Kennum reykingar í grunnskólum

´reykingarReykingar eru stór þáttur í lífi Íslendinga. Í raun svo stór þáttur að það er hneykslanlegt að reykingakennsla skuli ekki löngu hafa verið tekin upp í skólum landsins. Hvernig stendur á því að börn eru ekki frædd um sögu reykinga, áhrif þeirra á menningu okkar, táknrænt mikilvægi þeirra í kvenfrelsisbaráttunni og þá fróun sem reykingar gefa í erfiðleikum? Auðvitað er ég ekki að tala um að eigi að boða reykingar í skólum, að sjálfsögðu eiga börnin að fá að ákveða sjálf um 14 ára aldurinn hvort þau reykja eða ekki. Hér yrði aðeins um kennslu að ræða, auk þess sem boðið yrði upp á reykstundir fyrir þau börn sem hafa eðlislægan áhuga á reykingum og sígarettuframleiðendur fengju tækifæri til að kynna vörur sínar í skólum.

Ég veit að ekki munu allir vera mér sammála og vil því færa rök fyrir þessari skoðun.

-Reykingar hafa haft mikil áhrif og jákvæð á menningu okkar.
Reykingar hafa áhrif á tískuna, margar þekktar persónur úr skáldskap og kvikmyndum reykja. Reykingar hafa verið notaðar sem tákn um sjálfstæði og frelsi og eru því frelsandi afl í sjálfu sér. Þannig notuðu margar kvenréttindakonur sígarettu sem yfirlýsingu um að þær stæðu körlum jafnfætis á sínum tíma og enn í dag nota unglingar reykingar til þess að rísa gegn foreldravaldi og staðfesta stöðu sína innan hópsins. Ef ekki væri fyrir reykingar væri sennilega mun meira um kúgun minnihlutahópa í dag.

-Reykingar eru grundvöllur samfélagsins. 
Það sannast á því að þær eru allt í kringum okkur en einnig gætir andlegra áhrifa reykinga greinilega í daglegu lífi almennings, einnig hjá þeim sem kalla sig reyklausa. Vanahegðun reykingamannsins tekur bara á sig aðeins aðra mynd hjá þeim sem ekki reykja. Ég nota t.d. kaffi á sama hátt og reykingamaðurinn notar sígarettu. Bæði til nautnar en stundum líka helli ég kaffi í bollann og gleymi því svo, rétt eins og reykingamaðurinn á það til að láta sígarettu brenna upp í öskubakkanum. Af þessu sést að reykingar eru í raun grundvöllur allra okkar athafna.

-Allir hafa einhverja reykingalega reynslu. 
Hver kannast ekki við að hafa fundið fyrir áhrifum tóbaksreyks án þess að kveikja í sígarrettu? Við sjáum jafnvel ungbörn sem gera sér ekki einu sinni grein fyrir því hvað nikótín er, róast þegar reyk er blásið framan í þau. Reyklausir verða fyrir áhrifum af reykingum, sama hversu mikið þeir eru á móti þeim. Þess eru jafnvel dæmi að fólk sem aldrei hefur reykt fái lungnakrabba af óbeinum reykingum.

-Fólk er líklegast til að byrja að reykja á aldrinum 13-16 ára. 
Á þessum aldri er fólk að máta hlutverk hins fullorðna og tileinka sér lífsafstöðu. Meirihluti unglinga er opinn fyrir reykingum á þessum árum, einkum þegar reykingar tíðkast í félagahópnum. Það að hinn einlægi barnshugur skuli taka gagnrýnislaust á móti sígarettunni sýnir hve sterkur grundvöllur er fyrir reykingum í samfélagi okkar.

-Á stund örvæntingarinnar eru allir reykingamenn. 
Reykingar eru huggun í harmi. Flestir reykingamenn reykja meira á tímum álags og erfiðleika. Algengt er að fólk byrji að reykja þegar það á um sárt að binda. Fyrir nokkrum árum kom hingað til lands hópur flóttamanna frá Kosovo. 75% þeirra sem reyktu höfðu byrjað á því í flóttamannabúðunum. Á stund örvæntingarinnar flýr flest fólk á náðir sígarettunnar sem sannar að reykingar eru manninum eðlilegar og nauðsynlegar.

-Allir menn reykja. 
Líka þeir reyklausu. Jafnvel hinn versti reykingafantíkus er reykingamaður innst inni. Reyklausir mótmæla því oft ákaft að þeir séu reykingamenn. Sumir þeirra skrifa harðorðar blaðagreinar um andúð sína á reykingum. Það er auðvitað merki um laumureykingar eða a.m.k. mikla nautn af óbeinum reykingum þegar menn eru svona uppteknir af skaðsemi reykinga. Einnig eru til samtök sem berjast gegn reykingum og má í raun tala um þau sem reykingamannafélög, enda snýst allt þeirra starf um reykingar.

