Kynfræðsluruglið

Í gær svaraði ég Lindubloggi um hina brýnu þörf á kynfræðslu í foreldrahúsum, við litlar vinsældir. Stend þó á því fastar en fótunum að endalaust blaður um kynferðismál sé unglingnum í skársta falli gangslaust og oftar en ekki dulbúin tilraun foreldra og samfélags til að ráðskast með einkalíf unga fólksins.

Móðir mín lagði töluvert upp úr kynlífsfræðslu þegar ég var að alast upp. Að sumu leyti var það ágætt. Ég fékk t.d. ekki taugaáfall við fyrstu blæðingar. Hún gaf mér einhverja hallærislega kynfræðslubók þegar hún taldi það tímabært og hélt umhyggjuríkan fyrirlestur um að fólk þyrfti aldrei að skammast sín fyrir hvatir sínar. Kannski hefur hana grunað að sá dagur rynni upp að mér yrði það á að fróa mér. Reyndar hafði ég uppgötvað sjálfsfróun meira en tveimur árum fyrr, án nokkurrar „fræðslu“ og skammaðist mín ekki baun. Taldi mig hafa gert uppgötvun og fannst í aðra röndina dálítið súrt að sjá að þessi iðja hefði verið stunduð um aldir.

Móðir mín vildi vel, það er ég sannfærð um, en tilgangur hennar með „fræðslunni“ var þó fyrst og fremst kynlífsforvarnir. Hún vildi fá að stjórna því hvenær ég byrjaði að stunda kynlíf og með hverjum. Ég var hlýðið barn og unglingur en í þessum efnum gerði ég nákvæmlega það sem mér bara sýndist, þegar mér sýndist, með þeim sem mér sýndist, eins oft og mér sýndist. Þegar móðir mín hóf síðasta fyrirlestur sinn um það hversu mikilvægt væri að vera í alvarlegu ástarsambandi áður en stóru skrefin væru tekin ásamt fullyrðingum um að samfarir væru afskaplega sársaukafull reynsla í fyrstu skiptin (sem stangast reyndar á við mína reynslu) sat ég ennþá undirleit og kinkaði kolli. Ég hafði þá þegar lifað nokkuð reglulegu kynlífi í tæp tvö ár og það var ekki vegna þess að hún hefði ekki verið margbúin að fara í gegnum svipaðar ræður áður en til þess kom.

Ég man kynfræðslutíma í skólanum. Hjúkrunarkonan kom og sýndi okkur getnaðarvarnir, m.a. smokka og notaði prik til að sýna hvernig ætti að koma þeim fyrir. Mér fannst þessi sýnikennsla kjánaleg. Ég og minn kærasti höfðum afrekað að nota þessar aulaheldu græjur án aðstoðar fullorðinna, rétt eins og kaffivélina, plötuspilarann og ýmsa flóknari hluti sem enginn sá ástæðu til að kenna okkur á.

Þegar ég fór að kenna í efstu bekkjum grunnskólans, kom fljótlega upp sú spurning hvort ekki væri nein kynfræðsla á stundaskránni. Ég kenndi ekki líffræði sjálf og sagði krökkunum að væntanlega yrði eitthvað komið inn á þessi mál í líffræðinni. Einn strákanna hótaði að æla á gólfið ef hann þyrfti að læra tíðahringinn einu sinni enn. Blessuð börnin vissu nefnilega nákvæmlega allt sem þau þurftu að vita um líffræðilegu hliðina. Þau vissu líka ýmislegt um undarlega kynhegðun sem ég hafði aldrei heyrt nefnda hvað þá meir. Einn drengjanna gat t.d. útskýrt hvers vegna væri ekki góð hugmynd að troða kókflösku upp í rassinn á sér. „Fræðslan“ sem börnin voru að sækjast eftir var aðallega staðfesting á því að þau væru kynverur. Þau vildu fá rök fyrir því hvers vegna þau ættu ekki að ríða. Að öðru leyti fannst þeim bara umræðuefnið spennandi, þau vantaði andskotans engar upplýsingar.

