Hvað merkir hungur á bíblíuskala?

Forstöðumaður neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna hefur sagt að samfara kórónufaraldrinum megi búast við hungursneyð „á biblíuskala“. Fjölmiðlar víðsvegar um heim hafa slegið þessum ummælum upp í fyrirsögnum en fáir hafa gert tilraun til að skýra merkingu þessara orða.

Í ensku er orðið „biblical“ stundum notað í sömu merkingu og gríðarlegt, aðallega í tengslum við hverskyns hamfarir. Hugrenningartengslin við plágur biblíunnar eru augljós. Fréttamaður BBC,  Michael Buerk, notaði þetta orðalag t.d. um hungurneyðina í Eþíópíu á níunda áratug síðustu aldar. Því er haldið fram að með þessum ummælum hafi Buerk orðið hvati að stofnun Band-Aid, þar sem fjöldi súperstirna flutti lagið „Do They Know it Christmas“. Því verkefni  var bæði ætlað að safna fé til hjálpar fórnarlömbum hungursneyðarinnar og vekja alþjóðasamfélagið til vitundar um ástandið.

Er hungur í Biblíunni alvarlegra en yfirleitt á okkar tímum? Eða er þetta bara orðatiltæki sem ætlað er að hræra hjörtu okkar?

Hungursneyð í Biblíunni

Þegar talað er um hallæri í Biblíunni er átt við mjög alvarlegan eða langvarandi uppskerubrest sem veldur því að margir svelta. Svo virðist sem talað sé um hallæri þegar afleiðingarnar eru eftirfarandi:

  • fólk flýr heimahaga sína í von um að lifa af
  • samfélög sem venjulega eru sjálfum sér nóg neyðast til að leita aðstoðar nágranna sinna
  • hungrið knýr fólk til að leggja sér óæti til munns.

Fólksflótti

Dæmi um hallæri sem olli fólksflótta er að finna strax í sögu Abrahams og Lot í fyrstu Mósebók. Svokallaðir „velferðarflóttamenn“, þ.e. fólk sem yfirgefur svæði þar sem ekkert bíður þess nema örbirgð, í von um betra líf annarsstaðar, er nefnilega ekki afleiðing þess að vestrænt velferðarkerfi sé svo aðlaðandi, fólk hefur einfaldlega alltaf brugðist þannig við. Þá, eins og nú eiga þeir sem eru í sæmilegum efnum mun meiri möguleika en fátæklingar á því að komast undan. Það er heldur ekkert nýtt að flóttamenn neyðist til þess að hagræða sannleikanum eða hreinlega ljúga til um aldur sinn, fjölskyldutengsl eða aðra hagi, til þess að lifa af.

Og velferðarflóttamenn streymdu til Egyptalands

Þannig segir fyrsta Mósebók frá því að þegar Abraham hafði ferðast yfir Kanaan og kom með hjarðir sínar, fjölskyldu og þræla til suðurhluta landsins var hallæri í landinu. Abraham og fólk hans voru hirðingjar og undir venjulegum kringumstæðum hefðu þau dvalið nokkrar vikur eða mánuði á því svæði. Þar sem engin beit var fyrir bústofninn vegna þurrka og enga fæðu að hafa, ákvað Abraham að fara með allt sitt lið til Egyptalands.

Abraham fékk Söru, konu sína og hálfsystur, til að blekkja Egypta með því að segjast vera systir Abrahams en taka ekki fram að þau væru líka hjón. Ástæðan var sú að hann óttaðist að Egyptar myndu drepa hann til að ná af honum konunni. Það þótti fúlmannlegt að nauðga giftum konum en það var hægt að bæta úr því veseni með því að losa sig við eiginmanninn.

Blekkingin reyndist vel um hríð, a.m.k. fyrir Abraham, því Sara var „tekin í hús faraós“ og Abraham fékk fyrir hana nokkuð gott verð, bæði búfénað og þræla. Engum sögum fer af því hversu ánægð Sara var með þessa ráðstöfun.

Abraham afhendir faraó Söru

 

Á endanum komst upp um þau og var þeim vísað úr landi, svo sem enn viðgengst.

Aðstoð frá nágrannalöndum

Í fyrstu Mósebók er einnig sagan af draumum Faraós en það er sennilega þekktasta saga biblíunnar af uppskerubresti. Jósef hafði verið seldur í þrældóm til Egyptalands. Þar varð hann fyrir nauðgunartilraun af hálfu konu húsbónda síns. Hann flúði undan henni en hún sneri sögunni við og ásakaði Jósef um að hafa reynt að nauðga sér.