Af ofansögðu má ljóst vera að í raun og veru ríkir fullkomin sátt um mikilvægi reykinga í samfélaginu. Það ætti því að vera sjálfsagt og eðlilegt að ríkið sjái reykingamönnum fyrir tóbaki og að hið jákvæða og góða við reykingar sé eðlilegur þáttur í öllu skólastarfi.

 

 

Share to Facebook

1 thought on “Kennum reykingar í grunnskólum

 1. ——————

  já, en hvað eigum við þá að tilbiðja?

  sígarettuna, eldfærin og hinn heilaga vindil?

  Posted by: baun | 28.01.2007 | 14:15:12

  eh?

  Posted by: hildigunnur | 28.01.2007 | 22:50:56

  Þetta er alveg frábær pistill hjá þér. Takk.

  Posted by: Kjartan | 29.01.2007 | 15:49:24

  Frábær grein! Skemmtileg líking sem getur hjálpað við að ná fólki úr viðjum vanans.

  Posted by: Svanur Sigurbjörnsson | 29.01.2007 | 16:41:59

  „-Á stund örvæntingarinnar eru allir reykingamenn.
  Reykingar eru huggun í harmi. Flestir reykingamenn reykja meira á tímum álags og erfiðleika. Algengt er að fólk byrji að reykja þegar það á um sárt að binda. Fyrir nokkrum árum kom hingað til lands hópur flóttamanna frá Kosovo. 75% þeirra sem reyktu höfðu byrjað á því í flóttamannabúðunum. Á stund örvæntingarinnar flýr flest fólk á náðir sígarettunnar sem sannar að reykingar eru manninum eðlilegar og nauðsynlegar.“

  Þetta er yndislegt.

  Posted by: Kalli | 30.01.2007 | 21:17:42

  OMG…enn sorglegt !!!

  Posted by: Dor | 1.02.2007 | 2:09:39

  Þetta er algjört rugl bara þússt ,maður á ekkert að styðja reykingar í skólum!
  Reykingar eru ógeð og það á ekki að vera að hvetja unglinga, eða hvern sem er til þess að Reykja!
  REYKINGAR ERU ÓGEÐSLEGAR!!!!!!!!!!!
  hugsið um þá sem hafa dáið eða bara glatað allri sinni framtíð útaf reykingum! hugsið um það sem þið skrifið þú/þið gætuð verið búin að hvetja einvern ungling eða einhvern til þess að reykja og þá gætuð þú/þið verið búin að eiðileggja líf þessarar manneskju.
  Kv. 8. bekkur í skóla

  Posted by: 8. bekkur í skóla | 15.11.2007 | 11:06:39

  Kæru unglingar.

  Líklega lærið þið ýmislegt um stílbrögð í íslenskukennslunni í vetur. Þar á meðal munuð þið læra um stílbragð sem er kallað írónía.

  Hér kemur skemmtilegt aukaverkefni sem þið getið leyst til að fá betri skilning á því hvað írónía er. Prófið að skipta orðinu reykingar út fyrir orðið „trú“ og lesið textann yfir aftur. Veltið því svo fyrir ykkur hversvegna flest ykkar munu fermast í vor. Er það kannski vegna þess að þjóðkirkjan sé svo æðisleg?

  Ég er sammála, reykingar eru virkilega ógeðslegar.

  Posted by: Eva | 15.11.2007 | 12:15:32

  þetta er mesta kjaftæði sem ég hef nokkurn tíma lesið…eigum við næst að boða að getnaðarvarnir séu slæmar og það sé töff að vera með kynsjúkdóma?

  Posted by: Pétur | 20.04.2008 | 17:03:13

  okkur finnst þetta ekki vera rétt því reykingar drepa og eru ekki til þess að hvetja fólk.
  það er *gg* ógeðslegt að hvetja
  fólk til að reykja sérstaklega krakka í grunnskólum því þá getur það orðið vanabindandi og ólíklegra að þau geti hætt.
  Það er svo alls ekki í tísku að reykja nema það sé tíska að drepa sjálfansig og skaða fólk í kringum sem hefur ekki gert neitt !!!! og þú gætir verið ábyrg á dauða eða eyðileggingu lífs annara manneskja !!!!! þú ættir að hugsa um aðra en ekki bara sjálfa þig og þínar skoðanir
  kv 8 bekkur vonum að þér snúist hugur :D;)

  Posted by: 8 bekkur í skóla | 13.02.2009 | 11:55:22

  Lesið athugasemd hér að ofan og reynið svo að nota meira en 2% af heilanum kjánaprik. Ef er virkilega heill bekkur sem hefur sameinast um að tjá sig, þá gætuð þið kannski beðið einhvern kennarann að útskýra hvað írónia er.

