Hvað eru framliðnir eiginlega að pæla?

Alveg finnst mér hann Þórhallur miðill stórkostlegur. Stundum er engu líkara en að skilaboðin að handan séu ætluð mér persónulega.

Ég á t.d. systur sem átti einu sinni bláan páfagauk. Það hefði því staðið mér miklu nær að taka til mín skilaboðin frá draugnum með bláa páfagaukinn en konunni sem sem kannaðist bara við hvítan páfagauk í gærkvöldi. Þó að hafi verið pínulítið blátt í honum líka. Sá páfagaukur sem ég kannast við var þó allavega almennilega blár. Og móðir mín heitir sko líka Kristín að seinna nafni, eins og móðir konunnar sem tók skilaboðin til sín (það nafn er reyndar aldrei notað en móðir mín heitir því nú samt) og er stundum lasin! Þannig að draugurinn með bláa páfagaukinn sem vildi koma þeim skilaboðum áleiðis að Kristín væri stundum lasin, hefur augljóslega átt við móður mína.

Eða Siggi sem hafði áhyggjur af vetrardekkjunum. Hann hefur nú sennilega verið að vonast til að ég yrði í salnum. Ég átti nefnilega frænda sem hét Siggi og er það ekki ótrúleg tilviljun að hann skuli koma fram, einmitt í sömu viku og ég er farin að hafa verulegar áhyggjur af vetrardekkjunum. Konan sem tók þetta til sín var þegar búin að koma sínum bíl á vetrardekk og líklega hefur Siggi vitað það, svo ekki skil ég hvað hann var að eyða dýrmætum tíma í að benda henni á að fara að hugsa um þetta. Auk þess lagði hann sérstaka áherslu á „eitt dekk“ og það vill nú svo til að eitt af mínum dekkjum er með gamaldags slöngu, svo þetta passar allt prýðilega við mig. Þessi sami Siggi sagði konunni að hún notaði bílinn of mikið því hún æki stundum stuttar vegalengdir sem vel væri hægt að ganga. Vá! hvernig gat draugur vitað að ég á þetta einmitt til? Eða sherrý-drykkjan. Konan sagðist að vísu ekki drekka sherrý, heldur hvítvín en það var þá ekki tegundin sem skipti máli, það sem draugurinn átti við var meira svona „dömuleg drykkja“. Sherrý er „dömulegt“ og hvítvín líka. Ég er reyndar á því að Siggi bara verið að tala um siviliseraða drykkju almennt og þar sem ég er lítil drykkjukona, gæti hann hafa átt við það að foreldrar hans eftirlifandi eru frekar fínt fólk sem drekkur koníak og líkjöra fremur en vodka og annan rudda. Einnig gæti hann hafa átt við drykkju almennt og ætlað að vara mig við því að leggja lag mitt við alkóhólista. Og þetta með hótelið (draugurinn var nefnilega svo mikið að tala um hótel, þótt það væri nú fremur óljóst um hvað málið snerist) -það er nú alveg met, haldiði að hann Siggi frændi minn hafi ekki einmitt skilið veskið sitt eftir á hótelherbergi, kvöldið sem hann dó! Ég sé ekki betur en að skilaboðin frá honum Sigga eigi bara miklu betur við mig en systurnar sem tóku þau til sín.

Svo kom líka fram draugur sem klifaði á nafninu Jóna. Fyrst hélt ég að draugurinn væri kona sem héti Jóna en þegar fullorðin kona gaf sig fram varð mér ljóst að draugurinn vildi tala við Jónu. Þórhallur spurði hana hvort hún ætti mann á lífi og andartak hélt ég að draugurinn ætlaði að biðja hana fyrir skilaboð til eignmanns Jónu. Sá reyndist hins vegar látinn og var mættur þarna eigin persónu. Jú hann hafði víst verið veikur áður en hann dó. Er þetta ekki alveg frábært? Og jú, hún kannaðist við hring. Hún kannaðist líka við að það hefði alltaf verið eitthvað sérstakt við það þegar þau héldust í hendur og einnig að hár mannsins hefði verið farið að þynnast. Eftir áratuga langt hjónaband finnst mér nú frekar slappt af eiginmanni að geta ekki rifjað upp neitt sértækara en hring og handaband og hvað hárið varðar þá er hreint ekki sjaldgæft að íslenskir karlmenn byrji að missa hár um þrítugt. En kannski var draugurinn með alsheimer og mundi ekkert merkilegra. Allavega ræddi hann heilmikið um píanó sem konan hans kannaðist bara ekkert við.

