Leyfið börnunum að lifa í lyginni áfram

Confirmation[1]

Þá er nú komið að því að blessaðir unglingarnir okkar ganga formlega í sértrúarsöfnuð sem kallast Þjóðkirkjan. Ekki til að taka virkan þátt í starfi hennar, heldur af því að flestir gera ráð fyrir því.

Sonur minn er á 17 ári og stendur utan trúfélaga. Ekki af því að hann hafi þörf fyrir trú. Ekki af því að hann hafi ekki áhuga á trúarbrögðum. Þvert á móti hefur hann mikinn áhuga á trúarbrögðum og reyndar hugmyndafræði almennt og þegar bekkjarsystkini hans fermdust sýndi hann miklu meiri áhuga á kristindómnum en nokkurt þeirra. Hann ræddi við a.m.k. þrjá presta í þeim tilgangi að fá svör við áleitnum spurningum; t.d. „hvaða hugmyndir hefur kirkjan um andaheiminn, upprisuna og lífið eftir dauðann?“ og „hversvegna mega samkynhneigðir ekki giftast í kirkju eins og annað fólk?“ Í flestum tilvikum varð blessuðum guðsmönnunum fátt um svör og einn þeirra sagði honum að það væri ekkert sniðugt hjá honum að vera að lesa Biblíuna, hann myndi skilja þetta allt saman seinna!

Það er svosem ósköp skiljanlegt að prestar séu ekkert hrifnir af því að athygli sé vakin á þeirri staðreynd að alþýðutrú Íslendinga og kenningakerfi kirkjunnar fara illa saman. Íslendingar eiga upp til hópa betri samleið með spíritistum en kirkjunni, þeir bara vita ekki að þeir eru skráðir í trúfélag sem lítur svo á að dauðir sofi í gröfum sínum. Sjálfsagt myndu margir skrá sig úr Þjóðkirkjunni ef þeir bara vissu að samkvæmt biblíunni eru þeir réttgrýtanlegir fyrir þá trú að langamma vaki yfir þeim, hafi jafnvel bein afskipti af lífi þeirra og sé reiðubúin að taka á móti þeim þegar þeir komi yfir móðuna miklu. Það er svosem ósköp skiljanlegt að prestar reyni að halda þessu leyndu fyrir fermingarbörnum, annars myndu börnin ekki fermast og þá gæti presturinn ekki borgað skuldirnar sínar og keypt í matinn. Það yrði líka lægra hlutfall af sköttum landsmanna sem rynni til kirkjunnar og því erfiðara að halda uppi blómlegu félagsstarfi nokkurra sérvitringa á kosnað almennings sem notar kirkjuna ekki til annars en að fermast, giftast, skíra börnin sín og hljóta greftrun.

Það er þó bót í máli að þeir sem skrá sig úr Þjóðkirkjunni þurfa samt ekki að leggja minna til trúarlífs þessa ákveðna sértrúarsöfnuðar en aðrir landsmenn. Ég borga að vísu ekki sóknargjöld en ég greiði það hlutfall sem aðrir greiða til þjóðkirkjunnar til Háskólans. Háskólinn þarf nefnilega að halda uppi guðfræðideild, svo við getum útskrifað fleiri presta til að ljúga að börnunum okkar. Og fyrst ég vil ekki borga starf kirkjunnar, þykir ekki annað en sjálfsagt að ég borgi þá í staðinn nám hinna geistlegu leiðtoga. Mér finnst þetta skrýtið, mjög skrýtið og þótt vegir Guðs kunni að vera órannsakanlegir, finnst mér nú tímabært að bera fram spurningar um hversu gott og siðlegt það sé hjá ríkinu að neyða mig til að borga fólki fyrir að ljúga að barninu mínu og hefta sjálfstæða leit þess að sannleikanum.

 

 

Share to Facebook

1 thought on “Leyfið börnunum að lifa í lyginni áfram

 1. Þorkell @ 07/04 11.35

  Þá finnst mér ekki viðeigandi að gagnrýna alla þjóðkirkjuna vegna þess að sonur þinn fékk ekki svör hjá örfáum aðilum.

