Meira eftirlit með útlendingum

Ég hefði ekki áhyggjur af vinnustaðaskírteinum

 • ef væri ekki hægt að fylgjast með nánast hverri hreyfingu fólks með því að skoða greiðslukorta, síma og netnotkun
 • ef heimildir lögreglu til þessháttar eftirlits hefðu ekki verið auknar fyrir nokkrum árum, í stað þess að herða þær eftir því sem slíkt eftirlit verður auðveldara

 • ef staðsetningarbúnaður á unglinga væri ekki orðinn að veruleika, (og raunar á allt sem hreyfist eins og fyrirtækið auglýsir)
 • ef ekki væri þegar búið að stíga skref í þá átt að hægt verði að krefja innflytjendur um lífsýni (eins og er gildir það aðeins fyrir þá sem vilja hafa fjölskyldu sína hjá sér en samkvæmt lífsýnum er ég t.d. ekki dóttir þess manns sem er skráður faðir minn og aldrei nokkurntíma hefur brugðist mér)
 • ef aldrei hefðu komið upp hugmyndir um rýmkaðar húsleitarheimildir gagnvart fólki sem giftist án þess að hafa búið saman áður (bara þessi hugmynd býður upp á bráðskemmtilegar ofsóknir gagnvart þeim sem kjósa skírlífi fyrir hjónaband)
 • ef stofnanir hins opinbera teldu persónunjósir ekki svo sjálfsagaðar að þær upplýsi um facebookhangs sitt í þeim tilgangi og hvetji almenna borgarar til þess að taka þátt í eftirlitinu
 • ef vínuefnapróf á vinnustöðum væru ekki orðin að veruleika
 • ef hugmyndir um ökurita í alla bíla hefðu aldrei komið upp
 • ef nektarskimar væru ekki þegar í notkun á Heathow
 • ef ég hefði ekki þurft að framvísa 18 ára gömlum skilnaðarpappírum þegar ég flutti milli landa, án þess að ég hafi fengið nokkra skýringu á því hvað danska ríkinu kemur það við hverjum ég var gift og hvenær
 • ef ég hefði ekki verið krafin um útprentun af reikningsyfirliti frá bankanum þegar ég sótti um húsaleigubætur hér úti án þess að ég fengi nokkra skýringu á því hvað starfsfólki bæjarskrifstofunnar kemur það við hvar ég kaupi í matinn.

 

Ég sá einhversstaðar þá athugasemd að þeir sem væru á móti vinnustaðaskírteinum væru fylgjandi þrælahaldi. Samkvæmt þeirri speki er ég fylgjandi nauðungarhjónaböndum, stórtækum innflutningi hryðjuverkamanna sem dulbúa sig sem ömmur, bótasvikum, vinnustaðafylliríum, hraðakstri og hverskyns skipulagðri glæpastarfsemi. Þessi athugasemd kom m.a.s. frá manni sem ég hef ástæðu til að ætla að sé sæmilega upplýstur. Rennir þessi litla athugasemd stoðum undir þá kenningu mína að flokkspólitík sé forheimskandi, því ég hef enga trú á að viðkomandi hefði látið þetta frá sér ef tillagan hefði komið frá hægri flokki.

Ummæli:

Ég bjó í Svíþjóð og þar eru svona skýrteini. Það er ekkrt að því að nota þau en kannski margt annað etfirlit sem er einum of.

Posted by: Bjarni H | 17.05.2010 | 19:10:25

Share to Facebook