Ekki aðskilnað heldur nýja kirkju

kirkjanÉg er að verða dálítið þreytt á þeim rökum fyrir sambandi ríkis og kirkju að við séum „kristin þjóð“ og að það sé eðlilegt að ríkið „sinni þörfum meirihlutans“.

Eins og allir vita sem það kæra sig um eru Íslendingar engir evangelistar, heldur eru þeir sem á annað borð trúa á yfirnáttúru, upp til hópa spíritistar. Þeir trúa því að við dauðann yfirgefi sálin líkamann og einstaklingurinn haldi áfram að eiga sér einhverskonar tilveru í heimi sem er handan okkar skilnings. Frá þessum heimi fylgist hann með okkur og getur haft samband við okkur í gegnum miðla, drauma eða jafnvel birst okkur sem svipur. Hann getur ef svo ber undir gripið inn í líf okkar með aðvörun. Heppileg tilviljun getur verið merki um að amma og afi haldi yfir okkur verndarhendi. Þetta er hin raunverulega trú Íslendinga og er hún þó frekar á undanhaldi.

Þessi hugmynd um líf eftir dauðann er ekki í neinu samræmi við kenningu kirkjunnar um að dauðir sofi í gröfum sínum til dómsdags. Hins vegar vita fæstir Íslendinga hver kenning kirkjunnar er í þessum efnum enda engu líkara en að prestar forðist þetta umræðuefni. Sonur minn þáði fermingarfræðslu hjá tveimur prestum og spurði þá sérstaklega út í lífið eftir dauðann, auk þess að ræða við tvo presta til viðbótar um einmitt þessi mál. Allir sögðu blessaðir guðsmennirnir börnunum að trúa bara því sem þau vildu. Gott og vel, kirkjan hefur samkvæmt því enga skyldu til að starfa eftir eigin kenningagrundvelli, gegnir ekki því hlutverki að uppfræða fólk um Biblíuna og fólk má bara trúa því sem því sýnist. Hlutverk hennar virðist samkvæmt þessu vera fyrst og fremst það að viðhalda sjálfri sér, með því að seilast í vasa skattgreiðenda, halda úti kirkjulegum athöfum, mynda umgjörð um jól og páska og höfða til fólks sem á bágt með svokallaðri kærleiksþjónustu.

Þar sem enn virðist talið rétt og eðlilegt að ríkið styðji og verndi trúarlíf og skoðanir meirihlutans, legg ég til að ríkið slíti sambandi við Þjóðkirkjuna en taki í staðinn að sér að reka spíritistafélag – kirkju meirihlutans. Það er einnig vel við hæfi í ljósi þess að draugatrú, draumráðningar og skyggnilýsingar, eru samtvinnuð menningu og sögu þjóðarinnar frá fyrstu tíð. Hvort sem við lítum til Íslendingasagna, þjóðsagna og kvæðahefðar eða hugmynda fermingarbarna nútímans um framhaldslíf, er engum vafa undiorpið að þessar hugmyndir eiga sér sterkar rætur í þjóðarsálinni. Svo er það náttúrulega viðtekin skoðun að fjöldinn skipti máli, þegar afskipti ríkisvaldsins af trúarlífi þegnanna er annars vegar, en ekki jafnrétti til trúarlífs.

Auðvitað gæti spíritistakirkjan boðið upp á kirkjulegar athafnir sem löng hefð er fyrir á Íslandi. Kosturinn er sá að presturinn gæti kinnroðalaust komið því að í líkræðu að afi sitji sennilega úti í sal og fylgist með eigin greftrunarathöfn. Hann gæti einnig notað frásögur eftirlifenda af því hvernig amma sáluga hefur hvað eftir annað birst börnum sínum og lýst yfir söknuði eftir afa og hvernig hún vitraðist afa í draumi og kallaði hann til sín, daginn áður en hann dó. Slíkar líkræður kynnu ættingjarnir áreiðanlega að meta.