  —   —   —

  Þorkell @ 07/04 12.21

  Eva segir: Gaman þætti mér samt að vita hvers vegna ég á að taka meiri þátt í kostanðinum við að halda uppi háskóla en sá sem er skráður í Þjóðkirkjuna? Kann einhver skýringu á því?

  Ég kann hana ekki. Þetta er eitthvað sem ríkið hefur ákveðið. Kannski ástæða til að spyrja stjórnmálaflokkana að því nú rétt fyrir kosningar. 😉

  —   —   —

  Óli Jói @ 07/04 12.45

  Auk þess má benda á að innan guðfræðideildar hófst trúarbragðafræði fyrir nokkrum árum.
  Þar eru flest stærri trúarbrögð tekin fyrir.

  —   —   —

  Árni Svanur @ 07/04 12.54

  Svo það sé nú alveg á hreinu: Þetta með kostnaðinn snertir ekki aðeins Þjóðkirkjuna heldur öll trúfélög. Þeir sem standa utan trúfélaga greiða sitt gjald til Háskólans.

  —   —   —

  Binni @ 07/04 13.19

  Þetta eru hvassir þyrnar. Ef maður fer ekki varlega gæti maður meitt sig.

  Hvað með það þótt alþýðutrú Íslendinga og kenningakerfi kirkjunnar fari ekki saman í einu og öllu? Ég gæti bent á ýmsar alvarlegri mótsagnir í lífinu sem skipta engum sköpum.

  Ég held að kirkjan hafi þá yfirburði yfir öll önnur kristin trúfélög að þegnar hennar þurfa ekki allir að vera steyptir í sama mót. Hún er að þessu leyti eins og Sjálfstæðisflokkurinn 😉 Nei, það var ekki góð samlíking. Ég reyni aftur: Hún er að því leyti eins og móðir sem gerir ekki upp á milli barnanna sinna enda þótt sum þeirra séu orðin fullorðin og vilji fara sínar eigin leiðir. Messan er eins og opinn faðmur þessarar móður sem spyr einskis þegar börnin hennar koma í mat.

  —   —   —

  Binni @ 07/04 13.19

  Ef prestar eru upp til hópa loddarar, hvað má þá segja um blessaða spíritistana? Hugsa sér að ljúga því að viðkvæmum börnum að afi og amma þeirra fylgist með þeim! Þar er lifandi komin myrkfælnin hjá Íslendingum. Væri það ekki í anda upplýsingar og mannlegrar skynsemi að hjálpa börnum að sætta sig við dauðann og kenna þeim að sleppa hendinni af ástvinum sínum þegar þeir eru ekki lengur á meðal okkar? Þar á kenning Lúthers kannski betur við en margt annað.

  —   —   —

  Þorkell @ 07/04 13.32

  Það er margt gott í því sem þú segir Binni. Hins vegar vil ég benda á eitt. Það sem mér finnst skipta máli hér er ekki hver lýgur heldur það að sýna ólíkum viðhorfum og trú (eða trúleysi) virðingu.

  —   —   —

  Binni @ 07/04 14.01

  Að sjálfsögðu, Keli. Ég tók þetta upp eftir Evu: Leyfið börnunum að lifa í lyginni áfram.

  Þú gleymdir að segja „Binni minn“, eins og þú segir alltaf þegar þú vandar um við mig. 😉

  —   —   —

  Þorkell @ 07/04 14.43

  Afsakaðu þetta elsku Binni MINN. Gerist ekki aftur 😉

  —   —   —

  Ólöf I. Davíðsdóttir @ 07/04 14.53

  Mér hefur löngum þótt það há umburðarlyndu fólki að vera fordómafullt í garð einstrengingslegra skoðana. Þá er náttúrulega umburðarlyndið fokið út í veður og vind. Á sama hátt eru þeir sem skilgreina sig sem trúleysingja eða guðleysingja gjarnir á harðneskju í garð trúaðra. Það skondna við það er að í rökum sínum skýla þeir sé á bak við trúfrelsisákvæði stjórnarskrár.

  Ég held ég hefji réttindabaráttu trúaðra. Trúarlíf er ekki ein stærð sem hentar öllum. Að stimpla trúaða sem afætur, sérstaklega þá sem tilheyra einni kirkjudeild fremur en annarri, Þjóðkirkjunni í þessu tilfelli, er ekkert nema fordómar.