Í alvöru talað, hvað eru framliðnir að pæla? Þeir fá tækifæri til að ná sambandi við okkur í 2-3 mínútur og þann tíma nýta þeir til að lýsa því hvað þeir séu ógurlega ánægðir með að fá þetta tækifæri, biðja að heilsa og koma svo á framfæri upplýsingum, sem eru svo almennar að nánast hver sem er getur getið þær til sín. Það er nú ekki sérlega skynsamleg nýting á tímanum. Það þarf enga yfirnáttúru til að segja mér að það sé tímabært að huga að vetrardekkjum eða að einhversstaðar í fjölskyldu minni eða vinahópi sé einhver Kristín sem þyrfti kannski að heimsækja lækni og einhver sem eigi það til að bragða áfengi og/eða nota bílinn meira en nauðsyn krefur. Það getur varla verið að þetta fólk sem mætir til hans Þórhalls eigi ekki við nein merkilegri mál að glíma og ég skil bara ekkert í draugunum að finna sér ekki eitthvað áhugaverðar til að tala um. Ef ég ætti ástvini í útlöndum sem hefðu takmarkaðan aðgang að síma, myndi ég aldrei nota símann fyrir svona kjaftæði. Ég myndi frekar nota tækifærið til að sinna raunverulegum erindum. Eins ef ég fengi óvænt tækifæri til að tala við hana ömmu mína sálugu. Ég myndi áreiðanlega ekki auðkenna mig með því að segjast vera ljóshærð og með hring, þar sem slík lýsing gæti átt við 60% allra íslenskra kvenna. Nei, ef ég þyrfti að sannfæra hana um það hver ég væri, ætli ég myndi ekki frekar rifja upp eitthvað sem við upplifðum saman sem var sérstakt og sem fáir vissu um. Ég myndi heldur ekki verja þeim stutta tíma sem ég fengi, til að ræða lasleika ættingja hennar eða annað jafn almennt, heldur myndi ég segja henni fréttir af mér og fjölskyldunni og ef ég hefði einhverja innsýn í hennar tilveru og gæti varað hana við eða gefið henni ráð, myndi ég ekki ræða vetrardekk heldur benda henni á eitthvað sem líkur væru á að hún hefði ekki áttað sig á sjálf. Hygg ég og að ef amma væri í einhverri aðstöðu til að hafa samband við mig, myndi hún nýta það til að ræða hluti sem fáir vita og vara mig við hlutum sem ég get ekki séð fyrir. Hún myndi kannski auðkenna sig með hundunum sem fylgdu henni öll þau ár sem ég man eftir henni en hún hefði örugglega ekki mörg orð um fjarskyldan páfagauk. Hún myndi ræða um sjálfa sig eða starf mitt, fjölskyldu og áhugamál en örugglega ekki píanó sem aldrei hefur verið á mínu heimili eða hennar.

