Kosningaspá 2017

Alþingiskosningar framundan og um að gera að vinda sér í kosningaspá. Hér má sjá þróunina á fylgi flokkanna síðustu árin og hér eru nýjustu tölur. Ekki reyndar ítarleg spá en gefur kannski vísbendingu.

Eftir allt sem á undan er gengið er Sjálfstæðisflokkurinn ennþá sá flokkur sem nýtur mests fylgis. Fylgi flokksins jókst í kjölfar Panamahneykslisins og liggur beinast við að túlka það sem stuðning eða a.m.k. samþykki fyrir þeirri spillingu og leynimakki sem þar afhjúpaðist. Ég spái því að Sjálfstæðisflokkurinn bæti nú við sig fylgi frá síðustu kosningum.

Framsókn kemur ekkert glæsilega út en hún fær oftast meira fylgi í kosningum en könnunum. Fólk skammast sín skiljanlega fyrir að kjósa hana og segir þessvegna ekkert frá því. Maddaman er nú búin að vera í skammarkróknum nógu lengi til þess að kjósendur eru ekki lengur uppteknir af þeim margháttuðu skandölum sem urðu til þess að 20.000 manns steðjuðu á Austurvöll til að reka Sigmund Davíð Gunnlaugsson frá völdum. Sigurður Ingi Jónsson er geðþekkur maður og kemur vel fyrir, að minnst kosti í samanburði við forvera sinn og Vigdís er horfin af sjónarsviðinu. Framsókn mun því sennilega endurheimta töluvert af sínu gamla fylgi.

Vinstri græn eru jafn, eða næstum jafn vinsæl og Sjálfstæðismenn enda eru áherslumál þeirra í reynd, miklu skyldari stefnu Sjálfstæðisflokksins en yfirlýstri stefnu Vg. Vinstri græn eru líkleg til þess að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum enda sýndu þau og sönnuðu viljaleysi sitt til þess að vinna með umbótaöflunum fyrir síðustu kosningar.  Það yrði að vísu pínulítið vandræðalegt fyrir þau að vinna með Sjöllum en það var líka vandræðalegt þegar þau sviku í stjórnarskrármálinu og það var vandræðalegt þegar þau komu á stjóriðju á Bakka. Þeim líður ekkert svo illa yfir því að vera staðin að óheiðarleika að það sé nein frágangssök. Þau munu allavega ekki standa í vegi fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn haldi völdum. Ekki frekar en síðast.

Ég spái því að Íslendingar kjósi yfir sig ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar með aðkomu eða stuðningi Vinstri grænna. Þar með verður pólitískur stöðugleiki tryggður: áframhaldandi spilling, fúsk og leynimakk. Þegar upp er staðið er stór hluti kjósenda bara alveg til í það. Verst að það bitnar ekki endilega á þeim sem eiga það skilið. Það er þessvegna sem ég ætla að kjósa, vegna þeirra sem eiga betra skilið. Ég ætla að kjósa Pírata.

 

Share to Facebook