Beiðni til Brandarakastljóss

Í Kastljósinu, virtasta fréttaskýringaþætti íslenskra fjölmiðla, er pláss fyrir framhaldsskólahúmor. Það væri nú alveg ágætt ef fréttaþurrð væri ástæðan fyrir því að brandarastrákar fá að vera með. En er virkilega svo mikil gúrkutíð þessa dagana að fréttamönnum Kastljóssins detti bara ekkert merkilegra í hug? Ef svo er, þá er ég með ábendingu: Huang Nubo. Eða var það Nubo Huang?

Ég veit ekki hvort nafnið á að vera á undan en þið vitið hvern ég á við. Þennan sem segir öllum í útlöndum að hann sé að kaupa Norðurland. Jamm, fréttir fjölmiðla af Nubo snúast nefnilega aðallega um það hvað hann sjálfur segir einhverjum í útlöndum, og svo að bissnesskallarnir sem eru að selja landið segi það sé allt saman lygi, eða þá misskilningur vegna tungumálavandræða. Kranablaðamennskan í hávegum höfð. Engar fréttir berast af því hvað stendur eiginlega í samningsdrögunum. Um það vita fáir; það eru helst þeir sem fylgjast með skrifum Láru Hönnu Einarsdóttur í athugasemdakerfum netmiðlanna sem hafa minnstu hugmynd um efni og áherslur.

Síðasta góða umfjöllunin sem ég sá um Grímsstaðamálið voru einmitt bloggpistlar eftir Láru Hönnu. Þessi pistill kemur inn á það sem þá var að gerast í málinu, m.a. er tengill á samning sem þá hafði verið gerður. Að öðru leyti er fjallað um önnur umsvif Nubos. Pistillinn var birtur í júlí og nokkrum dögum síðar þessi grein sem snýst aðallega um það hvað annað Nubo hefur verið að bardúsa. Sigrún Davíðsdóttir hefur einnig fjallað um umsvif Nubos erlendis en ekkert nýverið. Þessar tvær konur hafa staðið sig með prýði en nú höfum við ekkert bitastætt heyrt í marga mánuði. Og hvað í fjáranum þessi samningur snýst um, það bara vita ekki aðrir en þeir sem hafa lesið hann.

Kæru Kastljóssmenn, eruð þið búnir að lesa samningsdrögin? Ef ekki, eftir hverju eruð þið að bíða? Á fundi í HÍ fyrir um 10 dögum kom fram að Lára Hanna Einarsdóttir og Jón Þórisson hefðu þessi drög undir höndum. Ef bissnesskallarnir sem segja þessa samninga svona ljómandi góða, vilja ekki afhenda ykkur gögnin, þá er ég viss um að Jón og Lára Hanna myndu með glöðu geði redda ykkur. Og ef þið hafið lesið drögin, finnst ykkur virkilega engin ástæða til að upplýsa þjóðina um það hvað stendur í þeim? Eða eruð þið að bíða eftir að Lára Hanna, eða einhver annar bloggari, taki það að sér í sjálfboðavinnu?

Kæru Kastljóssmenn, ólíkt ykkur, eru Lára Hanna og Jón Þórisson ekki fréttamenn á launum hjá ríkinu. Ég er  viss um að þau munu ekki láta Nubo kaupa Norðurland án þess að gera rækilega grein fyrir því fyrst, hvað er eiginlega verið að selja honum, leigja eða gefa. En ef leikmenn neyðast til að taka það að sér, ber það vitni um frekar ömurlegt ástand í íslenskri blaðamennsku. Ég get auðvitað ekki krafist þess af ykkur að þið fjallið um þetta mál ef ykkur finnst ekki ástæða til þess, en mig langar að biðja ykkur um eitt; ef þið ætlið að láta sjálfboðaliða sjá um að upplýsa íslenskan almenning um það hvað er að gerast á Fjöllum, viljiði þá í það minnsta vera svo vænir að biðja unglingadeildina að segja prumpubrandara um Nubo og vísa á bloggið hennar Láru Hönnu í leiðinni?

Share to Facebook

9 thoughts on “Beiðni til Brandarakastljóss

  1. Sæl Eva.
    Hvað slappleika Kastljós varðar, þá gæti ég ekki verið meira sammála þér.
    Gelgjustælar, píkuskrækir, og aulabrandarar eiga heima á öðrum vettvangi en í helsta fréttaskýringarþætti RUV.
    Drottinn minn hvað þessum þætti hefur hrakað og hvað efnistökin eru orðin tilviljunarkennd og oftar en ekki úr takti við aktúella umræðu líðandi stundar.

