“Allir eru trúaðir -innst inni”

bænMikið leiðist mér fólk sem fullyrðir að skoðanir mínar “innst inni” séu aðrar en þær sem ég held fram. Rétt eins og ég sé líkleg til að skammast mín fyrir mína hjartans innstu sannfæringu.

-Já. Lífsafstaða mín minnir um margt á trú. Ég álít farsælt að sjá ný tækifæri í erfiðleikum. Ég held að þegar maður trúir því að allt fari á besta veg sé maður líklegri til þess að ramba á heppilegar leiðir og ég held ekki að það sé bara tilviljun. Ég reikna hinsvegar ekki með að Guð sé að verki.

-Já. Ég hef reynslu sem sumir kalla “trúarlega”. Eins og mikilfenglegt, óskilgreinanlegt afl gagntaki mig frammi fyrir náttúrunni eða listinni. Ég held samt ekki að ég sé komin í samband við almættið. Trúaðir hafa ekki einkarétt á tilfinningahrifum.

-Já. Ég nota trúarleg orð til að koma ákveðnum kenndum til skila (einkum í skáldskap) en það er rangt að allir sem nota orðin sköpunarverk og almætti séu trúaðir. Ég á líka til að persónugera nóttina en ég held samt ekki að nóttin hafi augu eins og fluga.

Trúlaust fólk upplifir sömu tilfinningar og trúaðir. Jafnvel trúarþörf. Við finnum til vanmáttar og lotningar, við verðum agndofa yfir töfrum náttúru, menningar og holdlegra nautna. Rétt eins og trúaðir notum við málið til að tjá hughrif en ekki aðeins til að fjalla um staðreyndir.

Algeng “rök” fyrir því að allir séu í raun trúaðir, eru þau að í örvæntingu ákalli allir Guð. Hvílík rökvilla. Örvænting er ástand sem á ekkert skylt við skynsemi. Sá sem ákallar Guð í örvætningu er ekki að lýsa yfir trúarsannfæringu. Í örvæntingu reynir fólk að blása lífi í lík, það merkir ekki að því finnist það rökrétt. Ákallið merkir einfaldlega; ég er ráðþrota, það eina sem ég get er að óska eftir kraftaverki.

Þrái ég fullkomna ást? Mann sem les svipbrigði mín, bregst alltaf rétt við, fullnægir öllum þörfum mínum og elskar mig skilyrðislaust, alltaf? Já. Ég hef ort til hans ástarljóð. Ég trúi samt ekki að sá maður sé til.

Stundum vildi ég að Guð kæmi og leiðrétti ranglæti, upprætti óhamingju og gerði allt fullkomið. En ég trúi því ekki að það muni gerast.

 

Share to Facebook

One thought on ““Allir eru trúaðir -innst inni”

Lokað er á athugasemdir.