Áskorun til talsmanna múslíma á Íslandi

Smáríkið Brunei hefur nú tekið upp dauðarefsingu við skírlífisbrotum. Nánar tiltekið á að grýta fólk til bana fyrir framhjáhald og endaþarmsmök, hvort sem það fellst á siðaboðskap Islam eður ei. Dauðarefsing liggur einnig við guðlasti og því að ganga af trúnni ásamt ýmsum alvöru afbrotum.

Ýmis mannréttindasamtök og alþjóðastofnanir hafa fordæmt framtak Brunei. Lítið fer hinsvegar fyrir því að islamskir trúarleiðtogar lýsi hneykslun sinni á ofsóknum gegn lauslátum konum og hommum eða ómannúðlegum lagaákvæðum. Það kemur svosem ekki á óvart, múslímaklerkar hafa heldur ekki barist gegn svipuðum lögum í stærri ríkjum. Þegar allt kemur til alls segja trúarrit Islam frá því að spámaðurinn sjálfur hafi látið grýta konu til bana fyrir hórirí fram hjá manni sínum. Sú hafði reyndar þrábeðið um viðeigandi refsingu sjálf, svo Múhammeð var í raun afskaplega miskunnsamur, að mati aðdáenda hans. Ríki sem fylgja fordæmi spámannins hafa hinsvegar sleppt þeim hluta að ganga úr skugga um hvort glæpamenn og -kvendi vilji áreiðanlega láta grýta sig.

Samkvæmt trúarritum múslíma opinberaði Múhammed vers þar sem mælt var fyrir um grýtingar áður en hann lést en þar sem sauðkind eða geit át uppkastið rataði það ekki í Kóraninn. Sú frásögn er talin óáreiðanleg.

 

Fleiri túlkanir mögulegar

Þótt trúarleiðtogar og talsmenn múslíma geri sjaldan athugasemdir við túlkun stjórnvalda á lögum Kóransins er langt frá því að þeir séu allir sammála siðferðishugmyndum höfundar. Kóraninn ku vera kominn frá Allah sjálfum og er helgi hans eftir því en önnur trúarrit Islam eru flokkuð eftir áreiðanleika. Þannig hafa menn hafnað sumu af því sem er of kjánalegt eða of hryllilegt til þess að samræmast almennri skynsemi og réttlætiskennd nútímans. Þetta er vísir að sömu gæfulegu þróun og orðið hefur í Gyðingdómi og Kristinni trú.

Sumir ganga lengra og hafna skýrum fyrirmælum Kóransins eða finna einhverja leið fram hjá þeim, jafnvel þótt þeir telji sig vera bókstafstrúarmenn. Sverrir Agnarsson álítur t.d. að fyrirmæli Kóransins um að handarhöggva þjófa sé myndmál og merki ekki annað en að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir frekari brot, rétt eins og kristnir menn slíti ekki úr sér augun í bókstaflegum skilningi þótt þeir líti konu girndarauga. Sömuleiðis telur Salman Tamimi það rangt að Kóraninn fyrirskipi múslímum að drepa trúvillinga (sjá hér, mín 1:17). Hann leggur því einhvern allt annan skilning í t.d. vers 2:191 og 9:5 í Kóraninum en þann sem eðlilegast virðist samkvæmt orðanna hljóðan og milljónir Islamista taka bókstaflega. Táknmálstúlkunum og öðrum framsæknum skýringum ber að fagna því þótt trúarbrögð séu iðulega farvegur ofbeldis og heimsku er hættan sem af þeim stafar í lágmarki þar sem túlkun í þessum anda nær yfirhöndinni.

Í þessu myndbandi er sagt frá ótrúverðugri en engu að síður dásamlegri endurtúlkun á kynlífsambáttum sem munu bíða hinna trúföstu í Paradís.

