Allir góðir

Við Darri fórum á kosningaskrifstofurúnt í gær. Fórum reyndar bara á þrjá staði, til VG, Samfó og Sjallanna. Ætluðum líka að kíkja á þá framsæknu en það var nú bara lokað hjá þeim.

Niðurstaðan er þessi:

Vg ætla að standa vörð um velferðarkerfið og stórefla nýsköpun í atvinnulífinu. Já og klappa gamla fólkinu. Og stórauka nýsköpun í atvinnulífinu. Einnig koma á stjórnlagaþingi og auka gegnsæi og stórauka nýsköpun í atvinnulífinu. Og hundsa ESB, ganga úr Nató og vera umhverfisvæn.

Sjálfstæðismenn ætla að standa vörð um velferðarkerfið og stórefla nýsköpun í atvinnulífinu. Já og klappa gamla fólkinu. Þeir ætla líka að gjörbreyta störfum Alþingis og auka gegnsæi. Og reisa álver af umhverfisástæðum. Guðlaugur Þór prýðir nú baksíðu kosningabæklingsins og þykir það mikil framför frá því að hafa hann á forsíðu. Þetta er reyndar ekki eina málið sem ég er sammála Sjálfstæðisflokknum um en án nokkurs vafa það mikilvægasta.

Samfó ætlar að standa vörð um velferðarkerfið og stórefla nýsköpun í atvinnulífinu. Já og klappa gamla fólkinu. Aukinheldur koma á stjórnlagaþingi og auka gegnsæi og hefja aðildarviðræður við ESB. Það Samfylkingarfólk sem ég talaði við vissi ekki hver stefna flokksins væri í umhverfismálum og lái því hver sem vill.

Ég kíki á restina í dag eða á morgun. Bara svona til gamans. Ég held svosem að hvaða flokkur sem er gæti stjórnað landinu af viti ef hann fengi til þess óskorað vald og þyrfti ekki að verja tímanum í froðusnakk, þras og misdónalegar hreytingar á orðunum ‘háttvirtur þingmaður’ og ‘hæstvirtur ráðherra’. (Ég mæli svona í framhjáhlaupi með að Alþingi taki upp hræsniskvóta og menn fái aðeins að nota þessi orð í litlu mæli en taki upp alþýðlegra orðfar á borð við ‘hlandstaðni skítaleppur’ og ‘rassgarnartottandi vangebblingur’ í staðinn.)

Jájá, ég held í alvöru að ég gæti treyst hvaða flokki sem er til að stjórna landinu þannig að meirihlutinn yrði þokkalega sáttur ef aðeins sá flokkur fengi alræðisvald í 4 ár. En því miður, ég er á móti alræðisvaldi, jafnvel þótt niðurstaðan yrði jeppi á hvert heimili, útrásarvíkingar látnir vinna við að skræla m&m, Ísland úr Nató og ríkið stæði alfarið kostnað af heilbrigðisþjónustu. Og þótt meirihlutinn yrði ánægður með að þurfa aldrei að hugsa neitt, þá bara hefur meirihlutinn ekki alltaf rétt fyrir sér.

Share to Facebook

One thought on “Allir góðir

  1. —————————————————————

    Þetta er snilldargreining hjá þér kæra Eva. Yfirleitt er ég ekkert endilega sammála þér en þetta finnst mér smart 🙂

    Ég s.s. trúi ekki endilega á anarkí og ég er meira að segja flokksbundinn en ég er alveg sammála því að hver 4 ára skammturinn af endalaust því sama er beinlínis óspennandi.. Breytum hugsun og vonandi flokkunum.. eða leggjum þá niður 😉

    Posted by: Matti | 23.04.2009 | 19:11:02

Lokað er á athugasemdir.