Fangelsismálastofnun svarar bréfi

Ég hef ekkert legið á skoðunum mínum á ofbeldisstofnunum ríkisvaldsins en það mega bæði Lögreglan og Fangelsismálastofnun eiga að þeim erindum sem ég hef sent þeim hefur verið svarað. Nú geta talsmenn stofnana yfirleitt ekki tjáð sig um mál tiltekinna einstaklinga og ég átti þessvegna aldrei von á því að fá fullnægjandi svar við þessu bréfi; ég sendi það aðallega til þess að koma til Fangelsismálastofnunar og fjölmiðla skilaboðum um spurningar sem brunnu á mér og fjölda annarra borgarara varðandi þetta mál.

Við fyrstu sýn virðast lög um fullnustu refsinga og reglur Verndar ekki heimila það að maður sem hlotið hefur tveggja ára fangelsisdóm sé kominn á Vernd eftir 6 mánaða fangelsisvist. Hjá mörgum vöknuðu spurningar um það hvernig í ósköpunum það samræmdist lögum að fangi kæmist á áfangaheimili eftir að hafa afplánað fjórðung dóms í fangelsi. Einnig komu fram um umræður um hvort föngum væri mismunað eftir stéttarstöðu og félagstengslum. Ég var ein þeirra sem vildi fá að vita hvort mál Baldurs væri sérstakt eða hvort algengt væri að menn fengju inni á Vernd eftir að afplána fjórðung dóms.

Ég hefði haldið að hlutverk fjölmiðla væri að svara þessum spurningum en þar sem ég var engu nær eftir fjölmiðlaumfjöllun þriðjudagsins, sendi ég annað bréf og stílaði það á Pál Winkel.

Bréfið til Páls var sent með tölvupósti 18. september 2012 kl. 19:51 að íslenskum tíma. Ég fékk svar þann 19. sept kl 13:54. Hverri spurningu fyrir sig var svarað og ég hvött til að hafa endilega samband ef svörin reyndust ekki fullnægjandi. Eitt svarið reyndist ófullnægjandi svo ég bað um nánari skýringar. Þær fékk ég kl 9.01 í morgun.

Upplýsingarnar sem ég fékk eru í aðalatriðum þessar:
-Tíminn þar til fangar komast á Vernd er reiknaður út frá svokölluðum afplánunartíma en ekki dómnum. (Ég fjallaði aðeins um þær undarlegu reikningskúnstir hér.)
-Frá 1.1.2007 hafa 27 fangar fengið inni á Vernd eftir að hafa afplánað ¼ refsingar sinnar eða minna í fangelsi. Allir höfðu setið inni skemur en 1 ár.
-Allir fangar fá inni á Vernd ef þeir óska þess og uppfylla skilyrðin og mjög sjaldgæft er að biðlistar myndist.
-Ef biðlistar myndast bíða þeir lengst sem síðast sóttu um.

Svör Páls skýra það hversvegna fangi getur komist á Vernd eftir að hafa afplánað fjórðung dóms í fangelsi (hvort er eitthvert vit í þeim reglum er svo annað mál) og þótt ég sé enn ekki alveg grunlaus um að félagsleg staða hafi áhrif á meðferð fanga, hef ég allavega fengið staðfest að Baldur er alls ekki einn um að hafa fengið inni á Vernd eftir stutta fangavist.

Margar nýjar spurningar hafa vaknað hjá mér varðandi fangelsismál. Ég held að full ástæða sé til að endurskoða þessar undarlegu reikningsreglur og skýra hugtakanotkun Fangelsismálastofunar. Ég velti því fyrir mér hvort örykjar eigi sömu möguleika og aðrir á því að komast á Vernd, þar sem skilyrðin fyrir því eru að viðkomandi stundi vinnu eða nám. Mig langar að vita hvort ennþá viðgangist það rugl að vistmenn á Vernd þurfi að sækja AA fundi upp í Árbæ, óháð því hvort þeir eigi við áfengisvanda að etja eður ei. Ég vil sjá umræðu um gæfusamlegri viðbrögð við afbrotum en þau að svipta menn frelsi sínu þótt engum stafi meiri hætta af þeim utan múra en innan.

Sú spurning sem heitast brennur á mér í augnablikinu varðar þó vinnubrögð fjölmiðla. Af hverju er svona sjaldgæft að fréttamenn komist til botns í málunum? Mín reynsla er sú að flestar stofnanir svara málefnalegum tölvupósti með skýrum og afdráttarlausum spurningum, og gera það yfirleitt fljótt. Embættismenn hafa jafnvel svarað tölvupósti frá mér um helgar og um miðjar nætur. Stofnunum ber að svara spurningum og útvega gögn sem varða almannahag og flokkast sem opinberar upplýsingar ef óskað er eftir því. Það er því ekkert ógurlega flókið mál að afla þeirra heimilda sem þarf til að vinna góðar fréttaskýringar eins sjá má af þessu dæmi. Ég efast um að starfandi fréttamenn eigi verri aðgang að upplýsingum opinberra stofnana en ég eða að embættismenn svari þeim síður.

Blaðamenn telja líklega að það sem ráði mestu um það hvort fréttin verði „klikkuð“ sé æsileg fyrirsögn og beinar tilvitnanir í vanhugsuð ummæli. Stór hópur lesenda hefur þó meiri áhuga á því hvað Páll Winkel hefur að segja en því sem hann getur ekki tjáð sig um. Stór hópur vill ekki bara fá tækifæri til að eipa á umræðukerfum heldur líka (eða aðeins) almennilegar skýringar á því sem vekur spurningar, reiði og hneykslun. Þeim hópi er afar illa sinnt af íslenskum fjölmiðlum.

Share to Facebook

1 thought on “Fangelsismálastofnun svarar bréfi

  1. Öryrkjar eiga sömu möguleika og aðrir á að komast á Vernd, það eru önnur úrræði í boði þegar þannig stendur á. AA fundir tíðkast því miður enn, einu sinni í viku, en þeir eru nú haldnir inni á Vernd og það er skyldumæting. Þessir fundir eru fullkomlega misheppnaðir og gagnslausir, þar sem ævinlega er hluti fundarmanna þar gegn vilja sínum.

Lokað er á athugasemdir.