Hyggst ekki funda með föngum

Félag fanga, Afstaða til ábyrgðar, hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að fangelsismálayfirvöld hafni óskum samtakanna um fund með talsmönnum þeirra.Þann 5. mars óskuðu fulltrúar Afstöðu eftir fundi með forstjóra Fangelsismálastofnunar. Kvennablaðið hefur undir höndum svarbréf dagsett 4. apríl 2014, undirritað af Páli Winkel:

Vísað er til bréfs þíns, dags. 5. mars sl. Í bréfinu er óskað eftir fundi með forstjóra Fangelsismálastofnunar ríkisins. Þá er óskað eftir að skipaðir verði tengiliðir á milli Afstöðu, Fangelsisins Litla-Hrauns og Fangelsismálastofnunar þannig að aðilar geti haft samband hver við annan ,,mjög fljótt ef um neyðartilfelli er að ræða“.

Fangelsismálastofnun mun svara erindum sem til hennar er beint. Forstjóri Fangelsismálastofnunar hyggst ekki funda með forsvarsmönnum Afstöðu. Ekki verður séð að upp geti komið neyðartilfelli sem nauðsynlegt sé að ræða ,,mjög fljótt“. Því er ekki nauðsynlegt að skipa sérstaka tengiliði.

Að sögn Guðmundar Inga Þóroddsonar eru sjálfvígshugsanir algengar meðal fanga og sjálfsvígstilraunir hreint ekki sjaldgæfar.„Það hefur sýnt sig að fangar leita ekki til fangavarða þegar þeir eru í sjálfsvígshugleiðingum, heldur til annarra fanga og þegar ástandið er þannig að fangar hafa takmarkaðan eða engan aðgang að þjónustu sálfræðinga og geðlækna eykst hættan. Nú hafa komið upp tvö tilvik á nokkrum vikum þar sem fangar hafa reynt að fyrirfara sér og við vitum um fleiri sem eru í hættu. Við lítum á það sem neyðartilvik ef fangi sér enga aðra leið út úr vanlíðan sinni og það bætir ekki stöðuna að einangra fanga eins og nú er verið að gera. Við þurfum að geta rætt þessi mál við Forsvarsmenn fangelsismálastofnunar,“ segir Guðmundur Ingi.Samkvæmt 43. grein laga um fullnustu refsinga geta fangar kosið sér talsmenn til að vinna að málefnum fanga og til að koma fram fyrir þeirra hönd.Sú spurning hlýtur að vakna hvaða tilgangi það þjóni fyrir fanga að hafa talsmenn þegar fangelsisyfirvöld neita þeim um áheyrn.

Share to Facebook