Annað lík svívirt

Ahmad M. Hanan

Ekki hefur myndskeiðið af limlestingunum á líki Barin Kobani haft þau áhrif að yfirvaldinu finnist ástæða til að spyrja Tyrki hvað þeir hafi gert við líkamsleifar sonar míns. Í dag rakst ég á annað dæmi frá febrúar um meðferð FSA í Afrín á líkum andstæðinga hersveita Tyrkja. Hér er það lík karlmanns úr röðum YPG, Ahmads M. Hanan, sem er svívirt. Hann var Yazidi maður. Sameinuðu þjóðirnar flokka ofsóknir Islamska ríkisins gagnvart Yazidi fólkinu sem þjóðarmorð.

Myndskeiðið var birt 8. febrúar. ISIS og FSA-liðar héldu þá svæðinu í umboði Tyrkja. Þegar Tyrkir komu svo og hertóku borgina þann 18. mars gengu þessir undirsátar þeirra um með götur Afrín með sveðjur og hjuggu andspyrnumenn niður í viðurvist almennra vegfarenda, þ.á.m. barna. Ég sá myndskeið á netinu en það hefur nú verið fjarlægt.

Áður en það var fjarlægt gekk Darri sonur minn á fund háttsetts, íslensks embættismanns, sýndi myndskeiðið og spurði hvort stæði ekki til að fordæma þessa innrás. Hann fékk það svar að það myndi ekki hafa neitt að segja þótt Ísland fordæmdi mannréttindabrot og stríðsglæpi. Og nei, það væri heldur ekki í bígerð að gera það af prinsipp-ástæðum því væri nú svo mikil illska í heiminum að ef menn ætluðu að byrja á því að fordæma grimmdarverk, hvar ætti þá að stoppa?

Íslenskir ráðamenn töldu sér ekki koma það við þótt verið væri að höggva fólk í herðar niður og flest önnur Evrópuríki sögðu heldur ekki múkk. Nú gegna jihadistar löggæslustörfum í Afrín. Húsbændur þeirra eru helstu ráðgjafar ísl stjórnvalda í máli Hauks sonar míns, sem að öllum líkindum liggur enn rotnandi á víðavangi í 1-2ja km fjarlægð frá þéttbýli.

 

Share to Facebook