Hallelujah

Hallelujah, dýrð sé Gvuði, eftir Leonard Cohen er sennilega eitthvert vinsælasta lag síðustu ára. Gott lag, grípandi, sönghæft án þess að vera of einfalt. Ég held reyndar að textinn eigi töluverðan þátt í þessum miklu vinsældum en þar er tekist á við dýpstu kennd mannsins, ástina, sem færir manni ekki endilega hamingju en er þó svo ólýsanlega dýrðleg. Mér skilst að Cohen hafi ort á sjöunda tug erinda. Ég þekki aðeins sjö þeirra en í þeim renna ástin, listin og trúin saman í eitt allsherjar hallelujah, lofgjörð sem er þó svo brothætt og jarðbundin að hvergi örlar á væmni.

Hallelujah; dýrð sé Gvuði. Allar manneskjur sem á annað borð hafa sál þekkja tilfnninguna sem þetta ákall er sprottið af. Af einhverjum ástæðum hafa trúmenn eignað sér upplifun sem við getum kallað leiðslu eða komast í snertingu við gvuðdóminn en því fer fjarri að þufi nokkra trú til. Þetta er kenndin sem grípur okkur þegar við stöndum agndofa frammi fyrir undrum náttúrunnar. Þegar listin vekur okkur tilfinningar sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Þegar við verðum ástfangin. Og þrátt fyrir vísanir í biblíusögur er langt frá því að ákallið hallelujah hafi sérlega trúarlega merkingu í texta Cohens, heldur verður það tjáning hins jarðneska manns, sem metur það að verðleikum að hafa kynnst þessari yfirþyrmandi tilfininningu, jafnvel þótt hún hafi ekki orðið honum til neinnar gæfu.

Vísunin í sögu Davíðs konungs kemur fram strax í fyrsta erindinu.

I’ve heard there was a secret chord
That David played, and it pleased the Lord
But you don’t really care for music, do you?
It goes like this; the fourth, the fifth
The minor fall, the major lift
The baffled king composing Hallelujah

Davíð var tónlistarmaður og skáld. Í texta Cohens skiptir það hlutverk hans meira máli en konungdómurinn. Það hlýtur að vera æðsta þrá hvers listamanns að finna þennan leynda hljóm sem er gvuðinum hans þóknanlegur, hvort sem sá gvuðdómur er yfirskilvitleg vera eða aðdáendaklúbburinn. Hér er áherslan á listina. Erindið býður upp á mjög bókstaflega túlkun því Cohen lýsir því hreinlega hvernig lagið er byggt. Hvar töfrarnir liggja er þó ekki augljóst en listamaðurinn hlýtur að reyna að hræra hjörtu fólks með list sinni og Davíð tókst það.

Þó er ekki víst að allir kunni að meta þennan hljóm. Það eru allavega strax komnar fram efasemdir um að sú sem talað er til, sé sérlega upprifin og konungurinn er ráðvilltur þrátt fyrir að velþóknun almættisins sé á hreinu. Kannski er Cohen sjálfur runninn saman við Davíð (jamm Cohen því ég sé enga ástæðu til að ætla að ljóðmælandinn sé einhver annar) og tónlistin getur allt eins verið ástin. Konungurinn er ráðvilltur því hvaða máli skiptir velþóknun Gvuðs eða almennings ef sú sem töfrahljómurinn er ætlaður sýnir engin viðbrögð við lofsöng hans?

Annað erindið leggur út af sögunni af Davíð og Batsebu. Sagan segir að Davíð hafi reikað út á þak hallarinnar að nóttu og séð konu baða sig. Hún var gift en það stoppaði kónginn ekkert í því að láta sækja hana. Hann barnar hana, stillir svo manni hennar upp í fremstu víglínu í bardaga, losnar þannig við hann og tekur Batsebu sér að konu. Ekki kemur fram hvort Batsebu líkaði þessi atburðarás vel eða illa enda hafa biblíuritarar sjálfsagt talið það aukaatritði en Gvuð ku ekki hafa verið par hress.

Your faith was strong but you needed proof
You saw her bathing on the roof
Her beauty and the moonlight overthrew you
She tied you to a kitchen chair
She broke your throne, and she cut your hair
And from your lips she drew the Hallelujah

Hérna lætur Cohen að því liggja að upplifun Davíðs þegar hann horfði á Batsebu í tunglsljósinu hafi verið nánast trúarleg. Sönnunin sem hann vantaði fyrir dýrð Drottins. Hrifning hans á fegurð konunnar verður yfirþyrmandi og efasemdir hans um tilvist æðri máttarvalda hverfa. Gvuð er til og ástin, hefur hann líklega hugsað.