  Af hverju á Siðmennt að vera viðurkenndur valkostur en Þjóðkirkjan ekki?

  —   —   —

  eva @ 07/04 23.52

  Merkilegt að sjá hvernig umræðan þróast.

  Binni, ég er ekki hrifin af spíritisma og mér finnst það athyglisvert að kirkjunnar menn skuli ekki halda því viðhorfi sterkar á lofti að við ættum að forðast spítitisma og kukl. Ég hefði haldið að það væri hlutverk kirkjunnar að leiða sauðina en ekki öfugt. Getur verið að þetta snúist í rauninni ekki um sannleikann, heldur sé einfaldlega pólitík af ómerkilegustu tegund, sú stefna að hafa alla góða, þókanst öllum og ljúga því sem ljúga þarf svo það megi heppnast?

  —   —   —

  eva @ 07/04 23.53

  Keli, þú þekkir engan prest sem gerir út á lygar. Þekkirðu einhvern prest Þjóðkirkjunnar sem segir fermingarbörnum sannleikann um kenningagrundvöll kirkjunnar? Þekkirðu einhvern prest sem segir sínum sóknarbörnum að það sé einfaldlega rangt að afi og amma séu á vappi í kringum okkur? Og er það ekki hlutverk presta að kenna það sem kirkjan býður? Ef lútherskur prestur er ósammála þeim kenningum sem kirkjan byggir á, hvers vegna er hann þá prestur? Af hverju gengur hann þá ekki í trúfélag sem predikar það sem hann telur rétt og gott? Snýst þetta kannski um eitthvað allt annað en sannleikann?

  —   —   —

  eva @ 08/04 00.03

  Og Ólöf, hvað kemur þetta fordómum við? Er það rangt hjá mér að kirkjan hafi látið það viðgangast að stór meirihluti meðlima hennar hafi allt aðrar hugmyndir um upprisuna og dauðann en hún sjálf viðurkennir?

  Er það merki um fordóma að vera ósátt við það að þurfa að greiða meira en aðrir til háskólans bara af því að ég stend utan trúfélaga? Mér er í raun refsað með aukaskatti fyrir að vera ekki styrktarfélagi einhvers trúfélags. Þetta eru litlar fjárhæðir og þessvegna nennir enginn að gera veður út af þessu en hvernig þætti þér að þurfa að greiða sérstakt gjald til háskólans á þeirri forsendu að þú sért hvort sem er ekki í hestamannafélagi?

  Og hver hefur sagt að Siðmennt eigi að vera viðurkenndur valkostur en Þjóðkirkjan ekki???

  —   —   —

  eva @ 08/04 00.32

  Já og Binni, tvennt í viðbót;

  „Hvað með það þótt alþýðutrú Íslendinga og kenningakerfi kirkjunnar fari ekki saman í einu og öllu? Ég gæti bent á ýmsar alvarlegri mótsagnir í lífinu sem skipta engum sköpum“

  Ertu sem sé að segja að hlutverk kirkjunnar sé EKKI það að uppfræða okkur um kristindóminn? Skiptir þá heldur nokkrum sköpum þótt meirihluti Íslendinga telji allt í lagi að stunda skattsvik og bera út óhróður um náunga sinn? Á kirkjan ekki bara að leggja blessun sína yfir slíka hegðun á þeirri forsendu að slíkt skipti ekki sköpum?

  „Messan er eins og opinn faðmur þessarar móður sem spyr einskis þegar börnin hennar koma í mat“

  Hlutverk móður var síðast þegar ég vissi að leiðbeina börnum sínum og kenna þeim mun á réttu og röngu. Hefur það breyst nýlega?

  —   —   —

  Binni @ 08/04 15.14

  Hvenær hætta börnin þín að vera börn, Eva?

