Nokkrar spurningar til Útlendingastofnunar

Því betur sem ég skoða mál Pauls Ramses, því meira ógeði fyllist ég. Á mótmælafundi í dag komu fram upplýsingar sem ég hef ekki séð í fjölmiðlum. Ég vil af því tilefni beina eftirfarandi spurningum til Útlendingastofnunar.

Paul Ramses sótti um hæli á Íslandi 31.01.2008. Að sögn Útlendingastofnunar var honum gefinn 3 daga frestur til að andmæla framsendingu beiðnar sinnar um hæli.

-Af hverju hafa starfsmenn Rauða Krossins aldrei heyrt um þessa 3ja daga reglu?
-Hvenær var þessi regla tekin í notkun og hvar er hana að finna?
-Af hverju var Paul ekki beðinn að undirrita að hann hefði meðtekið þessi skilaboð?
-Getur Útlendingastofnun með öðrum hætt sannað að Paul Ramses hafi verið gefinn þessi 3ja daga frestur og að hann hafi skilið hvað málið snerist um?

Nú er vitað að á þeim tíma sem Paul fór frá Kenía, geysuðu blóðug átök milli fylgismanna Kibaki og Odinga. Hundruð þúsunda höfðu flúið heimili sín og mörg hundruð höfðu látist í beinum átökum, fyrir utan þá sem sættu frelsissviptingu eða ofsóknum, hurfu eða lentu í dularfullum slysum. Í desember voru nokkrir Íslendingar staddir í Kenía, þ.á.m. fólk sem var í nánum tengslum við Ramses og getur staðfest að hann var í hættu. Paul áleit eðlilega að þessar aðstæður ættu að duga til að sannfæra íslensk stjórnvöld um að honum og fjölskyldu hans væri ekki vært í landinu. Hann flúði til Íslands af þvi að hann hafði verið hér og þekkti nokkra Íslendinga. Við bætist að Paul á ættingja á Íslandi en það tók hann ekki fram í umsókn sinni, aðeins í samtölum við starfsmenn stofnunarinnar. Nú hefur ÚTL hamrað á heimild Dyflinarsamkomulagsins um að senda flóttamann aftur til fyrsta viðkomulands, sem og því að kona Pauls hafi ekki dvalarleyfi á Íslandi. Það kemur á óvart að leyfirleysi konunnar skuli talið mun mikilvægari þáttur í málinu en tengsl Pauls við landið. Því spyr ég:

-Af hverju var Paul Ramses ekki gerð grein fyrir því að ættartengsl gætu haft afgerandi áhrif á afgreiðslu málsins?

Skv upplýsingum ÚTL lá ákvörðun um framsendingu hælisbeiðninnar fyrir 01.04.2008. Ef ég hefði ekki áður fylgst með vinnubrögðum ÚTL hefði mér ekki dottið neitt annað í hug en að bréf þessa efnis hefði verið birt Paul Ramses samdægurs. Ég var hinsvegar svo lánsöm að fá að fylgjast náið með máli Miriam Rose á sínum tíma og eftir þá reynslu vakna ýmsar spurningar. Miriam fékk bréf þess efnis að ákveðið hefði verið að kanna forsendur þess að vísa henni úr landi, í september 2007. Bréfið var hinsvegar dagsett í apríl. Nú var Miriam með póstfang á Íslandi og voru engin vanhöld á því að henni bærist póstur. Lögreglan var aukinheldur vel meðvituð um tengsl mín og hennar og hefði því verið leikur einn að koma til hennar boðum í gegnum mig eða fá upp heimilisfang, netfang og símanúmer. Það var aldrei gert. Nú spyr ég:

-Eru það venjuleg vinnubrögð stofnunarinnar að skrifa bréf sem ekki eru send út og viðtakendum ekki kynnt fyrr en mörgum mánuðum eftir að þau eru rituð?
-Hversvegna er þetta erindi til Pauls, um að hælisbeiðnin hafi verið framsend, ritað á íslensku?

Þegar Paul Ramses undraðist að hafa ekki fengið bréfið í hendur fyrr, var honum tjáð að lögreglumaður hefði kynnt honum efni þess símleiðis.