 

Þeir Sverrir og Salman hafa verið mest áberandi meðal talsmanna Islam á Íslandi. Báðir aðhyllast þeir friðsamlega trúartúlkun og ég efast ekki um að þeim misbjóði þau skelfilegu lög sem Brunei hefur nú tekið upp. Vonandi á það við um fleiri áhrifamenn meðal múslíma á Íslandi. Ég reikna ekki með að það hefði áhrif á löggjöf eða pólitíska stefnu stjórnvalda í fjarlægum heimsálfum þótt íslenskir múslímar lýstu yfir vanþóknun sinni. Samt sem áður skora ég á leiðtoga og talsmenn múslíma á Íslandi og einkum þó Sverri og Salmann að fordæma þessi lög á opinberum vettvangi.

Af hverju skiptir það máli?

Þótt afstaða nokkurra Íslendinga breyti líkast til engu um örlög hórsekra kvenna, homma og trúvillinga í harðstjórnarríkjum er samt mikilvægt að áhrifamenn innan samfélaga múslíma á Vesturlöndum láti í sér heyra. Það skiptir máli að hófsamir og umbótasinnaðir múslímar finni stuðning meðal trúbræðra sinna og að áhrifagjarnir unglingar í leit að föðurímynd eigi kost á trúartúlkun sem samræmist siðferðishugmyndum lýðræðisríkja. En það skiptir líka máli að stjórnvöld og almenningur sem ekki játar Islam fái staðfestingu á því að áhrifamenn innan múslímasamfélaga hafni mannréttindabrotum og ofbeldi. Mörg Evrópuríki hafa nefnilega komið sér hjá því að taka á vandamálum sem rekja má til bókstafstúlkunar á Islam og iðulega brugðist fórnarlömbum heimilisofbeldis og þeim sem hætta öryggi sínu með því að ganga af trúnni. Í stað þess að krefjast siðbótar innan Islam hafa þau haldið uppi mannfjandsamlegri innflytjendastefnu sem bitnar verst á múslímum og gefur trúarhatri byr undir báða vængi. Síðan reyna þau að bæta fyrir ofsóknir gagnvart múslímum með því að túlka gagnrýni á Islam sem hatursorðræðu eða framfylgja guðlastlögum í trássi við ráðgjöf alþjóðastofna. Sumir stjórnmálamenn ganga svo langt að afneita því opinberlega að Islam gefi nokkurt tilefni til ofbeldis.

 

Samkvæmt hinum göfuga Kóran er hæfileg refsing fyrir  skírlífisbrot aðeins 100 svipuhöggVonandi tekst múslímum einhverntíma að túlka það ákvæði burt.

Trúarhatur verður hvorki upprætt með því að neita múslímum um aðgang að löndum þar sem þeir eiga raunhæfan möguleika á því að hafna Islam eða kynnast mildri og nútímalegri trúartúlkun, né með því að berja niður gagnrýni á trúarbrögð og ofbeldið sem þau ala af sér. Í lýðræðisríki er rétta aðferðin til að uppræta fordóma sú að stefna saman fólki með ólík sjónarhorn, ígrunda gögn og gagnrýna rök, leiðrétta misskilning og rangfærslur og gefa fólki kost á að skipta um skoðun í ljósi nýrra upplýsinga.

Lýðræðisleg umræða er að sama skapi nauðsynleg til þess að vinna gegn trúarofstæki. Það er allt í lagi þótt snörp orðaskipti verði og þótt einhverjir móðgist. Það er hinsvegar ekki í lagi að gera út um ágreining með ofbeldi og drápum eða með því að útskúfa minnihlutahópum.  Umræða um Islam á Vesturlöndum ætti að stefna að tvennu – að vinna gegn mismunun og hatri í garð múslíma, og að vinna að umbótum á Islam. Opinber yfirlýsing talsmanna múslíma um ómannúðlega refsilöggjöf á grundvelli Islam myndi þjóna þessum  markmiðum báðum í senn.

Share to Facebook