Er vímuleysi það eina sem skiptir máli?

razorbladeSonur minn er á 17. ári og hefur tekið sína gelgju út með því að hlusta á tónlist sem er mér ekki að skapi. Það finnst mér miklu betri kostur en að hann brjótist til sjálfstæðis með því að nota vímuefni og umgangast fólk sem ekki er til þess hæft að lífa í samfélagi manna. Því hef ég tekið því brosandi þegar hann fer á dauðarokktónleika í Hinu Húsinu. Hitt Húsið mun enda fylgja þeirri stefnu til hins ítrasta að banna vímuefnanotkun á staðnum enda er aldurstakmark á slíka tónleika 16 ára.

Ég er nú svona almennt frekar umburðarlynd gagnvart smekk annarra og hef ekki litið á það sem neitt sérstaklega mannskemmandi reynslu að hlusta á dauðarokk, þótt ég hafi sjálf takmarkað þol gegn þeim óhljóðum sem framin eru í nafni þeirrar einkennilegu tónlistarstefnu. Boðskapur textanna er reyndar oftast langt frá því að vera uppbyggilegur en þar sem raddbeiting „söngvaranna“ veldur því yfirleitt að textinn heyrist ekki hvort sem er og boðskapurinn er sjaldnast studdur rökum sem viti borið fólk tekur mark á, hef ég kosið að líta svo á að syni mínum sé sáralítil hætta búin af því að sækja tónleika af þessu tagi.

Það runnu þó á mig tvær grímur þegar hann sagði mér frá tónleikum sem hann fór á rétt fyrir páska. Sennilega hefur textasmið hljómsveitarinnar ekki tekist að koma skoðunum sínum á framfæri með orðum einum saman og hljómsveitinni ekki tekist að auka áhrifin með orgum og óhljóðum, því til að undirstrika boðskapinn, skáru hljómsveitarmeðlimir hold sitt og hver annars með rakvélarblöðum á meðan á tónlistarflutningi stóð. Lagaði blóð úr sárum og ýrðist á tónleikagesti og áður en yfir lauk féll söngvarinn í öngvit af blóðmissi og var fluttur á slysadeild þar sem gert var að sárum hans.

Ég dreg það mjög í efa að nokkur maður gangi svo nærri sjálfum sér án þess að vímuefni séu í spilinu og mér finnst það harla einkennileg stefna hjá Hinu Húsinu að láta gjörninga af þessu tagi viðgangast fyrir framan 16 ára unglinga. Mér finnst það sjálfsagt mál að starfsmenn taki í taumana ef fólk á þess vegum tekur upp á því að skaða sjálft sig á sviði, tel það einfaldlega ábyrgðarhluta að gera það ekki. Af tvennu illu er ég ekki frá því að ég vilji frekar að sonur minn verði vitni að kannabisreykingum en uppákomum af þessu tagi. Það er allavega ekki hætta á lifrarbólgusmiti eða öðru því verra ef hassreykur berst í vit hans eða í sár. Ég er stórhneyksluð og mun ekki leggja blessun mína yfir það að sonur minn sæki tónleika í Hinu Húsinu framvegis, það hlýtur að vera hægt að finna annan vettvang þar sem ungt fólk skemmtir sér án vímuefna.

Share to Facebook

One thought on “Er vímuleysi það eina sem skiptir máli?

  1. Þorkell @ 23/04 16.06

    Þetta finnst mér ljót saga. Hefurðu komið kvörtunum á framfæri við Hitt húsið?

    eva @ 25/04 13.40

    Ég hef ekki ennþá náð í konuna sem hefur yfirumsjón með tónleikahaldinu en ég talaði við aðra á skrifstofunni og spurði út í það hvernig staðið væri að gæslumálum og hvort ekki væru gerðar þær kröfur til hljómsveita að meðlimir þeirra hegðuðu sér sæmilega. Svörin sem ég fékk voru á þessa leið:

    -Hér eru dyraverðir og mjög ströng gæsla. Engum er hleypt inn undir áhrifum og aldurstakmark virt.

    Ég hef aldrei heyrt að fólki undir áhrifum sé hleypt inn á slíka tónleika. Hitt veit ég að sonur minn átti ekki skilríki þeagr hann byrjaði að venja komur sínar þangað og ekki var honum vísað frá. Yngri drengurinn minn sem er lítill eftir aldri og lítur ekki út fyrir að vera deginum eldri en hann er, fór einu sinni með bróður sínum á tónleika í Hinu Húsinu. Hann var þá 13 ára en aldurstakmark á tónleikana 16.

    eva @ 25/04 13.45

    Annað sem þessi ágæta kona sagði var eitthvað í þessa veruna:

    -Það fær enginn að spila hér sem er í einhverju rugli en við ritskoðum ekki hljómsveitir eftir því hversu penar þær eru.

    Ég vona að það sé rétt en kannski þarf að endurskilgreina orðið „rugl“. Kannski ætti líka að gera kröfu um penheit, allavega að því marki að líkamsvessum sé haldið utan við sjóvið.

    Ég sagði frá þessum tónleikum og spurði hvort það ekki væri stefna Hins Hússins að taka í taumana ef eitthvað færi úr böndunum. Svarið sem ég fékk var á þessa leið:

    -Hér hefur aldrei neitt farið úr böndunum. Ef þetta hefur gerst þá hefur umsjónarkonan sennilega ekki séð það.

    Eins og ég segi þá hef ég ekki ennþá náð tali af þeirri ágætu konu en velti því fyrir mér hvort ekki þurfi þá að gera þá kröfu til starfsfólks að það sé nógu vakandi til að átta sig á því hvað fer fram á sviðinu.

Lokað er á athugasemdir.