  —   —   —

  Carlos @ 08/04 17.36

  Eva skrifaði:

  Sjálfsagt myndu margir skrá sig úr Þjóðkirkjunni ef þeir bara vissu að samkvæmt biblíunni eru þeir réttgrýtanlegir fyrir þá trú að langamma vaki yfir þeim, hafi jafnvel bein afskipti af lífi þeirra og sé reiðubúin að taka á móti þeim þegar þeir komi yfir móðuna miklu. Það er svosem ósköp skiljanlegt að prestar reyni að halda þessu leyndu fyrir fermingarbörnum, annars myndu börnin ekki fermast og þá gæti presturinn ekki borgað skuldirnar sínar og keypt í matinn.

  Það að prestar bera ekki ómelta biblíuna á borð fyrir alþjóð ber vott um menntun þeirra. Það eru um tvöhundruð ár síðan að vestræn, upplýst kristni hætti að vera bókstafstrúuð. Enn lengra síðan að fólk var grýtt eða brennt fyrir galdra.

  Það, að þjóðin, þar á meðal 17 ára sonur þinn og 15 ára sonur minn geta valið að fermast ekki í kirkju sannar ekkert annað en það að þeir hugsa sjálfstætt, fylgja ekki fjöldanum. Hvort íslenskir prestar borði betur eða ver vegna þessa, skiptir engu.

  —   —   —

  Carlos @ 08/04 17.44

  Pointið er þetta: Umburðarlyndi er kristin dyggð, lýðræðið eins og við þekkjum það líka. Það vex og dafnar með upplýsingunni, sem kristin kirkja hefur verið að boða samfara frelsi og jöfnuði kristinna manna og kvenna.

  Satt er: Kirkjan í heild sinni höktir oft á eftir fögrum kenningum sínum. Við sjáum líka þjóðfélaginu fara aftur og fram til skiptis í ýmsum málum: Atvinnu, velferð, frelsi einstaklinga og menntun.

  Kirkjuskatturinn er ekkert vandamál, ríkið fær meira en það borgar fyrir til baka, í formi fagmanna sem láta sér annt um velferð og líðan skjólstæðinganna og félagsskapar sem reynir að búa til vettvang þar sem fólk hjálpar hvert öðru á sorgar og gleðistundum, óháð trúfélagsaðild þeirra sem það sækja. Þetta er einmitt málið við þjóðkirkju: hún er fyrir þjóðina, þegar hún vill hana.

  —   —   —

  eva @ 09/04 00.58

  Binni ef þú ert að reyna að toppa Jesús í útúrsnúningum þá máttu lengi reyna, hann var nefnilega snillingur. Börnin mín hætta aldrei að verða börnin mín þótt þau vaxi úr grasi. Vissulega sleppa foreldrar með tímanum hendi af afkvæmum sínum en mér hefur nú skilist að sá sé einmitt munurinn á Guði föður og pabba mínum. Svaraðu mér nú heiðarlega án útúrsnúninga; ertu því ósammála að tvö megin hlutverk kirkjunnar séu a) að leiðbeina okkur og vísa okkur rétta leið b) að vera til staðar þegar við misstígum okkur á lífsins hálu braut?

  Til hvers þurfum við kirkju ef við eigum að gera öll siðferðileg og hugmyndarfræðileg spursmál upp við okkur sjálf?

  —   —   —

  eva @ 09/04 01.13

  Carlos trúir þú því virkilega að valkostir einir og sér nægi til þess að fólk fari að hugsa sjálfstætt? Prestar markaðssetja sína þjónustu rétt eins og leigubílstjórar fíkniefnasalar og skúringakonur. Á okkar tímum er vinsælt að búa við litlar kröfur og mikið frelsi. Því miður virðist þjóðkirkjan hlaupa eftir þeim duttlungum af ótta við óvinsældir. „Umburðarlyndi“ er slagorð dagsins og gildum kristindómsins hiklaust fórnað á altari þægindanna.

  Það er skiljanlegt. Prestar eiga hagsmuna að gæta og það eru fáir, hvort sem það eru prestar eða aðrir, tilbúnir til að missa spón úr aski sínum fyrir sannleikann, fyrir heiðarleikann. Það er einmitt þess vegna sem ég ber virðingu fyrir Gunnari í Krossinum. Ég er sjaldnast hrifin af því sem hann kennir en hann hefur hugrekki til að kenna óvinsælar hugmyndir. Það er þetta vinsældahórirí Þjóðkirkjunnar sem gerir það að verkum að fólk sækir þjónustu hennar aðeins á sérstökum gleði og sorgarstundum en gerir hana ekki að virku afli í lífi sínu.