Í frásögn bibliunnar kemur ekkert fram um að Batseba hafi haft gaman af bindileikjum en í meðförum Cohens verður konan að holdtekju ástríðunnar. Ástin sviptir manninn öllu valdi, bindur herkonunginn jafnt sem listamanninn við heimili og fjölskyldu og knýr hann jafnvel til að leggja veraldlegt vald og auð að veði. Hér er einnig vísun í söguna af Samson og Delílu en hún svipti Samson yfirnáttúrlegum kröftum sínum með því að klippa af honum hárið.

Og þrátt fyrir þetta allt, þrátt fyrir algert máttleysi mannsins gagnvart ástinni, þá er það dýrðin við hana sem er tungu hans tömust.

Svo hér er hin heilaga þrenning, trúin, listin og ástin og þar með er hlutverki biblíusögunnar lokið. Næstu fimm erindi eru uppgjör við ástarsamband sem fór í vaskinn. Þriðja erindið lýsir æðruleysi manns sem hefur misst sína elskuðu og veit að sorgin verður ekki umflúin.

Baby I have been here before
I know this room, I’ve walked this floor
I used to live alone before I knew you.
I’ve seen your flag on the marble arch
But love is not a victory march
It’s a cold and it’s a broken Hallelujah

Þetta er líklega ekki fyrsta dömpið sem maðurinn gengur í gegnum. Hann þekkir aðdragandann og veit hvað tekur við. Hann sér líka að konan sem hann elskar lifir ágætu lífi án hans. Hún hefur unnið sigur ef eitthvað er en sjálfur finnur hann ekki fyrir neinu slíku. Ástin er engin sigurganga en þrátt fyrir að vera beygður og brotinn getur hann ekki annað en dýrkað ástina. Hún er bara eitthvað svo gvuðdómleg í eymd sinni.

Fjórða erindið lýsir eftirsjá þess sem hefur fundið ástvin fjarlægjast.

There was a time you let me know
What’s really going on below
But now you never show it to me, do you?
Remember when I moved in you
The holy dove was moving too
And every breath we drew was Hallelujah

Traustið er horfið úr sambandinu, hún er hætt að deila öllu með honum þótt honum hafi áður tekist að snerta hana svo djúpt að upplifunin varð nánast trúarleg reynsla. Heilagur andi birtist hér sem dúfa enda er dúfan einnig tákn ástar, friðar og skilaboða sem komast í réttar hendur, Þau drógu andann til þess eins að elska. Ástin var samruni tveggja mannvera. Er á meðan er. Ástin er andakt, hún er gvuðdómur, hún er Dýrð.

Í fimmta erindi er lagt út af öðru boðorðinu, þú skalt ekki leggja nafn Gvuðs við hégóma. Það hefur Cohen náttúrulega gert með því að vegsama ástina og það með orðinu heilaga, hallelujah.

You say I took the name in vain
But I don’t even know the name
And if I did, well really, what’s it to you?
There’s a blaze of light in every word
It doesn’t matter which you heard
The holy or the broken Hallelujah

Og hvað með það, svarar Cohen. Hvað er manninum raunverulega heilagt? Hvaða máli skiptir það þig þótt ég hafi aðra þekkingu en þú, aðra reynslu af lífinu, jafnvel önnur gildi? Og þótt hugsaði á sama hátt og þú, ertu þá í alvöru svona viss um viðmið þín? Getur verið að hneykslun þín yfir því að ég hafi svívirt eitthvað sem er þér heilagt sé ekki eina ástæðan fyrir því að þú fjarlægðist mig? Það er í alvöru talað ekkert ómerkilegri tilfinning þótt ýmislegt hafi gengið á, þótt ég kunni að hafa brugðist væntingum þínum á einhvern hátt, gert eitthvað sem samræmist ekki þínum siðferðissjónarmiðum, brotið boðorð, haft annan skilning á ástinni en þú. Það er kannski brotin ást en sama ástin fyrir það. Og ástin er dýrðleg.

Í sjötta erindinu lýsir Cohen stríðinu sem á sér stað í hjarta þess sem hefur verið hafnað.

