Er heimilisfræðikennsla tímaskekkja?

Alla sína skólagöngu vörðu synir mínir tveimur kennslustundum á viku til þess að læra hluti sem þeir hefðu lært hvort sem er. Á þeim tíma velti ég því oft fyrir mér hvort það sé í raun skynsamlegt að kenna heimilisfræði í skólum. Synir mínir kunnu að panta pizzu 10 ára. Ég er hinsvegar ekki viss um að þeir viti ennþá hvað úrvalsvísitala er.

Börn þyrftu frekar að læra um fjármál en matseld

Skólabörn geta haft ánægju af því að læra matreiðslu og handavinnu en þau lenda ekki í vandræðum þótt þeir læri það ekki. Fæst þeirra koma hins vegar út úr skóla með það eina sem skiptir einhverju sérstöku máli þegar heimilisrekstur er annars vegar; að fara með peninga.

indexÉg hef ekkert á móti því að börn steiki hamborgara í skólanum ef þau velja það sjálf. Ég held hins vegar að það sé löngu tímabært að endurskoða áherslurnar í skólakerfinu. Það er ekki lengur nauðsynlegt að kunna að elda, smíða eða sauma en það kemst enginn hjá því að nota peninga og kunnáttuleysi í þeim efnum er nokkuð stórt samfélagslegt vandamál á Íslandi.

Ekki nóg að kenna þeim að spara

Það er ekki nóg að kunna sér hóf í því flókna fjármálaumhverfi sem börn alast upp í á okkar dögum, við verðum líka að læra að nota peninga. Við þurfum að læra að fara með kreditkort, við þurfum að læra á skattakerfið, læra að fylgjast með vöxtum, taka lán, fylgjast með tækifærum til að gera hagstæð kaup og stilla okkur um að nýta slík tækifæri þegar við þurfum ekki á þeim að halda.

Í samfélagi þar sem hver sem er getur tekið að láni hundruð þúsunda án þess að leggja fram tryggingu, þar sem bankar og aðrar fjármálastofnanir hvetja fólk til að setja sig í óviðráðanlegar skuldir, þar sem enginn kemst í gegnum daginn án þess að verða fyrir stöðugum áhrifum af auglýsingaskrumi og gylliboðum, er kannski ekki stórfurðulegt að hátt hlutfall ungs fólks sé komið í vanskil áður en það nær að stofna heimili.

Heimilisfræði ætti að skapa betri heimili

what_did_you_learn_in_cooking_classÞað er ekki lengur hæfni húsmóðurinnar til að bæta rifna brók og útbúa góða máltíð eða færni húsbóndans til að reka saman spýtur sem ræður því hversu ánægjulegt heimilislíf við eigum, Uncle Bens, Hagkaup og Ikea bjarga þessu öllusaman fyrir okkur. Það skiptir hins vegar sköpum fyrir öryggi og vellíðan allra á heimilinu að fólk kunni að komast hjá þeim aðstæðum sem leiða til fátæktar. Það tekur svo ótrúlega skamman tíma, svo fá mistök að lenda í vítahring of hárrar greiðslubyrði með tilheyrandi vaxta- og innheimtukostaði og það getur vafist fyrir meðalmanninum að finna leið út úr slíkum aðstæðum.

Nú er ég alls ekki þeirrar skoðunar að rétt sé að ýta öllu uppeldi yfir á skólakerfið. Vitanlega stendur það foreldrum næst að ala upp börn sem sýna ábyrgð í fjármálum. En að þessi stærsti áhrifavaldur í lífi hvers einasta manns -peningar- skuli ekki ennþá hafa náð inn í aðalnámskrá á sama tíma og börn læra að steikja hamborgara í skólanum, það finnst mér hreinlega óskiljanlegt.

 

Share to Facebook