Svo væri auðvitað vel við hæfi að ríkisrekin spíritistakirkja sendi fulltrúa sinn í skóla og leikskóla, til að segja draugasögur og syngja álfakvæði með krökkunum, kenna börnum að þroska skyggnigáfu sína, sem almennt er viðurkennt að mörg börn hafi, ráða drauma og kveða óvelkomna drauga í kútinn. Prestar spíritstakirkjunnar hefðu aukinheldur það verk með höndum að heimsækja ríkisstofnanir og fyrirtæki til að hreinsa þaðan út illa anda en hleypa góðum inn. Sérstakur klerkur gæti jafnvel verið í fullu starfi við þetta á Alþingi – ekki veitir af.

Ég hef ekki áhyggjur af því að það kæmi neitt niður á kærleiksþjónustu kirkjunnar þótt miðlar tækju við þeim pakka. Miðlar eru upp til hópa afskaplega kærleiksríkt fólk. Þeir hafa það umfram presta Þjóðkirkjunnar að geta náð sambandi við framliðna og þannig fengi syrgjandinn staðfestingu á því að hinum látna liði vel og hefði ekki gleymt ástvinum sínum. Það þætti flestum miklu meiri huggun en að heyra að afi (sem var kannski hinn mesti syndaselur, vita trúlaus og orðljótur drykkjurútur sem sveik fé út úr fátækum og orti skopkvæði um Jesús, gott ef hann átti ekki vingott við karlhóra um tíma – og sá ekki eftir neinu) sé grjótsofandi í sinni köldu gröf og þar muni hann liggja þar til honum verði varpað í eldsdýkið á hinum hinsta degi en ef Þjóðkirkjuprestar færu eftir sinni eigin trú myndu þeir segja syrgjendum þann „sannleika“.

Meirihluti þjóðarinnar vill halda í kirkjulegar athafnir en hann vill líka halda í trú á drauga, galdur og tákngildi drauma. Hygg ég að spíritistar séu betur til þess fallnir að mæta þeirri þörf en Þjóðkirkjan. Efist menn um réttmæti þess að skipta um rikiskirkju er einfaldast að fá Gallup til að gera könnun á raunverulegum skoðunum þjóðarinnar á eilífðarmálunum. Ef í ljós kemur að meirihlutinn samsamar sig betur hugmyndinum spíritista en Þjóðkirkjunnar, þá bara skiptum við. Það er nefnilega eðlilegt að ríkið „þjóni þörfum meirihlutans“ og leggi sig fram um að hindra frekari þróun Íslands í átt að fjölmenningarlegu samfélagi.

Share to Facebook

2 thoughts on “Ekki aðskilnað heldur nýja kirkju

  1. —————–
    Nonni @ 24/10 14.25

    Hey! Við viljum fá huldufólkið inn líka.

    —————–

    Sigurður Hólm Gunnarsson @ 24/10 20.37

    Efist menn um réttmæti þess að skipta um rikiskirkju er einfaldast að fá Gallup til að gera könnun á raunverulegum skoðunum þjóðarinnar á eilífðarmálunum.

    Slík könnun hefur reyndar þegar verið gerð. Sjá bók Björns Björnssonar og Péturs Péturssonar, Trúarlíf Íslendinga. Félagsfræðileg könnun. Sudia Theologica Islandica nr.3, 1990. Sjá hér einkum kafla 2, og þó sérstaklega töflur II-3 og II-17.

    Þar kemur fram að um 35% þjóðarinnar telur Jesúm vera frelsara sinn og 8% trúir á tilvist djöfulsins og 6% á tilvist helvítis. Um 15% efast eða er trúlaust. En heil 50% eru „einkatrúar“,. Semsagt annar hver maður í landinu trúir á „annað líf“ og „æðri mátt“ en býr til kennisetningar svona eftir hendinni hverju sinni.

    Ég mæli því með því að hér verði „Einkatrúarþjóðkirkja“ í staðin fyrir lútersku þjóðkirkjuna sem er hér nú. Enda trúa mun færri á kenningar Lúters en trúa á „hæfileika“ Þórhalls „miðils“ 🙂

Lokað er á athugasemdir.