Ég hafði litlu við hina víðtæku þekkingu þeirra á kynlífi að bæta. Aðspurð staðfesti ég þá trú mína að yfirgnæfandi meirihluti fólks fróaði sér og það væri hið besta mál. Ég predikaði notkun smokksins en sleppti því að öðru leyti að predika. Sá enga þörf á sértækum kynlífsforvörnum heldur en gaf þeim álit mitt niðursoðið:

Kynlíf, eins og allt annað í lífinu, lukkast best, ef maður fer varlega af stað, edrú, með einhverjum sem maður treystir, gerir varúðarráðstafanir og hættir við ef manni líst ekkert á það.

Þetta er auðvitað engin fræðsla heldur bara ákveðið viðhorf og viðhorf elur maður upp í börnunum sínum, smátt og smátt. Það er ekki hægt að kenna sjálfsvirðingu og samskipti með alvarlegu samtali þegar liðið er að eigin mati fullorðið.

Ég held að í okkar upplýsingarsamfélagi sé yfirleitt lítil þörf á því að eyða miklu púðri í kynfræðslu. Uppeldið skapar viðhorfin og það tekur ekki nema 17 mínútur að fara í gegnum kynsjúkdóma, getnaðarvarnir og tíðahringinn. Unglingur sem hefur alist upp við andstöðu gegn ÖLLU ofbeldi mun hvorki beita kynferðislegu ofbeldi né láta það yfir sig ganga. Unglingur sem er alinn upp við sæmilega heilbrigð viðhorf til mannskepnunnar, lætur ekki einhverja bjána telja sér trú um að það sé æskilegt að prófa sig áfram við óvenjulegar kynlífsathafnir í partýi. Ef foreldrarnir eru ábyrgir er m.a.s. mjög ólíklegt að unglingurinn þeirra mæti í eftirlitslaus partý. Ef foreldrarnir líta á samkynhneigða sem jafn mikilvægt og rétthátt fólk og aðra, þá komast þau viðhorf til skila án þess að krakkinn finni sig knúinn til grátbólginna játninga um kynhneigð sína.

Synir mínir voru orðnir læsir löngu áður en þeir fóru að nota getnaðarvarnir og því full færir um að lesa leiðbeiningarnar án minnar aðstoðar. Ef annar þeirra fær klamma eða barnar stúlku án þess að ætla sér það er það ekki vegna þess að ég (eða skólinn) hafi vanrækt að kenna honum á smokk, heldur af því að hann ákvað að taka áhættu. Ég hef enga trú á því að synir mínir geri sig seka um að beita ofbeldi eða komi fram við bólfélaga sína eða maka af virðingarleysi og þó hef ég aldrei sest niður ábúðarfull á svip til að ræða við þá um kynferðismál. Ekki af því að mér finnist það erfitt, heldur af því að þegar ungt fólk á annað borð kann að hegða sér, er ekki nein þörf á því að fara í gegnum sérstakt prógramm. Samskipti kynjanna koma upp í umræðum á heimilinu, rétt eins og heimsmálin, fjármálin og umgengnin um sorprennuna. Þeir hafa stundum spurt um viðhorf mín í þessum efnum sem öðrum (börn sem eru alin upp við hispursleysi þurfa nefnilega ekki að pukrast) en ég hef aldrei fengið frá þeim spurningar um það hvernig fólk beri sig að við kynlífsathafnir. Ég held ekki að það sé vegna þess að þeir séu svo bældir eða haldi að ég tæki því illa. Ég held bara að bæði hafi þeir nægilegt hugarflug til að finna út hvernig best sé að bera sig, án minnar aðstoðar og að þeim finnist þægilegra að ræða kynferðismál við aðra en nánustu ættingja. Ég held líka að þegar foreldrar leggja mikið upp úr umræðum um kynlíf, helgist það meira af þeirra eigin þörf fyrir að vita hvað krakkinn er að hugsa en þörf unglingsins fyrir upplýsingar.