  —   —   —

  Þorkell @ 09/04 09.02

  Mér finnst það einmitt vera kostur þjóðkirkjunnar að hún leyfir ólíkar skoðanir og viðhorf. Þótt það sé gaman að hlusta á menn eins og Gunnar í Krossinum myndi ég seint vilja vera meðlimur kirkju hans.

  Ég vil vera vera hluti af hópi sem leyfir ólíkar skoðanir og viðhorf. Hver á að túlka ritin og kenningarnar ef ekki við sjálf? Ég treysti persónulega ekki neinum betur til þess að vega hlutina og meta en sjálfum mér.

  Og ef við viljum sjálfstæða leit að sannleikanum verður kirkjan að hafa það mikið svigrúm og víðsýni að það sé mögulegt.

  Annars vil ég bara benda á að nafn frelsarans beygist svona:

  Jesús
  Jesú
  Jesú
  Jesú

  Setning þín:
  Binni ef þú ert að reyna að toppa Jesús í útúrsnúningum
  Ætti því að vera svona:
  Binni ef þú ert að reyna að toppa Jesú í útúrsnúningum

  —   —   —

  eva @ 12/04 12.52

  Rangt Keli. Setning mín ætti að vera „…toppa Jesúm…“ Það er allavega beygingin sem er gefin upp í ‘Islenskri orðabók Máls og Menningar. Ég fer nú reyndar ekki ofan af því að Ester Karvelsdóttir sem kenndi mér í barnaskóla og var ofstækisfullur málverndarsinni hafi kennt mér að beygja það Jesús-Jesús-Jesúm-Jesús. Hún talaði um einnig um „Jesú“ sem ávarpsfall sem ekki tíðkaðist í íslensku en mætti þó nota í virðingarskini við einhvern merkasta mann sögunnar. Ég hef haldið mig við beygingu hennar en sjálfsagt er hún umdeilanleg. Einfaldast væri auðvitað að taka upp íslenska beygingu Jesús-Jesús-Jesúsi-Jesúss, sbr. Magnús.

  —   —   —

  Þorkell @ 12/04 15.09

  Jesum er gömul beyging úr latínu sem flestir eru á að eigi að heyra sögunni til.

  —   —   —

  Binni @ 12/04 15.39

  Þetta hlýtur að vera misskilningur hjá þér, Eva, að Ester Karvelsdóttir hafi beygt nafn frelsarans svo: Jesús, Jesús, Jesúm, Jesús. Hafi hún gert það, var hún tæplega ofstækisfullur málverndarsinni. Þetta er beinlínis röng beyging í nf., þf., þgf. og ef.

  Lærðir menn beygðu fyrr á öldum venjulega latnesk nöfn og önnur orð að lögum latneskrar tungu þegar þau komu fyrir í íslensku. Því var notað latneska þofallið Jesum Christum fram yfir aldamótin 1900, og eignarfallið í latínu er Jesu Christi. Ávarpsfallið er Jesu Christe. Því ortu sálmaskáldin Ó, þá náð að eiga Jesúm og Ó, Jesú, bróðir besti. En í stað þessara ókennilegu fallmynda var góðu heilli sett nefnifallið Jesús í staðinn fyrir ávarpsfall og þolfallsmyndin Jesú í stað Jesúm í sálmabókarútgáfunni 1975. Í viðbætinum 1991 er hins vegar ýmist notað Jesús eða Jesú í ávarpsfalli. Latneska þolfallsmyndin Jesúm hefur alveg horfið, nema e.t.v. hjá elstu kynslóðinni.

  —   —   —

  Binni @ 12/04 15.40

  Ég man að Gísli heitinn Jónsson menntaskólakennari lagði til Jesú í öllum föllum: hér er Jesú, um Jesú, frá Jesú til Jesú. Þó ekki væri nema til að eyða öllum vitleysum eins og Jesúsi og Jesúsar o.s.frv.

  —   —   —

  Binni @ 12/04 15.43

  Magnús er Magnúsar í eignarfalli.