So maybe there’s a God above
But all I ever learned from love
Was how to shoot somebody who outdrew you
It’s not a cry you hear at night
Or someone who has seen the light
It’s a cold and it’s a lonely Hallelujah

Skilnaðinum er lýst sem hólmgöngu. Hin elskaða varð fyrri til að skjóta en hann skýtur samt til baka, vitandi að það skiptir engu máli, það er hann sem er fallinn. Og æ hvað er ömurlegt að þetta skuli vera eini lærdómurinn sem ég hef dregið af ástinni svo hvaða fjandans máli skiptir hið gvuðdómlega eða það hvort ástin er eilíf eður ei?

Hún er erfið þessi ást. Það er ekkert fagurt eða virðulegt við manninn þegar hann bregst við höfnuninni með því að slá til baka. Hann getur hvorki vænst þess að minningin um hann læðist aftan að henni eins og draugur, né mun hún kaupa þá hugmynd að hann hafi hvort sem er verið búinn að átta sig á því að hann vildi frekar eitthvað annað og merkilegra en þetta samband við hana.

Samt sem áður, svo ömurleg sem einsemdin er, þá er ástin samt ekkert horfin og þótt hún sé köld, brotin og full af einsemd, þá er hún samt jafn yfirþyrmandi, jafn gvuðdómleg og fyrr.
Sjöunda erindið lýsir því hvernig hann nær að lokum sátt við vonbrigði sín.

I did my best, it wasn’t much
I couldn’t feel, so I tried to touch
I´ve told the truth, I didn´t come fool you
And even though it all went wrong
I’ll stand before the Lord of Song
With nothing on my tongue but Hallelujah

Hann getur þrátt fyrir allt ekki kennt sjálfum sér um það hvernig fór. Hann gerði sitt besta og þótt hann kynni kannski ekki almennilega að opna hjarta sitt reyndi hann allavega að elska hana eins og á að elska.
Hann finnur sig knúinn til uppgjörs. til að segja henni hvernig honum líður, án nokkurra væntinga um að það breyti neinu. Hann vill bara að hún viti að honum var alvara, allan tímann. Hann sér eftir henni jújú, en svo fór sem fór og hann tekur því með æðruleysi.

Niðurstaða hans er sú að þrátt fyrir að allt hafi farið á versta veg, hefur hann ekki gefist upp á ástinni. Allavega ekki þeim hluta hennar sem orkar á hann eins og tónlist, dregur hann niður, lyftir honum í hæðir og gerir hann ráðvilltan. Það skiptir ekki máli hvort það er ástarsöngur, lofsöngur eða bara tónlistin sjálf; hann mætir þessari gvuðdómlegu kennd af opnu hjarta, án væntinga um nokkuð meira en að fá að upplifa hana, hrærast í henni og syngja henni lof.

Share to Facebook

One thought on “Hallelujah

  1. ————————————
    „There’s nothing pure enough to be a cure for love…“

    Posted by: HT | 16.11.2009 | 22:21:21

    ————————————

    Guðdómlega fallegur pistill hjá þér Eva um Hallelujah Cohens. Lög og textar Cohens eru oft óendanlega hrífandi. Hér syngur Antony lag Cohens: If it Be Your Will http://www.youtube.com/watch?v=1MDlMdu2gjw

    Posted by: Davíð Pálsson | 16.11.2009 | 22:50:10

    ————————————

    Takk fyrir hugleiðinguna Eva, merkileg skrif um góðan söng. John Cale hefur sungið hann á live plötu ótrúlega vel. Ég tala nú ekki um Jeff Buckley sem allir þekkja.

    Posted by: Erling | 17.11.2009 | 9:06:10

    ————————————

    Skemtilegt að fá loksins ritskýringu á þessum texta. Hef lengi haft ofnæmi fyrir laginu, sem mér finnst bæði væmið og leiðinlegt en get að minnst kosti metið textann héðan í frá.

    Posted by: Hakki Pakk | 17.11.2009 | 15:17:03

    ————————————

    Flottur pistill. Vona að þú skrifir fleiri.

    Posted by: Markús | 18.11.2009 | 15:00:09

    ————————————

    Frábær grein Eva, takk! Besta lýsing á gvuðdómleika og ástinni indtil videre…

    Posted by: Yasmín | 19.11.2009 | 21:42:57

Lokað er á athugasemdir.