Share to Facebook

One thought on “Kynfræðsluruglið

  1. ————————————

    Með öðrum orðum: Af því mamma þín reyndi að fá þig til að stunda minna kynlíf en þú sjálf vildir, þá er engin ástæða fyrir foreldra til að tala við börnin sín um kynlíf.

    Posted by: Áhugasamur uppalandi | 5.07.2007 | 17:21:44

    ———————————————-

    Mér sýnist við vera bæði sammála og ósammála eva – sem er í góðu lagi. Held líka að það sé einhver túlkunarmisskilningur í gangi ásamt öðrum almennum misskilningi, en það er líka í góðu lagi.

    Posted by: lindablinda | 5.07.2007 | 20:29:39

    ———————————————-

    Áhugasamur uppalandi hefur greinilega aðeins lesið nokkrar setningar úr færslunni, eða ákveðið að slíta orð mín úr samhengi.

    Það er rétt skilið að almennt tel ég enga nauðsyn á því að foreldrar kaffæri börnin sín í kynlífsfræðslu.

    Það er hinsvegar rangt að ég hafi þessa skoðun vegna mislukkaðra kynlífsforvarna móður minnar.

    Ég tel enga ÞÖRF á þessu endalausa kynlífsblaðri vegna þess að:
    a) Það er enginn skortur á upplýsingum sem veldur kynsjúkdómum og barneignum barna.
    b)Ef samskiptin eru í lagi gefst örugglega færi á að koma því sem máli skiptir að, án sérstakra fundahalda.

    Það er svo annað mál að ég álít tilraunir mæðra til að stjórna kynlífi barna sinna aukinheldur ÓVÆNLEGAR TIL ÁRANGURS.

    Réttupphend allir sem byrjuðu að stunda kynlíf þegar mamma leyfði það.

    Posted by: Eva | 5.07.2007 | 21:05:58

    ———————————————-

    Eins og ég sagði…..einhver misskilningur í gangi – lastu mína færslu örugglega vandlega? 🙂

    Hvergi talað um leyfi eða niðurnelgd fundarhöld og að sjálfsögðu fært í stílinn með samtalið – frekar þetta, að þó svo að þau fái upplýsingar einhversstaðar frá, er ekki þar með sagt að þau skilji þær alveg, hvað þá að þau séu óhrædd eða tilbúin, jafnvel þó þau haldi það.
    Það er n.b.Mín reynsla.

    Ég hef forðast að stýra barni mínu með boði og bönnum, en hef alltaf boðið henni að ræða alla hluti, sem hún hefur sem betur fert gert og finnst eðlilegt.

    Ég hefði viljað hafa einhvern til að tala við á sinum tíma – hefði komist hjá margri vondri reynslunni sem kom til vegna þekkingarleysis hjá mér, sem taldi mig vita allt – eins og sönnum unglingi sæmir.

    Svo veit ég ekkert hvernig það er að eiga strák…kannski er það öðruvísi en að eiga stelpu (??) Afsakaðu annars langlokuna í kommentakerfinu 😉

    Posted by: lindablinda | 6.07.2007 | 10:21:55

    ———————————————-

    Það vakti ekkert fyrir mér að setja út á þínar uppeldisaðferðir Linda mín. Ég þekki dóttur þína ekki neitt og það má vel vera að ég hefði farið nákvæmlega eins að í þínum sporum.

    Ég er hinsvegar að velta upp efasemdum um viðhorf sem í dag virðist ríkjandi; semsagt það að kynhegðun sem foreldrarnir álíta óæskilega, sé til komin vegna fáfræði og að henni sé hægt að stýra (og beri að stýra) með uppfræðslu.