-Eru það venjuleg vinnubrögð stofnunarinnar að láta lögreglu um að kynna efni bréfa símleiðis í stað þess að senda þau til viðtakanda?

Ég þekki fáa Íslendinga sem ekki eru þokkalega talandi á ensku. Ein er þó sú stétt sem virðist óvenju vanfær á enska tungu en það eru lögreglumenn. Ég þekki mýmörg dæmi þess að lögreglumenn hafi neitað að tjá sig á ensku við erlenda mótmælendur og gefið til kynna að þeir skildu ekki ensku þegar sama fólk reyndi að ná sambandi við þá. Mér finnst því eðlilegt að spyrja:

-Er lögreglumaðurinn sem kynnti Paul Ramses efni bréfsins símleiðis, nógu vel að sér í ensku til að útskýra fyrir honum bréf sem er ritað á íslensku?
-Fékk ÚTL staðfestingu á því að Paul hefði áttað sig á því hvað málið snerist um?

Hinn 05.05.2008 boðaði RLS umsækjanda og Rauða Kross Íslands (RKÍ) til þess að birta honum ákvörðun ÚTL. Þegar Paul var ekki mættur á tilskildum tíma hafði lögreglumaður samband við hann símleiðis. Paul var þá staddur á skrifstofu RKÍ sem hafði fyrr um daginn sent RLS beiðni um að málinu yrði frestað fram yfir fæðingu barnsins. Sá frestur var afgreiddur með símtali. Fyrir leikmanni lítur þetta út eins og Paul og fylgdarmaður hans frá RKÍ hafi tafist lítillega og að þar sem fresturinn var samþykktur með símtali hafi þeir talið að þar með væri ekki lengur þörf á að mæta á fundinn og samkvæmt mínum heimildum var það einmitt þannig.

-Hvað gengur ÚTL til með því að láta að því liggja að Paul hafi hundsað fyrirkall stofnunarinnar?

Sem leikmanni finnst mér eðlilegt að álykta að frestun brottvísunar merki í þessu samhengi að málið verði skoðað með hliðsjón af aðstæðum.

-Komu starfsmenn ÚTL því raunverulega til skila við Paul, lögfræðing hans og starfsmenn RKÍ að þessi frestun merkti alls ekki það að málið yrði tekið fyrir og skoðað í ljósi aðstæðna, heldur að hann yrði handtekinn og sendur til Ítalíu með nokkurra klst fyrirvara?
-Af hverju fékk Paul aldrei neitt bréf eða aðra tilkynningu um það hvenær hann gæti átt von á því að vera sendur til Ítalíu, fyrr en hann var handtekinn?

Að lokum:
-Er Útlendingastofnun kunnugt um aðbúnað flóttamanna á Ítalíu og hversu langan tíma tekur að afgreiða hælisumsóknir þar?
-Er ÚTL kunnugt um það hversu hátt hlutfall pólitískra flóttamanna sem sækja um hæli á Ítalíu eru sendir heim í óöryggið aftur?
-Hvort telur Útlendingastofnun æskilegri kost að senda hvítvoðung í flóttamannabyrgi á Ítalíu eða að sundra fjölskyldunni með því að senda móður og barn til Svíþjóðar?

Share to Facebook

One thought on “Nokkrar spurningar til Útlendingastofnunar

  1. ——————–
    Eva, sendu þetta í blöðin. mikilvægar spurningar þarna á ferð.

    Posted by: baun | 6.07.2008 | 18:48:56

     ——————–

    rambaði hingað inn… 🙂

    Sammála síðasta ræðumanni, mjög gildar spurningar, ég myndi senda þetta á blöðin!

    Posted by: Ýrr | 6.07.2008 | 22:34:08

     ——————–

    Er ekki örugglega einfalt i í geisaði í þessu tilviki?
    Annars tek ég undir með Baun, þessar spurningar eiga erindi beint inn á borð ÚTL.

    Posted by: Kristín | 7.07.2008 | 20:56:40

Lokað er á athugasemdir.