem dómurinn gengur út frá þeirri forsendu, er full ástæða til að horfa ekki eingöngu á lagabókstafinn, heldur líka hefðir um dóma yfir unglingum. Það hlýtur að teljast einsdæmi á Íslandi að svo ungt fólk (sem gert er ráð fyrir í dómnum) sé dæmt til óskilorðsbundinnar fangavistar fyrir skjalafals og það án nokkrurrar aðkomu barnaverndaryfirvalda.

Önnur hugmynd sem ég hef séð á nokkrum stöðum er sú að til þess að eiga yfirhöfuð einhvern rétt, þurfi menn að gera grein fyrir sér strax við komuna til landsins. Ljóst er að Ísland hefur nokkra sérstöðu vegna landfræðilegar stöðu sinnar. Mjög fáir þeirra flóttamanna sem lenda á Íslandi hafa nokkurn áhuga á að vera þar. Þeir eru með flugmiða til Kanada eða Bandaríkjanna en millilenda aðeins á Íslandi og eru þar með alls ekki að reyna að „svindla sér inn“. Þar sem þessu ákvæði er ætlað að stemma stigu við fjölda ólöglegra innflytjenda sem ekki eiga tilkall til stöðu flóttamanns, en ekki að heimila sem flestar refsingar, er það ekki í anda samningsins að refsa mönnum sem millilenda á Íslandi.

Og af hverju gera mennirnir ekki bara grein fyrir sér ef þeir eru í alvöru á flótta? Vegna þess að sá sem ferðast á fölsuðum skilríkjum veit að þótt flóttamannasamningurinn banni refsingar við því, svo fremi sem hann gefur sig fram, væri yfirvöldum ekki stætt á að hleypa honum áfram. Ef hann gerði grein fyrir sér yrði hann stoppaður. Ef þú ert á leið til Kanada þá viltu ekki láta stoppa þig á einhverjum útnára sem þú veist ekkert um og allra síst ef þú ert búinn að ganga í gegnum hörmungar. Þú veist ekki hvað gerist ef þú segist vera með fölsuð skilríki. Kannski verður þú pyntaður, ef þú kemur frá Kína eða Íran finnst þér það t.d. bara mjög sennilegt. Kannski verður þú sendur beint „heim“. Þú reiknar t.d. með því ef þú ert frá Vestur Afríku. Og svo skulum við ekki gleyma því að náttúruhamfarir og hungursneyð eru ekki ástæður sem gefa þér stöðu flóttamanns þannig að ef þú ert að flýja örbirgð, þá má bara alveg senda þig heim aftur. Það væri beinlínis heimskulegt af flóttamanni sem hefur ekki í hyggju að setjast að á Íslandi að gefa sig fram.

Stundum hefur þeim sem millilenda á Íslandi líka verið sagt að þar sé ekkert eða mjög lítið vegabréfaeftirlit. Þeir sem hafa tekjur af því að falsa skilríki vilja auðvitað bara fá peninginn með sem minnstu veseni og gefa ekki endilega heiðarlegar upplýsingar. Þegar flóttamenn  lenda á Keflavíkurflugvelli, vita sumir þeirra ekki hvar þeir eru. Í sumum tilvikum veit flóttamaðurinn ekki einu sinni að hann er staddur á eyju. Sumir halda að Ísland tilheyri Noregi eða Danmörku. Margir þeirra vita ekki hvernig staða mannréttinda er á Íslandi eða hvaða afstöðu Íslendingar hafa til flóttamanna. Hvort er þá rökréttara að rétta fram falsaða vegabréfið og vona að maður komist áfangastað, eða segja; heyrðu þetta vegabréf er að vísu falsað, ég er í raun að flýja frá Íran þar sem ég var í fangelsi og sætti pyntingum fyrir skoðanir mínar.

Allt þetta vita yfirvöld mæta vel og að dæma menn í fangelsi út á ákvæðið um að þeir eigi að gefa sig fram, er ekkert annað en vísvitandi misnotkun á samningnum, samskonar misnotkun og á hinu margumrædda Dyflinnarákvæði.

Fréttatíminn birti um daginn viðtöl við pilta sem vistaðir eru á Fit. Merkileg finnst mér að sjá fólk hafa mun meiri áhyggjur af því að hugsanlega hafi þeir logið til um aldur en því hvaða aðstæður það eru sem fá börn (þeir hafa verið á flótta lengi) til að flýja land. Kannski eru drengirnir eldri en þeir segjast vera. Það er strangt til tekið óheiðarlegt en eigum við ekki að bíða aðeins með að dæma þá þar til við fáum á hreint hvort þeir segja rétt til um aldur og ef ekki, af hvaða aðstæðum sú hagræðing sannleikans er sprottin? Það að gefa rangar persónuupplýsingar gerir þann sem er að flýja ömurlegar aðstæður nefnilega ekki endilega að glæpamanni. Ekki frekar en það gerir þig að barnaníðingi að giska á að þessi stúlka sé miklu eldri en 14 ára.

Rétt er að taka fram að nú, kl 15.00 þann 17. apríl, hefur Jón hefur ekki samþykkt athugasemdir mínar við umrædda færslu, sem ég skrifaði og staðfesti um kl 10:30 í gærkvöld.

Share to Facebook

12 thoughts on “Ólöglegir innflytjendur fá ekki krónu

  1. Takk fyrir þennan hlekk Einar Karl. Þessi pistill fór fram hjá mér á sínum tíma en ég er mjög ánægð með að vita af honum núna.

  2. Takk Eva. Það virðist sem öll málefni sem varða útlendinga á Íslandi séu í umræðunni lituð af tortryggni og andstyggð. Maður hefði ætlað að þetta stafaði af heimóttarskap, fáfræði eða hreinni heimsku eða greindarskorti en svo rekst maður á fólk einsog Jón sem er varla greindarskertur og ætti ekki að líða fyrir þekkingarskort. (hann er reyndar ekkert einn um að vera í þeirri stöðu) og manni nánast fallast hendur yfir mannvonskunni.

  3. Ég ætla nú reyndar ekki að taka svo djúpt í árinni að segja að Jón sé varla greindarskertur en ég held að kynþáttahyggja hans vegi þyngra.

  4. Sennilega væri hægt að draga úr framlögum til ÚTL, með því einfaldlega að slaka á vegabréfaeftirliti.

  5. Menn mega alveg skrifa greinar um skoðanir sínar á innflytjendastefnu án þess að vera kallaðir rasistar – en þegar þeir öskra inná völlinn „útaf með niggarann“ fyrir framan alla áhorfendastúku Fylkis, þá má ég alveg kalla þá rasista, ekki satt?

  6. ….. í ljósi þess að íslenska lagakerfið gefur þér hærri dóma fyrir að tala um fólk, en að berja það

  7. Þeir dómar sem hafa fallið í meiðyrðamálum síðustu tvö árin eru náttúrulega efni í meira en pistil.

Lokað er á athugasemdir.