  —   —   —

  Örvar @ 12/04 19.57

  Ef Gísli hefur stungið upp á Jesú í öllum föllum þá hefur eflaust verið lítil alvara í því hjá þeim mikla meistara. Í þætti nr. 131 af Íslensku máli í Mogganum (24. jan. 1982) hvetur hann til þess að ávarpsfallið Jesú fái að halda sér.

  [Ég] bið þá, sem hafa með stjórn íslenskra kirkjumála, að lofa okkur, vantrúuðum og efagjörnum, sem sterk-trúuðum og efasemdarlausum, að hafa beygingu orðsins Jesús í friði, eins og við höfum lært hana í þeim sálmum, sem hrært hafa hjörtu okkar og vakið til hrifninfar fyrr og síðar.

  Svo í lokinn vitnar hann í 35. passíusálm Hallgríms Péturssonar.

  Gefðu að móðurmálið mitt, / minn Jesú, þess ég beiði, / …

  Gaman að sjá hvernig umræðan hefur þróast út í skemmtilegri sálma 😉

  —   —   —

  Eva @ 14/04 10.24

  Magnús er ýmist beygt Magnúss eða Magnúsar. Reyndar er sjaldgæft að skrá menn Magnússson með 3 s-um enda lítur það frekar illa út á blaði. Því tíðkast að skrá „Magnúsdóttir“ og „Magnússon“ og eins „Tómasdóttir“ og „Tómasson“. Af sömu ástæðu velja margir að skrifa ekki 3 t í þáttaka. Það kæmi auðvitað alveg til greina að nota „Jesúsar“ í eignarfalli en ég hef á tilfinningunni að sú beyging yrði ekki vinsæl. Mér finnst hins vegar út í hött að beygja þetta eina nafn eftir einhverjum allt öðrum reglum en önnur nöfn, nema þá vegna hefðar. Ég tek það til greina að mig kunni að misminna um beygingu Esterar, tek því hér með upp hina fornu beygingu þar til önnur hefur verið ákveðin með einhverjum öðrum rökum en þeim að nauðsynlegt sé að einfalda málið.

  —   —   —

  Binni @ 14/04 12.02

  Ég held að fæstir „velji“ að skrifa orðið þátttaka með tveim téum. Ég held að flestir gleymi því. Eða átti sig ekki á því að þetta samsetta orð, þátt-taka, er með þremur téum. Þetta finnst mér að þurfi að leiðrétta.

  Ef við getum valið þetta eftir því hvernig liggur á okkur, þá eru stafsetningarreglur óþarfar.

  Eignarfallsending kenninafna er undantekning frá reglunni um beygingar vegna viðskeytisins -son/-dóttir. Fyrir þessu er æði löng hefð. Þess vegna fer ég til Tómasar þó að hann sé Tómasson og þótt vinur minn sé sonur Magnúsar er hann Magnússon. -úss hljómar ekki vel, nema í Írak.

  Örvar hefur rétt fyrir sér — þangað til ég finn því stað að Gísli Jónsson hafi lagt til Jesú í öllum föllum.

  —   —   —

  Eva @ 22/04 10.04

  -son, -dóttir, eru ekki viðskeyti. Það er stóll ekki heldur en fæstir skrifa samt eldhússstóll. Samsett orð eru ekki undanþegin stafsetningarreglum frekar en önnur. Það er hins vegar rétt hjá þér að -úss hljómar ekki vel og þessvegna tökum við okkur stundum það bessaleyfi að lofa fagurfræðilegum sjónarmiðum að ráða. Þannig er það einnig um ritmálið. Það er einfaldlega ljótt að rita þrefaldan samhljóða.

  —   —   —

  Örvar @ 22/04 12.53

  Nú verð ég að mótmæla, þrír samhljóðar í röð eru yndislegir. Mér hlýnar alltaf um hjartarætur þegar ég keyri fram hjá Innnesi á leið upp á Skaga. Er ekki frábært að eiga móðurmál sem býður upp á slíkt.

