Forgangsröðin á hreinu

Síðasta vetur losnaði gangstéttarhella fyrir framan búðina mína á Vesturgötunni. Í húsinu búa tveir eldri borgarar en hinum megin við götuna er heilsugæslustöð þar sem m.a. fer fram ýmis þjónusta fyrir eldra fólk. Fótafúið fólk á því oft leið hér um og ég hafði áhyggjur af því að þessi hella hefði í för með sér slysahættu.

Nú vill svo til að einn fjölskyldumeðlima var á þessum tíma að vinna hjá Reykjavíkurborg, einmitt við að lagfæra hluti á borð við lausar hellur. Hún vakti athygli verkstjóra á þessu en þrátt fyrir að hún ítrekaði nauðsyn þess að laga þetta smáræði, oft í viku, liðu 2 mánuðir áður en það kom til framkvæmda. Það tók um 10 mínútur þegar loksins varð af því.

Það kom mér því nokkuð á óvart, þegar ég mætti í Skuggasundið í hádeginu í gær, til að mótmæla flóttamannastefnu Björns og félaga, að sjá að þar höfðu starfsmenn borgarinnar verið kallaðir út (væntanlega á yfirvinnukaupi) til þess að hreinsa þetta umrædda krot af húsi dómsmálaráðuneytisins. Talsverður hávaði stafaði frá loftþrýstdælu sem þeir notuðu við verkið svo fundarmenn þurftu að færa fundinn upp á næsta horn. Sem var nú svosem allt í lagi.

Ég er ekkert hrifin af veggjakroti sjálf en eitthvað finnst mér samt forgangsröðin undarleg hjá borginni. Var það hættan á því að fjöldi túrista legði leið sína í Skuggasundið og sæi ósómann sem varð til þess að menn voru kallaðir út á sunnudegi? Eða var mánudagurinn svona undirlagður af verkefnum?

mbl.is Spreyjað á dómsmálaráðuneytið
Share to Facebook