Flugvallarhlaupið og áhrif þess

Þriðji júlí 2008. Síminn hringir um miðja nótt. Mér gremst því ég á erfitt með svefn og allir sem þekkja mig vita það. En Haukur hringir aldrei nema eiga erindi og hjartað tekur aukaslag þegar ég sé númerið.

—Mamma, sorrý að ég skuli vekja þig en þú verður að hjálpa okkur að bjarga mannslífi.(Hann er ekki vanur því að vera óhóflega dramatískur.)

—Það er verið að reka pólitískan flóttamann úr landi. Hann á konu og ungbarn og þeir eru að leysa fjölskylduna upp.

—Auðvitað hjálpum við þeim. Tölum saman á morgun.

—Það er of seint á morgun. Þeir eru búnir að handtaka hann og hann verður sendur burt í nótt eða á morgun.

Pólitískir flóttamenn ekki í kastljósi frá Gervasoni-málinu

Ég fór á fætur. Auðvitað. Þetta var of ótrúlegt til að vera satt en þannig er það oft þegar ríkisvaldið og önnur glæpasamtök ráðast gegn fólki í viðkvæmri stöðu. Ég vissi ekki þá að flóttamenn dveldu langtímum á Íslandi. Að þeir kæmu hingað jú, ég vissi það, en ég hélt að mál þeirra væru afgreidd á nokkrum vikum. Ég mundi ekki til þess að pólitískir flóttamenn hefðu verið í kastljósi fjölmiðla frá því að Guðrúnu Helgadóttur ofbauð meðferðin á Gervasoni mörgum árum áður en Haukur fæddist. Ég vissi ekki að á gistiheimilinu Fit væru flóttamenn geymdir árum saman og ég vissi ekki að þeir væru unnvörpum sendir burt í skjóli nætur án þess að umsóknir þeirra fengju efnismeðferð.

Við skiptum liði. Hópur fólks fór til Keflavíkur í þeim tilgangi að reyna að hindra að Ramses yrði sendur úr landi. Þar sem við vissum ekki með hvaða flugi hann færi dreif hópurinn sig af stað en einhver varð eftir til að finna út hvaða flug færu til Ítalíu. Ég varð líka eftir í bænum og fékk það hlutverk, ásamt annarri konu, að vakta lögreglustöðina og láta þau sem fóru til Keflavíkur vita þegar ég sá Ramses leiddan út af Hverfisgötunni í járnum einhverntíma undir morgun.

Jason og Haukur dregnir fyrir dóm

Framhaldið þekkja flestir. Eldhugarnir Jason Slade og Haukur Hilmarsson hlupu inn á flugbraut og röskuðu með því flugáætlun. Ramses var samt sem áður sendur til Ítalíu en í kjölfarið héldu Birgitta Jónsdóttir og Hörður Torfason hvern mótmælafundinn á fætur öðrum og að lokum var Paul Ramses leyft að koma til Íslands og hér er hann enn. Færri vita að þrátt fyrir að ríkið hafi með því að taka við Ramses viðurkennt mistök sín voru Jason og Haukur dregnir fyrir dóm og sakfelldir á grundvelli ákæruliðar sem ekki var getið í ákæru. Hæstiréttur vísaði málinu heim í hérað aftur og ákæruvaldið fékk nýtt tækifæri til að ofsækja þá fyrir að framfylgja mannréttindum. Þeir voru sakfelldir öðru sinni og Hæstiréttur staðfesti þá ósvinnu en dómnum var aldrei framfylgt.

Ennþá færri sem vita að daginn eftir flugvallarhlaupið hringdi Haukur heim til Ingibjargar Sólrúnar og ætlaði að fá hana til að beita sér í máli Ramses. Ég gleymi aldrei sólskinsbrosinu sem færðist yfir andlit hans þegar barnið sem svaraði í símann sagði honum að Ingibjörg Sólrún væri á Ítalíu. „Hún hefur áttað sig! Hún er að sækja Paul!“ sagði hann og dansaði af kæti. En nokkrum mínútum síðar varð honum ljóst að hún var í allt öðrum erindagerðum á Ítalíu. Aldrei síðar hef ég heyrt hann lýsa trú sinni á ráðamenn.

