Furðulegt réttarfar

Þetta er fyrsti pistillinn sem ég skrifaði um dómsmál. Frá þeim tíma hafa dómar í líkamsárásarmálum þyngst nokkuð en ennþá virðast dómstólar líta ofbeldi mildari augum en fíkniefnabrot. Í dag er ekki refsivert að selja kynlíf en hinsvegar er refsivert að kaupa það.

free-condoms-demo

Þá vitum við það. 2-3 ár fyrir manndráp. Ódýrt að vera morðingi á Íslandi svo ekki getum við kvartað undan dýrtíðinni í þeim efnum.

Furðulegur þykir mér þessi dómur, ekki síst í ljósi þess hve harðir dómar hafa fallið í fíkniefnabrotamálum á undanförnum árum. Ekki svo að skilja að ég sé að mæla fíkniefnabrotum bót en „þolandinn“ hefur þó val um það hvort hann tekur áhættuna á að ánetjast fíkniefnum eða ekki. Ofbeldi er hinsvegar ekki eitthvað sem maður tekur yfirvegaða ákvörðun um að „prófa bara einu sinni“ að láta yfir sig ganga, maður verður einfaldlega fyrir því. Væri þá ekki hreinlega rökrétt að dómskerfið tæki harðar á ofbeldisbrotum en fíkniefnabrotum?

free-condoms-demoÞað verður annars fróðlegt að sjá hvað kemur úr úr máli bílskúrsdömunnar í Hafnarfirði. Það er ekki við því að búast að lögreglan hafi tíma til að eltast við ofbeldismenn þegar hórur og viðlíka glæpamenn ganga lausir og bjóða blíðu sína gegn greiðslu af fúsum og frjálsum vilja. Nokkuð athyglisvert að í ákærunni er ekki farið fram á eignaupptöku svo það er augljóslega verknaðurinn sjálfur – kynlíf gegn greiðslu, sem fer fyrir brjóstið á ríkissaksóknara en ekki skattsvikin.

Og nú er bara að bíða og sjá; fær Daman harðari dóm en nauðgarar fá að meðaltali? Eða skiptir það kannski einhverju máli hvort menn kjósa að gangast undir kynferðisleg samskipti (og borga fyrir það háar fjárhæðir með bros á vör) eða hvort þeim er þröngvað til þess?

 

Share to Facebook