Út frá því litla sem ég hef séð frá skyggnilýsingum Þórhalls, virðist það vera fremur þægileg vinna að vera sjónvarpsmiðill. Skilaboð drauganna eru svo almenn að ef svo ólíklega fer að enginn þeirra hafi samband, þá er lítið mál að skálda eitthvað upp. Ekki svo að skilja að ég sé að eigna Þórhalli svo ódýr trix, allsekki. Ég var meira að hugsa um hvernig ég sjálf, sem hef ekki snefil af skyggnigáfu, gæti reddað mér ef ég ákveð einhverntíma að nýta leiklistargáfu mína til að fara út í draugabransann og lendi í vandræðum. Veit annars nokkur hvort miðilsstarfið er þokkalega launað? Eða hvernig laun miðla eru skráð á skattaskýrslu? Ég býst við að einhver hneykslist á þessum vangaveltum mínum. Það þykir víst ekki merkilegt að vera svikamiðill. En hvaða máli skiptir það svosem þegar skilaboðin frá andaheiminum eru ekki merkilegri en raun ber vitni? Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að hughreysta eftirlifendur og ég garantera að skáldskapargáfa mín dygði miklu betur til þess en sannleikurinn í Lífsauga Þórhalls.

 

 

Share to Facebook

One thought on “Hvað eru framliðnir eiginlega að pæla?

  1. ———————————————

    birgir.com @ 30/10 18.03

    Þokkalega launað? Ég hef heimildir fyrir því að Þórhallur hafi tekið eitthvað 1000 – 1500 kall á haus úti á landi fyrir fáeinum árum. 200 manns mættu á svæðið og þótt frekar slappt. Þó hafði hann 2-300 þúsund upp úr krafsinu og talaði eftir á um „töff krád“ eins og þreyttur atvinnupoppari.

    Eva, má bjóða þér pennastöðu á Vantrú (ólaunað hugsjónadjobb)? Þú gætir byrjað á að birta þar einmitt þessa grein.

    ———————————————

    Sigurður Hólm Gunnarsson @ 30/10 21.24

    Ég hef oft velt þessu nákvæmlega sama fyrir mér. Hver væru skilaboð mín ef ég væri dauður og því búsettur „hinu megin“ en fengi svo gullið tækifæri til að hafa samband við mína nánustu?

    a) Segja eitthvað MJÖG persónulegt og láta í té upplýsingar sem enginn mögulega vissi nema ég (í þeim tilgangi að sanna það fyrir ástvinum mínum og öðrum að ég væri enn til).

    b) Segja brandara (Eins og dána fólkið hans Þórhalls hefur svo gaman af)?

    eða

    c) Fjalla um nýju vetrardekkin, vöðvabólgu, fjármál og kvarta yfir því hvað ástvinir mínir horfðu mikið á sjónvarpið (eða eitthvað annað ofur almennt sem hefur ekkert gildi sem sönnun)?

    Ef eitthvað er að marka Þórhall hafa framliðnir mestan áhuga á b og c. Undarlegt, ekki satt?

    ———————————————

    Matti Á. @ 30/10 23.52

    Mér hefur alltaf þótt áhugavert að fylgjast með því hversu langan tíma tekur að negla niður nákvæmlega hver það er sem miðilinn er með „á línunni“. Gjarnan tekur nokkrar mínútur að fá það á hreint, en þegar því er lokið virðast skilaboðin að handan renna í gegn áreynslulaust.

    Ég skil semsagt ekki af hverju Gunna frænka getur vandræðalaust komið þeim skilaboðum á framfæri að þú eigir ekki að hafa áhyggjur af peningamálum, það verði allt í lagi með yngsta strákinn og að það sé kominn tími til að skipta um vetrardekk en hún getur ekki komið því út úr sér að hún heitir Guðrún Jósafatsdóttir og vill tala við hana Sigríði Halldórsdóttur sem situr í þriðju röð. Eru framliðnir búnir að gleyma hvað þeir heita?

    ———————————————

    Ólöf I. Davíðsdóttir @ 31/10 09.36

    Handan móðunnar miklu eru bara notuð algeng gælunöfn og þeir sem heita Jarþrúður eða Skarphéðinn eða tveim nöfnum, s.s. Ásthildur Rós, eru mannafælur og láta aldrei í sér heyra.

    ———————————————

    birgir.com @ 13/11 00.22

    Eva, hvar ertu? Við söknum þín!

Lokað er á athugasemdir.