Gult, rautt og gangbraut

umferðarljósÍ gær öðlaðist ég nýjan skilning á orðinu frekja.

Mér hefur fundist flautunotkun í umferðinni vera að aukast og held að það beri vitni meiri óþolinmæði en áður. Kannski er það ekkert undarlegt þegar tillit er tekið til þess að umferðin gengur því hægar fyrir sig sem fleiri bílar eru á götunum auk þess sem endalausar gatnaframkvæmdir hægja á umferð. Það er náttúrulega óþolandi að það skuli taka allt 40 mínútur að komast milli Hafnarfjarðar og Breiðholts.

Hvað sem því líður eru skráð umferðarlög samt sem áður í fullu gildi. Eitt af því sem umferðarlög gera ráð fyrir er að gula ljósið sé virt sem ábending um að stoppa eða vera þess viðbúinn að leggja af stað. Tilgangur gula ljóssis er sá að hreinsa gatnamót. Þannig er ætlast til þess að ökumaður aki yfir á gulu EF hann er kominn fast að stöðvunarlínu þegar GULA ljósið kviknar. Annars á hann að stoppa. Þetta er ekkert mjög flókið.

Mér sýnist þó vera nokkuð algengt að ökumenn telji að þessi regla eigi við um rauða ljósið en ekki það gula. Ég hef allavega orðið fyrir því tvisvar sinnum á síðustu vikum að bílstjórinn fyrir aftan mig lagðist á flautuna þegar ég stoppaði á gulu ljósi, c.a. sekúndu áður en það rauða kviknaði.

Nú jæja, það má alltaf gera ráð fyrir því að einhverjir séu hreinlega að fara á límingunum af stressi og lítið við því að segja. Í gær varð ég þó fyrir framkomu sem mér finnst tæplega hægt að flokka sem stress. Ég stoppaði við vandlega merkta gangbraut við Hólabrekkuskóla, til að hleypa hópi barna yfir götuna. Það féll víst ekki í kramið hjá næsta bílstjóra sem sá ástæðu til að þeyta flautuna. Börnin voru að vísu ekki með skólatöskur og kannski finnst einhverjum það bara sjálfsögð sárabót í þessu kannaraverkfalli að þurfa síður að hafa áhyggjur af töfum vegna barna á umferðartíma en HALLÓ! ef menn líta á það sem óþarfa töf að stoppa fyrir börnum á gangbraut við grunnskóla, er þá ekki sanngjarnt að flokka það sem frekju?

 

 

Share to Facebook

One thought on “Gult, rautt og gangbraut

  1. ——————-

    Torfi @ 10/11 18.52

    Var bílstjórinn kvenkyns?

    ——————-

    eva @ 11/11 12.02

    Nei. Bílstjórinn var drengur líklega innan við tvítugt og þar sem hann beygði inn á planið hjá FB, get ég mér þess til að hann stundi þar nám.

    ——————-

    Gunný @ 11/11 14.21

    Það er ekki ósanngjarnt enda er maður svosum hugsi yfir hlut barna í samfélaginu þessa dagana.

    ——————-

    Torfi @ 11/11 18.57

    Ég spurði nú ekki bara af einskærum kvikindisskap, heldur einnig vegna slæmrar reynslu af konum í umferðinni.
    Ég reyni að komast ferða minna á hjóli, vegna blankheita, og er orðinn helvíti fúll vegna þess hve oft er svínað á mig (reyndar er ég nokkur kræfur til réttarins sjálfur ;-)). Ég hef tekið eftir því að það eru fyrst og fremst konur sem frekjast áfram í umferðinni. Þær flýta sér miklu meira og eru mun stressaðri og tillitslausari en karlarnir. Stoppa á gangbraut eða aka einfaldlega yfir á rauðu, stöðva bílinn við gatnamót innan beinnar línu þar sem gert er ráð fyrir að gangandi og hjólandi geti farið yfir, osfrv.
    Ætli þær séu tímalausari en karlar eða kannski bara tilætlunarsamari?

    ——————-

    Sigga @ 12/11 11.06

    Veistu ég held Torfi að þetta fari bara eftir því hverju maður tekur. Mér t.d. finnst eldri kallar á jeppum vera helstu frekjuhundarnir. Þeir eru alveg að drepa mig í umferðinni. Ég er lítil kelling á pínulitlum bíl. En ég er innilega sammála þér Eva að mér finnst meira stress í umferðinni og ekkert umburðarlyndi.

    ——————-

    Torfi @ 12/11 14.04

    Þú tekur eftir eldri köllunum á jeppunum – og verður fyrir vonbrigðum -, en ég eftir litlum kellingum á pínulitlum bílum – og verð einnig fyrir vonbrigðum ;-))
    Annars finnst mér nú bera meira á miðaldra konum en körlum á þessum jeppum. Þær virðast m.a.s. nota þá í innkaupum. Er ekki kominn tími á nýja mengunarpólitík þar sem tekið er upp sérstakt gjald á þessa mengunarspúandi dreka til að draga úr innflutningi á þeim?
    Svo ekki sé talað um hættuna af þessum drápsvélum…

Lokað er á athugasemdir.