Stöðug vakning í tíu ár

Mig grunaði ekki þá að þessi nótt myndi marka upphafið að baráttunni fyrir réttindum flóttamanna á Íslandi en síðan hefur fjölda manns verið bjargað frá brottvísunum með samstilltu átaki almennings og fjölmiðla. Haukur beitti sér fyrir stofnun No Borders á Íslandi en fór svo til Grikklands til að aðstoða flóttamenn þar og aðrir héldu á lofti baráttunni fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi. Þótt Haukur hafi horfið af sjónarsviðinu hefur aktífismi hans, Jasons og annarra sem komu að máli Pauls Ramses haft langvarandi áhrif.

No Borders liðar hafa haldið uppi stöðugri vakningu og aðstoðað fjölda flóttamanna. Hinn eldklári Benjamín Julian hefur með skrifum sínum og beinum stuðningi við flóttamenn vakið athygli bæði á málum þeirra almennt og á aðstöðu einstakra manna. Áhugafólk hefur barist fyrir einstaka flóttamenn eða fjölskyldur af hreinni samúð með manneskjum, án þess að tilheyra neinum pólitískum samtökum. Konur sem sáu fjölmiðaumfjöllun um málefni afgönsku mæðgnanna þrýstu á um rétt þeirra án þess að þekkja neitt til þeirra og án þess að nokkur úthlutaði þeim því verkefni. Áhugafólk um velferð barna hefur meðal annars fengið því framgengt að Haynie litlu Maleki var þyrmt. Prestar hafa látið reyna á kirkjugrið. Margir hafa gripið til beinna aðgerða til stuðnings flóttafólki, m.a. með því að hjálpa fólki sem átti að vísa til Grikklands eða Ítalíu að komast til Ameríku og með því að hjálpa flóttafólki að leynast og þrýsta á um að mál þess fengju efnismeðferð. Hugrakkir liðsmenn No Borders hafa meira að segja reynt að stöðva brottflutning flóttafólks með því að fara um borð í flugvél og tefja þannig fyrir brottför hennar.

Lykilatriði að galopna landamæri

Ríkisvaldið hefur svo brugðist við samúð almennings með flóttafólki með því að banna heimsóknir sjálfboðaliða til hælisleitenda og lagt sig fram um að hola þeim niður í sem mestri einangrun. En það hefur líka neyðst til þess að stytta málsmeðferðartíma og veita fleiri dvalarleyfi og það kemst síður upp með að halda myrkraverkum sínum leyndum.

Þótt barátta almennings fyrir réttindum einstakra flóttamanna sé ómetanleg dugar hún ekki til þess að bæta stöðu flóttamanna almennt. Eins og staðan er nú er það tilviljun háð hverjum tekst að bjarga og hverjir eru sendir burt í ömurlegar aðstæður og í sumum tilvikum aðstæður þar sem lífi þeirra er ógnað. Eina leiðin til þess að koma á raunverulegum umbótum er sú að uppræta þjóðernishyggju úr stjórnsýslunni.

Mér datt ekki í hug, þann 3. júlí 2008 að það væri ákjósanlegt að galopa landamæri en í dag tel ég það lykilatriði til lausnar á flóttamannavandanum. Þegar allt kemur til alls hefur ferðafrelsi innan Evrópusambandsins og innan Shengensvæðisins ekki haft neinar hörmungar í för með sér. Og þið sem hafið áhyggjur af menningarárekstrum – finnst ykkur í alvöru talað betra að þúsundir drukkni í Miðjarðarhafinu en að ríkustu þjóðir heims verði fyrir þeim óþægindum sem hljótast af skyndilegum innflutningi fólks af erlendu bergi?

Share to Facebook