  Tvisvar man ég eftir að hafa verið leiðréttur fyrir að beygja kenninafn „rangt“ sbr. þau sem hér er um rætt. Annars vegar af Jónasardóttur og hins vegar af Magnúsardóttur. Kunni ég því illa í bæði skiptin en virti það við þær að rita nöfnin eftir þeirra höfði. Til eru tvennskonar samsetningar, eignarfallssamsetningar og stofnsamsetningar (sbr. Land-spítali og Lands-síminn). Þannig er bæði rétt að rita eldhúss-stóll og eldhús-stóll.

  —   —   —

  Binni @ 22/04 17.06

  -son, -dóttir, eru ekki viðskeyti, gott og vel. Þessari föður- og móðurtáknun er þó skeytt við eignarfallsendingu kenninafns, svo einfalt er það.

  —   —   —

  Binni @ 22/04 17.07

  Nú er ég sammála Örvari. Það er fallegt að rita þrefaldan samhljóða (einmitt út frá fagurfræðilegu sjónarmiði). Eða hvað er ljótt við það? Og svo ég haldi nú áfram að reyna að „toppa Jesú“: Ef þér viljið eigi rita þrjá samhljóða af fagurfræðilegum ástæðum, þá gerið það af málfræðilegum! 😉

  Ég hélt hins vegar að samsetningar orða væru þrenns konar: stofnsamsetning (föst samsetning) sbr. hesthús, bílstjóri; eignarfallssamsetning (laus samsetning) sbr. eldsumbrot, bílastæði; bandsamsetning (tengistafs) sbr. ráð-u-nautur, teng-i-liður. Eignarfallssamsetningar eru algengari en stofnsamsetningar og því er ekki að undra þótt nafnbeygingar séu á reiki. Til að gæta samræmis þyrftu menn að gera upp við sig til hvaða beygingaflokks nöfn teljast. Rök og málvenja mæla t.d. eindregið með því að nafnið Ágúst sé tekið inn í algengasta beygingaflokkinn og því beygt eins og hestur. Eignarfallið yrði þá að sjálfsögðu Ágústs en ekki Ágústar. Það væri í samræmi við kröfuna um einföldun.

  —   —   —

  Örvar @ 22/04 21.28

  Ég vissi að ég væri að gleyma einhverju, bandasamsetningum. Til að flækja málið frekar þá getur tengistafurinn auðvitað verið s.

  —   —   —

  eva @ 23/04 09.19

  ‘Eg held að kenningin um bandsstafssamsetningu með s-i sem minnir á eignarfall, sé tilkomin vegna þeirrar rómantísku hugmyndar að allt hafi verið fullkomið í gamla daga. ‘I gamla daga beygði fólk orð ekki vitlaust, þessvegna hlýtur skýringin á þessu s-i út um allt að vera einhver önnur en sú að áar okkar hafi klínt eignarfallsendingu þar sem hún á ekki að vera. Þannig má réttlæta það að segja t.d. „athyglisvert“ þótt það sé strangt til tekið vont mál.

  Sjálf er ég hrifin af því að nota Magnúsar, Guðmundar og jafnvel Bjarnar í eignarfalli og þegar að því kemur að við fellum nafn „Jesúsar“ að nútímabeygingu, hljótum við að nota þá eignarfallsendingu sem venjulega er notuð á nafnið Magnús. S-endingin er lítið notuð í dag og ég man ekki nein önnur nöfn í augnablikinu sem enda á sérhljóða + s sem eru beygð með s-i í eignarfalli. „Jesúsar“ hlýtur því að vera eðlilegasta beygingin. Og satt að segja vil ég heldur leggja það á börnin mín að læra „rétta“ beygingu forna þótt hún sé e

  —   —   —

  Þorkell @ 23/04 12.11

  Það þarf ekki annað en að flétta í gömlum Biblíum til að sjá hversu „fullkomið allt var í gamla daga.“ Besta dæmið er líklega „y“, en það virðast ekki vera neinar reglur fyrir því hvað það lendir.

  —   —   —

  Olgan @ 01/09 18.52

  Hverjum er ekki nákvæmlega sama hvernig „Jesús“ er fallbeygt??!
  Eruð þið ekki komin ööööörlítið út fyrir efnið hérna?
  En allavegana…
  Eva, ég styð þig 100% í þessu máli!

  —   —   —

  Reynir @ 13/11 18.16

  ég er líka 100% sammála evu í þessu máli.

Lokað er á athugasemdir.