    Posted by: Eva | 6.07.2007 | 12:31:18

    ———————————————-

    En er ekki nauðsynlegt að benda táningum á að kynlíf í klámmyndum er ekki endilega normið? Ég held nefnilega að margir fái sína kynlífsfræðslu úr klámmyndum sem leiðir til þess að stúlkur eru plataðar í endaþarma- og kok-mök, jafnvel þótt þær hafi ekki löngun til þess eða nautn af því.

    Posted by: Þorkell | 6.07.2007 | 14:55:00

    ———————————————-

    finnst einhverjum hérna kynhegðunin: totta til að komast inn í partí, eðlileg og æskileg?

    Posted by: hildigunnur | 6.07.2007 | 16:22:46

    ———————————————-

    Ég hef enga trú á því að eðlilegur og vel uppalinn unglingur láti plata sig út í skaðlegar kynlífsathafnir.

    Vitaskuld reynir ábyrgt foreldri að hafa áhrif á það hvaða viðhorf börnin tileinka sér en ef þú vilt stunda klámforvarnir er allt of seint að byrja á því þegar barnið er orðið unglingur.

    Haukur var tæpra 11 ára þegar hann kom heim og sagði að sér hefði verið boðið heim til vinar síns til að horfa á klámmynd. Ég efast um að margir krakkar tilkynni slíkt heima hjá sér. Að sjálfsögðu sagði ég honum að klám ætti lítið skylt við raunveruleikann en ég held reyndar að hann hefði áttað sig á því án aðstoðar, rétt eins og ég sjálf á sínum tíma.

    Ég segi enn og aftur að besta forvörnin og sú eina sem virkar er að ala barnið upp með því markmiði að það verði tillitssöm og öguð manneskja.

    Annars spái ég því að þess verði ekki langt að bíða að einhver forvarnaspengillinn ráðleggi foreldrum að horfa á klámmyndir með börnunum sínum, svona til að reyna að hafa áhrif á smekk þeirra.

    Posted by: Eva | 6.07.2007 | 16:28:29

    ———————————————-

    Ég er sammála þér um að það er of seint að ætla að byrja um 13-14 ára aldurinn og að uppeldi skipti hér miklu máli. Ég held hins vegar að eitt þurfi ekki endilega að útiloka annað. En auðvitað er best ef umræðurnar gerist að sjálfu sér, þ.e. að þetta sé eitthvað sem beri á góma frekar en að maður setjist alvöruþrunginn niður með barninu til að ræða um þessa „dauðans alvöru“.

    Posted by: Þorkell | 6.07.2007 | 19:16:01

    ———————————————-

    Trúir því einhver að „kynhegðunin“: totta til að komast inn í partí, stafi af fáfræði?

    Posted by: Eva | 6.07.2007 | 20:05:12

    ———————————————-

    nei. Það er pottþétt eitthvað annað að. En þetta er samt til.

    Posted by: hildigunnur | 7.07.2007 | 13:13:18

    ———————————————-

    sko, ég er ekkert hrædd um að minn unglingur fari að taka upp á svona hegðun.

    Var bara að taka dæmi um hegðun sem mér finnst óæskileg og ég myndi vilja stýra henni frá.

    Posted by: hildigunnur | 7.07.2007 | 18:03:41

    ———————————————-

    Ég hef á tilfinningunni að þú sért í góðum málum Hildigunnur.

    Minn strákur hringdi og lét sækja sig í partý þegar honum fannst það stefna í að fara úr böndunum og ég held að ef börn eru alin upp við ástúð og aga og þeim er kennt að beita sinni eigin dómgreind sé það nákvæmlega útkoman.

    Ég er ekkert á móti því að málin séu rædd þegar ástæða er til en ég er pirruð á þessum umræðu- og uppfræðslubylgjum sem af og til ríða yfir. Vandinn liggur nefnilega ekki í fáfræði og ég held við séum nú flest sammála um það.

    Posted by: Eva | 8.07.2007 | 9:34:54

    ———————————————-

    jamm 🙂

    Posted by: hildigunnur | 9.07.2007 | 0:01:15

Lokað er á athugasemdir.