Kennum börnum að nota tarotspil

tarotUppeldishlutverk grunnskólans verður æ mikilvægara og sífellt fleiri námsgreinar eru teknar upp. Það hlýtur að teljast undarlegt í meira lagi að enn hefur ekki frést af neinum áformum um að kenna spádómslist tarotpilanna í skólum landins. Ég hef spurt fjölda manns hvað þeim finnist um þá hugmynd að kenna tarot í skólum og mér til undrunar eru viðbrögðin á einn veg; fólk álítur að fé skattgreiðenda væri betur varið til þess að kenna eitthvað hagnýtt, t.d. fjármálastjórnun, og hefur auk þess áhyggjur af því að námsgreinar á borð við tarot feli í sér innrætingu siðferðisgilda og trúarlegra hugmynda sem börn eigi fyrst og fremst að kynnast heima hjá sér og eigi jafnvel ekki erindi við börn.

Sjálfri finnst mér sjálfsagt mál að verja fé og tíma til þess að kenna skólabörnum að þekkja og nota tarotspil til spásagna. Margvísleg rök liggja þar að baki.

Tarotspilin eru vinsælasta spádómakerfi í heimi og þau hafa sögulega sérstöðu gagnvart annarri spásagnahefð. Fjöldi manns hefur fundið huggun í þeim á erfiðum stundum og tarotspáfólk sem starfar um allt land, gegnir hlutverki sálfræðings í lífi fjölmargra. Tarotspilin og sú speki sem býr að baki þeim hefur haft gífurleg áhrif á hugsun, viðhorf og jafnvel breytni fólks, auk þess sem myndmál þeirra og þær goðsagnir sem þau sýna (og spákonan eða spámaðurinn túlkar með tilliti til spyrjandans), eru sígilt viðfangsefni myndlistarmanna og rithöfunda.

Tilgangurinn með því að kenna notkun tarotspila í skólum yrði auðvitað fyrst og fremst fræðilegs eðlis en alls ekki trúarlegs. Börnin fengju sjálf að ráða því hvort þau tækju mark á spádómunum og nýttu sér þá í daglegu lífi. Ef börn yrðu gerð læs á myndmál tarotspilanna myndu þau skilja betur alla þá listsköpun, stjórnmálaumræðu, trúarumræðu og almennt tungutak sem sækir með beinum eða óbeinum hætti til trúarlegs bakgrunns, siðferðis, myndmáls og goðsagna spilanna. Það hjálpar þeim einnig að mynda sér trúarskoðun og velja spádómskerfi sem hentar þeim.

Þar sem tarotspilin boða í raun ákveðin siðferðisleg viðmið og ganga út frá því að kærleiksríkt lífsviðhorf eigi að móta allar gjörðir mannsins er börnum ekki annað en hollt að kynnast þeim viðhorfum og fara að þeim ráðum sem spilin gefa hverju sinni.

Þar sem trúfrelsi og skoðanafrelsi ríkir í landinu er engin hætta á því að tarotspil yrðu misnotuð til þess að koma inn ranghugmyndum hjá börnum, kúga þau eða stýra afstöðu þeirra til spádóma.

Þessi rök eru mjög svo í takt við þau rök sem liggja að baki því að kristindómur (ekki aðeins kristnifræði) er kennd í skólum, sjá t.d. hér . Því þá ekki alveg eins tarot?

Share to Facebook

One thought on “Kennum börnum að nota tarotspil

  1. —————–
    Skúli @ 15/01 12.37

    „Þessi rök eru mjög svo í takt við þau rök sem liggja að baki því að kristindómur (ekki aðeins kristnifræði) er kennd í skólum“

    Nei, það eru þau ekki.

    Sögulega nær kirkjan á Íslandi aftur um þúsund ár – og hefur þá verið allt um lykjandi í menningu okkar á þeim tíma.

    Hún er samtvinnuð ritmenningu okkar, bæði tilurð hennar, varðveislu og síðar útgáfu. Siðakerfi kristninnar er mótandi, ekki bara hérlendis, heldur í öllum okkar heimshluta. Mótív, þemu, líkingar ofl. eru alls staðar í listum okkar, bókmenntum, tónlist, arkitektúr og myndlist.

    Tvenns konar trúarheimur hefur ákveðna sérstöðu í íslensku skólakerfi af menningarlegum sökum, kristindómur og íslensk þjóðtrú.

    —————–

    eva @ 15/01 15.29

    Það er rétt hjá þér Skúli að ég hef ekki tekið nægilegt tillit til þess að rök þín (og margra annarra sem hafa tjáð sig um þessi mál) eru þjóðmenningarleg, fremur en heimsmenningarleg. Ég hef svo oft séð þau rök að kristindóm eigi að kenna vegna þess hve útbreiddur hann sé og var líka með þau rök í huga. Þau halda vitanlega og þeim á forsendum væri einnig rétt og gott að kenna tarotspá í skólum. Það er hins vegar rétt hjá þér að íslensk menning skiptir enn meira máli. Þessvegna væri viðeigandi að kenna íslenskum börnum jafnframt draumráðningar, völubeinaspá og aðra norræna spásagnalist. Einnig þyrfti að kenna börnunum norrænan rúnagaldur en mikil hætta er á að sá arfur glatist algerlega. Spásagnir og galdur eru sannarlega samtvinnuð ritmenningu okkar og ætti því að kenna slíkt í barnaskólum.