  2. Sæl Eva .
    Er mjög svo sammála þér,en þeir sem aðallega fjalla um það sem
    talin eru „alvarleg mál“ eru ekki fréttamenn heldur dagskrárgerðamenn.
    Eina manneskjan sem virðist vera alvöru þarna er Brynja enda er hún titluð
    fréttamaður.Það er stundum hálf aumkunarvert að hlusta á umræður þarna
    enda verð ég að segja að oftar en ekki gefumst við hjónin upp á því að horfa.
    Aulahrollurinn við að horfa hvað þetta fólk er oft úti á túni í þeim málefnum
    sem það á að hafa kynnt sér til að geta fjallað um .

  3. Mér finnst Kastljósið oft hafa staðið sig í því að krefja viðmælendur sína almennilegra svara, einkum Helgi Seljan. En mér finnst þennan þátt setja niður við þetta brandarahorn. Það má alveg brosa að hraðfréttunum en það er enginn skortur á vettvangi þar sem húmor á heima. Ég vildi bara frekar sjá tímanum varið í brýnni mál í einmitt þessum þætti.

  4. Ég er ekki sammála því að Brynja sé eina „alvöru manneskjan“ í Kastljósinu. Kastljóssfólk gerir margt vel en þau taka ekki á öllu sem mér finnst þörf á.

  5. Takk kærlega fyrir að veita Kastljósi aðhald.
    Þessar hraðfréttir ættu endilega að fylgja Hringekjunni í tætarann – með hraði.
    Varðandi Grímsstaði og Nubo, þá væri sérlega ánægjulegt að sjá úttekt Kastljós á því máli.

  6. Helgi Seljan virðist standa uppúr því allt hitt er ónýtt. Ekki er á hann að treysta því hann er mistækur og virðist ekki vera sterkur dagskrárgerðarmaður þó hann stundum spyrji góðra spurninga. En stundum er ekki nóg. Kastljós er bara ekki hægt. Eina vitið, fyrir utan bloggara s.s. Láru Hönnu og fáeina aðra, er DV.

  7. Flest viljum við breytingar, en ekki bara að fá að tjá okkur. Ég endurbirti því hugleiðingu mína af öðrum þræði um viðtöl í ljósvakamiðlum ríkisins:
    „Smá hugleiðing vegna viðtala í ríkissfjölmiðlum…

    Meðvirkni íslenskra sjónvarpsspyrla veldur ótrúlega miklum skaða, eins og meðvirkni gerir sjálfsagt yfirleitt. Meðvirkni, sem birtist m.a. í að spyrja viðmælendur sína lítið um það sem þeir tjá sig um, hvort sem það er vegna vankunnáttu á viðfangsefninu – ekkert lesið sig til – hræðslu við að sýna vanþekkinguna eða skorti á hæfni til að stýra sjónvarpþætti þegar viðkomandi, hugsanlega á sömu skoðun og viðmælandinn, er ófær um að spyrja gagnrýnna spurninga um það sem viðmælandinn tjáir sig um.

    Slíkt gagnrýnisleysi ef segja má, eða skortur á spurningum virðist styrkja gagnrýnislausar sálir í trú sinni, telja það staðfestingu á þeirra skoðunum ef spyrill gagnrýnir þær ekki. Hættan samfara því að öfgasinnar fái að tjá sig í ljósvakamiðlum, við þessar gagnrýnislausu aðstæður, er þess vegna mikil.

    Ég held þess vegna að við þurfum enn á ný að fara að krefjast bættari vinnubragða, lágmarksptótókolla sem viðhöfð eru í ljósvakamiðlum ríkisins.

    Nú kann þetta að vera erfitt í útfærslu sem fyrr, gagnrýni kann að hrökkva af Páli Magnússyni og fleirum eins og vatn af gæs, en ef einhver tæki sig til og gerði rannsókn á Kastljósi t.d., „Brandarakastljósi“ eins og Eva Hauksdóttir kallar það, greindi hvort og hvernig spyrlar spyrðu viðmælendur sína, hvort spyrlar byggðu á þekkingu eða spyrðu fyrst og fremst opinna eða leiðandi spurninga (þ.e. „hvað segir þú um það“? eða “ þú sagðir… (svo þögn)?“), þ.e. hvort spyrlar kæmu undirbúnir eða ekki. Og bæri niðstöðurnar saman við viðurkenndar aðferðir í fréttavinnslu, nú eða bara hvað gert er annars staðar, þá verður erfitt fyrir stjórnvöld að krefjast ekki breyttra vinnubragða eða nýrra yfirmanna sem líklegir eru til að fylgja samþykktum um bætt vinnubrögð.

    Ég tel að þá muni þeim fækka sem tilbúnir eru til að mæta í sjónvarpssal og buna út úr sér órökstuddum fullyrðingum – ósannleik, og um leið berst minna af ósannleik til þeirra sem hættt er við að að taka gagnrýnislaust upp viðhorf og sýn annnarra.

    Það er til mikils að vinna í þessum efnum.“

Lokað er á athugasemdir.