Vegna þessara fölsku ásakana lendir Jósef í fangelsi þar sem hann ræður drauma samfanga sinna. Faraó berst sú gáfa hans til eyrna og hann fær Jósef til að ráða fyrir sig tvo drauma.

Í fyrri draumi faraós stigu sjö feitar kýr upp úr ánni en á eftir þeim komu sjö magrar kýr sem átu hinar feitu án þess að fitna neitt við það. Í seinni draumnum sá faraó sjö falleg kornöx. Á eftir þeim sputtu sjö visin öx sem báru ekkert korn. Jósef réð draumana á þann veg að í vændum væru sjö góð ár en á eftir þeim yrði sjö ára hallæri. Faraó gerði Jósef að ráðgjafa sínum og hann notaði góðu árin sjö til að safna birgðum til mögru áranna.

Bræður Jósefs voru meðal þeirra sem leituðu til Egypta vegna hallærisins

 

Þegar hallærið brast á voru forðabúr opnuð og fólk gat keypt korn. Þ.e.a.s. þeir sem áttu eitthvað að selja á móti. Engum sögum fer af þeim sem áttu enga sjóði en höfðu samt unnið nauðungarvinnu við birgðasöfnun. Auk þess urðu mörg lönd illa úti og þar sem enginn var undirbúinn nema Egyptar komu menn frá nágrannalöndunum til Egyptalands til að kaupa korn. Ekki er getið um örlög þeirra sem ekki gátu ferðast til Egyptalands og boðið fram fé en við getum ímyndað okkur hvað varð um þær fjölskyldur.

Óæti

Þeir sem ekki bjuggu svo vel að geta flúið á náðir nágrannaþjóða eða keypt af þeim korn urðu, samkvæmt ritningunni, að éta það sem hægt var að kyngja, hvort sem flokkaðist sem matur eða eitthvað annað.

Önnur konungabók segir frá hallæri í Samaríu. Elísa spámaður segir þjóni sínum að sjóða súpu eða pottrétt handa „sonum spámannanna“. (Spámannssveinar tilheyrðu sérstökum reglum sem hver um sig laut forystu eins spámanns, en voru ekki endilega afkomendur spámanna.) Sveinarnir fara að leita matar, einn þeirra finnur óþekkta villijurt og tínir af henni ávexti sem hann setur í pottinn. Samkvæmt enskri þýðingu var þetta ávöxtur af graskersætt.

Mennirnir brögðuðu á matnum en gátu ekki borðað hann. Sagt er að þeir hafi hljóðað upp yfir sig og sagt; „það er dauði í pottinum!“ Þeir hafa væntanlega hljóðað annaðhvort af hræðslu eða þeim hefur orðið svona illt. Elísa spámaður bætti þá mjöli í pottinn en við það varð rétturinn ætur og enginn beið skaða af.

Menn töldu að Elísa hefði sett galdur í mjölið og þannig gert ávöxtinn skaðlausan

 

Líklega hefur ávöxturinn ekki verið hættulegur, bara mjög beiskur á bragðið, kannski sviðið í munn og valdið ólgu í maga. En það sem skiptir hér máli er að skorturinn var slíkur að fólk notaði ávexti  sem það þekkti ekki til matar og lét sig hafa það að borða kássuna enda þótt bragðið vekti, ekki bara ótta, heldur sannfæringu um að maturinn væri eitraður.

Sagan segir frá fleiri neyðarúrræðum á tímum hungursneyðarinnar í Samaríu. Þar var svo hart í ári að asnahöfuð voru seld til matar á okurprís. Asnar eru meðal hinna óhreinu dýra þannig að þetta er svona álíka viðbjóður og fyrir gyðinga og múslíma að eta svínakjöt eða Íslendinga að éta hunda.

Einnig segir að dúfnadrit hafi verið selt háu verði. Sú túlkun að dúfnadrit hafi verið notað til manneldis hefur verið dregin í efa, sumir telja þetta þýðingarvillu og aðrir að dritið hafi í raun gengið kaupum og sölum en ekki til matar heldur sem eldsneyti. En dritið er nefnt í beinum tengslum við hungur og sögunni er fylgt eftir af enn ógeðslegri frásögn af konum sem gerðu með sér samkomulag um að drepa börn sín og sjóða til matar. Ef eitthvað er má nú telja líklegra að fólk hafi lagt sér dúfnadrit til munns en sín eigin afkvæmi.