  Posted by: Eva | 13.02.2009 | 16:28:03

  þetta er bara helvítis rugl og við hugsum með svona 120% af heilanum annað en þú. Ég meina hvaða hálviti segir að það sé töff að reykja það er alveg eins og að hlaupa út á götu og segja nýasta tíska, nýasta tíska dreptu þig!!!!!
  Ég er að segja það þetta er það fáránegasta og brenglaðasta sem ég hef heyrt svo back off við viljum okkar líf. Og ein sígaretta styttir lífið um 11 mín.Það er blásýra í sígarettum og það er ein banvænasta sýra sem til er, svo eru 4000 efnasambönd í þeim og meira en 40 af þeim eru krabbameinsvaldandi!!!!!! svo bara hafðu þínar skoðannir útaf fyrir þig og þínar reykingar og tískan í dag er heilbryggt líf!!!!!!!
  frá einni sem segir að þetta sé algjört rugl!!!!

  Posted by: Ein í 8.bekk | 13.02.2009 | 17:08:53

  Snilldarpistill 🙂

  8. bekkur veit auðvitað ekki að Eva hatar reykingar út af lífinu. Þessi pistill er í raun ekki um reykingar heldur er verið að gera grín að trúarbragðakennslu. Hún er að sýna fram á að rökin fyrir því að kenna trú í grunnskólum eru svo bjánaleg að það væri hægt að nota þau til að sýna fram á það ætti að kenna krökkum að reykja.

  Posted by: S.I. | 13.02.2009 | 17:30:59

  Kæru 8. bekkingar.

  Um þessar mundir hamast útsendarar kirkjunnar við að heilaþvo ykkur með mörg þúsund ára gömlu bulli og ginna ykkur til að ganga í sértrúarsöfnuð sem heitir Þjóðkirkjan og kostar foreldra ykkar morð fjár í skattgreiðslum. Foreldrar ykkar undirbúa fermninguna, flestir án þess einu sinni að spyrja ykkur hvort þið trúið, hvað þá hvort ykkur sé alvara með að tilheyra trúfélagi sem játar jafn fáránlega hluti og það að dauðir sofi í gröfum sínum til dómsdags en muni þá rísa upp til eilífrar paradísar á jörðu. (Þetta er sú trú sem kirkjan játar, prestarnir passa bara að segja ykkur það ekki svo þið hættið ekki við að fermast.)

  Ástæðurnar fyrir því að prestar og annað trúfólk fær ennþá tækifæri til að predika bullið úr sér í grunnskólum og jafnframt ástæðan fyrir því að fólk sem er talið of ungt til að kjósa sér ríkisstjórn fær samt sem áður að fermast inn í trúfélag, eru eftirfarandi rök:

  -Kristin hefur haft mikil áhrif og jákvæð á menningu okkar.
  -Kristin gildi eru grundvöllur samfélagsins.
  -Allir hafa einhverja trúarlega reynslu.
  -Það er auðveldast að hafa áhrif á fólk á aldrinum 13-16 ára. (Pælið sérstaklega í þessu, það er gagngert verið að reyna að troða upp á ykkur trú á áhrifagjarnasta aldri.)
  -Á stund örvæntingarinnar eru allir trúaðir.
  -Í hjarta sínu trúa allir á eitthvað.

  Ef þið setjið eitthvað annað ógeð í staðinn fyrir trú eða kristni, (t.d. reykingar) þá sjáið þið að þessi rök eru handónýt. Flest ykkar munu samt fermast, án þess að meina neitt með því. Ekki vegna gjafanna, heldur aðallega vegna þess að fáar manneskjur hugsa fyrir sig sjálfar og eru alveg til í að vera skráðir í einhvern bjánasöfnuð bara af því að flestir eru það. Af sömu ástæðu myndu flest ykkar byrja að reykja ef ekki væri fyrir fólk sem hefur staðið í mikilli baráttu til að fá að kynna ykkur sannleikann um tóbak.

  Þið getið séð meira um álit mitt á reykingum hér:http://www.nornabudin.is/sapuopera/2005/12/a_upprta_ofbeldi.html

  Posted by: Eva | 13.02.2009 | 18:01:26

  Mér þykja 8. bekkingar helst til sjóaðir í togarafræðum. Eru 8. bekkingar að stunda er.is á fullu eða hvað?

  Posted by: Nonni | 13.02.2009 | 23:32:51

  Þú ert KLIKKUÐ !! þúst kenna krökkum reykingar ! þetta er það fáránlegasta sem ég hef heyrt !

  Posted by: Lol x D | 24.04.2009 | 11:49:00

Lokað er á athugasemdir.