Framtak Össurar og súru berin hans Bússa

Enginn íslenskur ráðherra hefur tekið jafn afdráttarlausa afstöðu með mannréttindum og Össur Skarphéðinsson. Ef þingmenn Hreyfingarinnar eru frátaldir, hefur sennilega enginn þingmaður Íslandssögunnar staðið sig jafn vel í mannréttindamálum og hann. Tilvitnun hans í Reagan á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna var flott útspil og varla hægt að hugsa sér beittari niðurlægingu fyrir Netanyahu en að vera settur á bás með gömlu Sovétríkjunum, og því áhrifameira að það skuli gert með orðum fyrrum Bandaríkjaforseta. Líkingin liggur þó í augum uppi því Berlínarmúrinn var í hugum minnar kynslóðar tákn aðskilnaðar og kúgunar og var hann þó töluvert minni en aðskilnaðarmúr Ísraelsmanna.

Ekki sá ég neinn íslenskan fjölmiðil setja orð Össurar í þetta bráðskemmtilega samhengi fyrr en Smugan vakti athygli á því að bloggarinn Björn Bjarnason (sem er öllu betur upplýstur en flestir íslenskir blaðamenn, þótt ekki hafi menntun hans komið íslensku þjóðinni að gagni) hefði bent á þessa vísun í Reagan á Evrópuvaktinni.

Umræddur bloggari var einu sinni Dómsmálaráðherra. Á sokkabandsárum sínum langaði hann að fá að vera ritstjóri Moggans en fékk það ekki. Seinna dreymdi hann um að verða Utanríkisráðherra en fékk það ekki heldur. Honum var því miður hleypt í Dómsmálaráðuneytið þar sem hann varð sjálfum sér og Sjálfstæðisflokknum til athlægis með órum sínum um íslenskan her og leyniþjónustu.

Árið 2008 vakti Björn töluverða athygli fyrir mannréttindabrot sín gagnvart flóttamanninum Paul Ramses og fjölskyldu hans. Eftir vasklega framgöngu aðgerðasinna og pólitískan þrýsting frá fjölmörgum borgurum sem mótmæltu valdníðslu ráðherrans og kröfðust þess að hann virti flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, neyddist Björn til að láta sækja Ramses til Ítalíu. Paul Ramses býr á Íslandi enn í dag en útilokað er að vita hvort hann væri á lífi ef tugir almennra borgara hefðu ekki staðið vaktina fyrir utan skuggaráðuneytið dag eftir dag og krafist réttlætis.

Hlægilegar mikilmennskuhugmyndir Björns urðu Spaugstofumönnum ómetanleg uppspretta háðs. Hann náði þeim vafasama heiðri að verða einn af óvinsælustu ráðherrum allra tíma og í nóvember 2008 var stofnaður hópur á Snjáldrinu undir heitinu BÚS, sem stendur fyrir Björn úr Stjórnmálum. Snemma árs 2009 var flokkur hans svo  rekinn frá völdum með skömm og hafa pólitísk áhrif hans verið hverfandi síðar.

Björn hnýtir í Össur og talar um þetta þarfa framtak hans á Allsherjarþinginu sem dómgreindarbrest. Það er ótrúverðugur dómur hjá Bússa sem eflaust hefði gjarnan viljað standa í sporum Össurar í dag. Bússi hefði áreiðanlega fundið til sín ef hann hefði einhverntíma náð því að vekja athygli á alþjóðavettvangi fyrir skörulega ræðu og snjalla vísun í fyrrum forseta Bandaríkjanna. En hann hefði auðvitað aldrei þorað að móðga Ísrael og stugga við Bandaríkjamönnum. Hann hefði heldur aldrei tekið afdráttarlausa afstöðu með mannréttindum. Jafnvel þótt honum væri annt um mannréttindi hefði hann aldrei tekið áhættu á því að vekja þá hneykslun og reiði sem fólk með sjálfstæðar skoðanir og kjark til að standa við þær vekur svo oft, jafnvel meðal samherja sinna. Það voru aðgerðasinnar sem neyddu Björn til að virða mannréttindi Pauls Ramses, það voru aðgerðarsinnar sem ráku Björn og flokk hans frá völdum og það hlýtur að vera súrt fyrir íhaldssaman kerfiskall að sjá fyrrum aktívista og vinstrisinna sem oft hefur verið líkt við vindbelg brillera í stöðu Utanríkisráðherra, stöðu sem Bússa gafst aldrei kostur á.

Össur Skarphéðinsson er alveg ágætur stjórnmálamaður. Hann er sjálfum sér samkvæmur og hvað sem líður öllum dómum um sjálfbirgingshátt hans þá er mín reynsla af honum allavega sú að hann svarar bréfum og gefur hreinskilnisleg svör um það hvort og hvernig hann muni bregðast við erindum. Hann er valdamesti maður í Samfylkingunni í dag, enginn á raunhæfan möguleika á formannsstöðu nema hafa hans stuðning og hann hefur vakið alheimsathygli fyrir réttmæta gagnrýni sína á Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Björn Bjarnason er hinsvegar enginn stjórnmálamaður. Hann er bara pínulítill kall, bloggari sem ræður engu og er fullkomlega laus við að hafa nokkuð áhugavert fram að færa.  Í mesta lagi þokkalega ritfær tuðari en þó svo hrútleiðinlegur að þrátt fyrir að hafa betri þekkingargrunn en flestir íslenskir blaðamenn er það ekki fyrr en málgagn Vinstri Grænna bendir sérstaklega á hann sem einhver man eftir honum.

 

Share to Facebook

2 thoughts on “Framtak Össurar og súru berin hans Bússa

  1. Ég held að það sé misskilningur að Bússa hafi langað til að verða ritstjóri Moggans. Ég man eftir honum á ristjórninni í gamla daga sem mannfælnu og nördalegu ungmenni, sem fékk stundum að hlaupa í skarðið og skrifa leiðara þegar Styrmir forfallaðist. Hann var sprenglærður fyrir aldur fram, rétt rúmlega tvítugur minnti hann á gömlu rykföllnu dósentana í íslenskum fræðum em maður sá uppi í Háskóla rölta um ganga, kengbogna í baki undan sinni eigin visku.

Lokað er á athugasemdir.