    —————–

    Skúli @ 15/01 15.38

    Allt það sem þú telur þarna upp á heima innan ramma þjóðtrúar og því er aðeins spurning um áherslur hvort kenndar eru sagnir af útilegumönnum og fjölkunnugu fólki (s.s. Sæmundi fróða, völvum ofl. þh.) eða farið út í einstök atriði v/galdur þess.

    Þetta bætir því harla litlu við umræðuna 😉

    —————–

    Skúli @ 15/01 15.41

    Annars einskorða ég mig ekki við þjóðmenningu, ég tala líka um menningarheiminn sem við tilheyrum. Kristin trú tengist bæði þjóðlegum rótum og vestrænni menningu.

    —————–

    Birgir Baldursson @ 15/01 20.49

    „Sögulega nær kirkjan á Íslandi aftur um þúsund ár – og hefur þá verið allt um lykjandi í menningu okkar á þeim tíma.“

    Og er þá ekki kominn tími til að því ljúki?

    —————–

    Skúli @ 15/01 21.03

    Sýnist sitt hverjum…

    Sigurður Hólm Gunnarsson @ 16/01 15.04

    „Sögulega nær kirkjan á Íslandi aftur um þúsund ár“

    Það eru rök fyrir því að kenna sögu kristinnar trúar á Íslandi sem hluta af almennri sagnfræði. Ég fæ ekki skilið hvernig þessi sögulegu tengsl kirkjunnar réttlæta bænakennslu og annað trúboð eins og fjallað er um hér: http://www.skodun.is/archives/2003/16/07/um_trufraedslu_og_trubod_i_skolum.php og hér: http://www.skodun.is/archives/2000/01/11/adskiljum_skola_og_kirkju.php.

    Gaman væri að fá svar við því…

    —————–

    Skúli @ 16/01 16.20

    1. sé gengist við þeirri því sem ég segi hér að ofan um áhrif kristinnar trúar á menningu okkar og þessa heimshluta er ekki nóg að kenna um sögu kirkjunnar. Frásögnunum þarf að miðla í þeim tilgangi að gera börnin læs á mikilvægan hluta menningarinnar.

    2. Ég og biskupinn erum sammála um það að þetta eigi ekki að vera trúboð og í praxís get ég ekki ímyndað mér að svo sé. Lausnin er h.v. sú að breyta orðalagi, t.a.m. þar sem talað er um trúaratriði eins og almennt viðurkennd sannindi. Ef þetta er svo rekið sem FRÆÐSLA er afar ósennilegt að hún ýti undir fordóma frekar en önnur fræðsla gerir almennt. Fræðsla eyðir fordómum, svona alla jafna.

    3. Ef ég byggi á öðru menningarsvæði þætti mér ómetanlegt ef börnin mín fengju sambærilega FRÆÐSLU sem myndi auðvelda þeim að aðlagast því samfélagi og kynna þeim bakgrunn þess.

    —————–

    Sigurður Hólm Gunnarsson @ 17/01 15.02

    „Ég og biskupinn erum sammála um það að þetta eigi ekki að vera trúboð og í praxís get ég ekki ímyndað mér að svo sé.“

    Skúli, heldur þú að ég og aðrir sem berjumst fyrir trúfrelsi hér á landi og gegn trúaráróðri í skólum séum bara að grínast eða ljúga þegar við tökum fjölmörg dæmi af óeðlilegum trúaráróðri í skólum?

    Lestu námsskránna, lestu nánast allar þær bækur sem notaðar eru til kristin“fræðslu“ í grunnskólum. Kynntu þér verkefnin sem börn eru látin gera í skólum. Kynntu þér áróðurinn og bænakennsluna sem fram í tímum (stundum af mjög trúuðum kennurum). Dæmin eru fjölmörg, námsskrá og námsbækur sýna að markmiðið er trúboð ekki hlutlaus fræðsla.

    —————–

    Skúli @ 18/01 12.48

    Ég skal gera það síðar Sigurður. Þetta er spennandi mál sem þið hafið tekið fyrir þarna.

    Fyrir mér hefur þetta alltaf litið þveröfugt út, kennarar sem ekki vilja KENNA um þessa menningarfleifð því þeir halda að þeir þurfi að BOÐA eitthvað í leiðinni. En nú sýnir þú þarna nýja hlið á málinu sem verður gaman að skoða.

    —————–

    Skúli @ 24/01 18.24

    Sigurður, ég nenni ekki að fara í gegnum allan þann stafla sem þú bendir mér á að lesa enda er ég nokkuð með prinsíppin á hreinu í þessu máli.

    Hvað dæmin sem siðmennt tíundar hér varðar þykja mér þau ekki góð. Jafnóviðeigandi og þegar kennarar hafa uppi háð og spott um trú fólks yfir skólabörnum. Skólinn á að gæta hér hlutleysis hvað varðar trúboð/andóf gegn trú. Hann á h.v. að kenna innihald þessarar menningar sem við köllum kristna. Slíkt þarf auðvitað ekki að fela í sér boðun af nokkru tagi fremur en kennsla í öðrum trúarbrögðum eða menningarheimum gerir.

    —————–

    Sveinbjörn Kristinn @ 20/03 03.00

    Takk Eva – fyrir ágæta satýru, þér tekst vel að kveikja umræðu, en ég efast um heilindi þín. Auðvitað meinarðu ekkert með þessum málflutningi um tarot spilin.

Lokað er á athugasemdir.