Hvað er satt og hvað er ýkt í þessum sögum verður ekki útkljáð hér en það sem við getum slegið föstu er að í hungursneyð á „biblíuskala“ verður örvæntingin slík að ef fólk fær ekki hjálp þá leggur það sér til munns eitthvað sem getur verið hættulegt, eitthvað sem því býður við og myndi aldrei tala um sem fæðu við eðlilegar aðstæður.

Alþjóðleg skilgreining á hungursneyð

Fjöldi þeirra jarðarbúa sem hafa ekki ofan í sig er ótrúlegur. Árið 2019 voru meira en eitt af hverjum fimm börnum undir fimm ára aldri vannærð. Ekki í þeirri merkingu að þau gætu oft hugsað sér að borða meira, heldur í þeirri merkingu að þau bera skaða af því, svo sem þroskahömlun, beinkröm og fleiri kvilla sem geta haft áhrif á heilsufar þeirra  og afkomumöguleika til lífstíðar.

En það er ekki svelti í þessum skilningi sem átt er við með hungursneyð. Til þess að Sameinuðu þjóðirnar lýsi yfir hungursneyð þarf eftirfarandi skilyrðum að vera fullnægt:

  • Minnst 20% heimila á svæðinu þurfa að vera í sárri neyð vegna fæðuskorts og eiga takmarkaða möguleika á að komast út úr því ástandi.
  • Minnst 30% barna undir 5 ára aldri á því svæði þurfa að vera vannærð
  • Fleiri en tveir af hverjum 10 þúsund svelta til bana daglega.

Á Íslandi myndi þetta merkja að á einni viku myndu 510 manns deyja úr hungri.

Nú er hungursneyð ekkert sjaldgæft fyrirbæri. Bara á síðustu 10 árum hefur hungurseyð lagt milljónir að velli, í Sómalíu, Vestur-Afríku, Yemen, Suður-Súdan og Nígeríu og tugir milljóna sem þó hafa lifað af munu aldrei bíða þess bætur. Margir hafa misst heilsuna og eiga enga möguleika á því að endurreisa bústofn sinn og ræktarlönd nema með utanaðkomandi aðstoð. Margir hafa misst heimili sín og eru nú á flótta, ýmist í eigin landi eða utan þess.

Á biblíuskala

Þegar alþjóðastofnanir tala um hungursneyð á „biblíulegum skala“ má búast við að ástandið verði með versta móti. Ekki að afleiðingarnar verði aðrar en venjulega, heldur bara fleiri sem þjást.

Biblíusögurnar endurtaka sig stöðugt. Á okkar dögum borðar fátækt fólk dýrafóður. Á okkar dögum, rétt eins og á tímum gamla testamentisins, hefur sveltandi fólk borðað skemmdan mateitraðar jurtir og drýgt mjöl með mold til þess að halda sér á lífi. Sennilega hefur dúfnadritið verið heilsusamlegra en moldarkökur.

Rík samfélög geta reiknað með enn fleiri flóttamönnum á næstu árum og ennþá meiri útlátum vegna neyðarhjálpar. Milljónir munu þjást. Margir munu bókstaflega deyja úr hungri, aðrir veikjast alvarlega af því að borða óæti og mikill fjöldi flýja heimahaga sína.

Sú volaða hjörð sem telur sig réttborna til lífsgæða mun þá, eins og venjulega, sjá ofsjónum yfir hverri krónu sem ríkustu samfélög heims láta af hendi rakna og vilja fyrir alla muni vísa sem flestu flóttafólki út í hafsauga. Stöðugt mun glymja gamli, falski söngurinn sem um að „rétta leiðin“ sé sú „að hjálpa þessu fólki heima“ og „hætta að henda peningum í neyðarhjálp en hjálpa þeim heldur til sjálfshjálpar.“

Sömu mannleysur hefðu sennilega sagt Samverjum að éta skít, en bara næringarríkan dúfnaskít samt, því það er svo vel meinandi þetta fólk. Það hefði líka dáðst að ráðsnilld Elísa spámanns í stað þess að sjá hryllinginn að baki sögunni. Og að sjálfsögðu hefðu þeir sömu stutt brottvísun Abrahams og Söru úr Egyptalandi og krafist þess að þeim yrði refsað fyrir að ljúga til um hjúskaparstöðu sína.

Share to Facebook