Lifandi satíra

Þann 11. júlí sl. birti ruv.is viðtal við sænska leikarann Michael Nyqvist. Eftirfarandi ummæli hans vöktu athygli mína:

Það er eitthvað skrýtið, og smá viðbjóðslegt við Svíþjóð. Þú þarft alltaf að vera pólitískt kórréttur en á sama tíma mjög víðsýnn. Það leiðir af sér lifandi satíru sem er illþýðanleg.

Ég póstaði þessu á Facebook með þeim orðum að það sama ætti við á Íslandi. Einn af helstu áhrifamönnum Íslands tók þátt í umræðum á þræðinum og mér til mikillar furðu sagði hann að pólitísk rétthugsun væri bara það sama og kurteisi og tillitssemi.

Nei, pólitískur rétttrúnaður á ekkert skylt við kurteisi eða tillitssemi, hann er öllu heldur ákveðin yfirgangstaktík og getur í sinni verstu mynd nálgast ritskoðun. Auðvitað reyna margir að þagga niður réttmæta gagnrýni með því að ásaka fólk um pólitíska rétthugsun þegar það er bara að kalla eftir umræðu sem einkennist af kurteisi og tillitssemi. Slík misnotkun á hugtakinu breytir ekki merkingu þess. Það er ekkert jákvætt við að góð orð missi merkingu sína og þar sem svo virðist sem nokkrir áhrifamestu pennar landsins skilji ekki hugtakið pólitískur rétttrúnaður, ákvað ég að rifja upp grein sem ég skrifaði í nóvember 2012.

 

Illþýðanleg satíra

Við fyrri grein má svo bæta því að þegar þöggunartaktík er beitt af pólitískum andstæðingum rímar hún ágætlega við skilgreiningu Charltons Heston — og þótt hann hafi skítlegar skoðanir skulum við ekki falla í þá rökvillugryfju að afskrifa hverja einustu setningum sem hann hefur látið frá sér út á það. Það er nefnilega þáttur í pólitískum rétttrúnaði að taka aldrei undir orð þeirra sem eru manni ósammála um mikilvæg málefni, ekki heldur þegar þeir hafa rétt fyrir sér. Hvað sem líður skoðunum Charltons Heston er lýsing hans á pólitískum rétttrúnaði alveg ágæt. Hún hljóðar svo:

Political correctness is tyranny with manners

sem útleggst á íslensku:

Pólitískur rétttrúnaður er siðuð harðstjórn

Svo írónískt sem það er geta Íslendingar þó einkum vænst þess að verða fyrir árásum og þöggun af hálfu pólitískra samherja sinna. Pólitískur rétttrúnaður virðist mest áberandi meðal þeirra sem kenna sig við félagshyggju, kvenfrelsi og umhverfisstefnu og bitnar einkum á vitrænni umræðu, því hin síðustu ár hefur pólitísk rétthugsun á Íslandi einkum birst í heilagri vandlætingu gagnvart þeim sem verður það á að nota orðalag sem fellur ekki að smekk þeirra sem vilja stjórna umræðunni. Orð er gripið á lofti, tekið úr samhengi og manneskjan ýmist rökkuð niður eða vandað um fyrir henni án þess að nokkur þörf sé á því. Dæmi um þetta er þegar umhverfissinni sem talar um stóriðjustefnuna sem „geðveiki“ eða „klikkun“ er ásakaður um að ráðast á geðveika eða sá sem lætur sér annt um menninguna er ásakaður um árás á fatlaða með því að tala um opinber menningarstofnun sé „fötluð“.

Þessi umræðutaktík er ágætt dæmi um lifandi, illþýðanlega satíru og er fremur til þess fallin að afvegaleiða umræðuna en að stuðla að gagnkvæmum skilningi og félagslegu réttlæti.

Share to Facebook