Klukknaskark

Church_Bells_Narikala_fortress

Nú er ég ekki sögufróð en ég held að sá siður að hringja kirkjuklukkum hafi á sínum tíma þjónað þeim praktíska tilgangi að minna fólkið á að messa væri að hefjast. Nokkuð snjallt ráð í samfélagi þar sem flestir fóru í sunnudagsmessu en fáir gengu með úr.

Mér finnst aftur á móti ekki ýkja snjallt að þá sjaldan að ég næ því að sofa út á sunnudagsmorgnum, skuli kirkjan taka að sér að ræsa mig. Ég bjó vestur í Högum um tíma og þar voru klukknahringingar svo truflandi að strákarnir vöknuðu við þær líka.

Þetta er ekki stórt vandamál í lífi mínu (þótt ég stefni að því að lifa svo dramsnauðu lífi að ég geti leyft mér að gera vesen úr einhverju jafn léttvægu) og ef það væri það myndi ég bara nota eyrnatappa en mér finnst þetta skrýtið. Í dag eiga jafnvel kirkjuræknustu Kristlingar úr, svo varla þjónar þetta bjölluskark þeim tilgangi að kalla lýðinn til kirkju.

Kannski gæti kirkjan skoðað möguleikann á því að afleggja þessar morgunhringingar um leið og jafnrétti til að ganga í hjónaband verður tekið upp innan hennar. Ef það er þá ekki of stórt skref.

Þegar þetta er skrifað er klukkan 8:24 á sunnudegi og klukkurnar þagnaðar. Ef kirkjan treystir sér ekki til að taka það stóra skref að hætta að hringja klukkum, mætti þá ekki allavega fresta því til kl 9?

 

Share to Facebook