Einokun, nei takk!

Eins og ég er nú almennt hlynnt því að fólk hafi frelsi til þess að gera það sem því bara sýnist, þá eru samt til aðstæður þar sem mér finnst ástæða til að slá varnagla. Dæmin sanna að útlendingar hafa oft ekki hugmynd um hvað þeir eru að fara út í þegar þeir þvælast án leiðsagnar upp á jökla og þótt það megi teljast með ólíkindum að hafa alist upp á Íslandi án þess að komast að því að snarvitlaust veður getur skollið á með litlum fyrirvara, þá gerist það enn að Íslendingar týnist uppi á fjöllum.

Ég verð alltaf frekar frústreruð þegar ég heyri um fólk sem er týnt í óbyggðum, því með þekkingu okkar á landinu og nútíma tækni, á að vera alger óþarfi að missa mannslíf á þennan hátt. Þessvegna vil ég láta taka upp tilkynningaskyldu og staðlaðar kröfur um öryggisbúnað, jafnvel tryggingarfé (sem yrði endurgreitt ef engin þörf reynist á leit, ég er ekki hrifin af því að gera slíka tryggingu að gróðavegi) fyrir þá sem ferðast um hættulega staði.

Þetta hinsvegar finnst mér fráleitt. Myndum við sætta okkur við að vera skylduð til að kaupa einhverja ákveðna þjónustu þegar við ferðumst um önnur lönd? Sjálfsagt ef það er spurning um öryggi jú en þetta hljómar nú meira eins og viðleitni til að raka inn meiri pening. Fréttir af týndum hópum ferðamanna, slysum eða fólki í sjálfheldu vegna vanþekkingar leiðsögumanns hafa alveg farið fram hjá mér en ef vandamálið er virkilega það að erlendir leiðsögumenn þekki ekki staðhætti og öryggisreglur, þá myndi tilkynningaskylda, öryggiskröfur og leitartrygging duga til að mæta þeim vanda.

Gjaldtaka á ákveðnum svæðum, sem krefjast viðhalds og þjónustu við ferðamenn er eðlileg en það er ekki verjandi að ætla að banna fólki aðgang að einhverjum sérstökum svæðum jarðarinnar nema skylda það til að láta hafa sig að féþúfu. Það er sjálfsagt að bjóða upp á góða og fjölbreytta ferðaþjónustu. Það er þó ekki hægt að krefjast þess að allir nýti sér hana. Það er endalaust hægt að finna eitthvað sniðugt og skemmtilegt sem ferðamenn hefðu fullan áhuga á að kaupa. Við höfum hinsvegar engan einokunarrétt á þjónustu og mér finnst skammarlegt að slíkar hugmyndir skuli heyrast.

Share to Facebook