Af útlendingaandúð óheppna íþróttamannsins

_____________________________________________________________________

Viðtalið við fótboltamanninn sem opinberaði fordóma sína í garð Albana  hefur vakið verðskuldaða athygli. Skítkastið á umræðukerfi DV er þó óvenju hófstillt og það gleður mig að sjá hversu margir láta sér nægja að deila tenglinum á facebook eða birta beina tilvitnun án þess að hafa um það stóryrði. Enda svosem ekki margt um þetta að segja, ummælin dæma sig sjálf og það þjónar litlum tilgangi að ausa skít yfir mann sem er enginn áhrifamaður og var sennilega að bregðast við vægu kúltúrsjokki.

Ummælin, jafn ósmekkleg og þau eru, bera fyrst og fremst vitni um grunnhyggni þess sem áttar sig ekki á sínum eigin fordómum; fordómum sem vissulega eiga sér rót í veruleikanum svo fullrar sanngirni sé gætt. Fátækt og há glæpatíðni fylgjast alltaf að, glæpatíðni er há í Albaníu og ferðamenn sérstaklega varaðir við því. Að fullyrða að Albaníumenn séu þar með „mestmegnis glæpamenn“ bendir nú ekki beinlínis til þess að drengurinn hafi hugsað þetta til enda og ég get alveg virt honum það til vorkunnar.

Pilturinn baðst strax afsökunar og er það vel. Í besta falli getur þessi leiðinlega uppákoma orðið til þess að hann og hans félagar ræði vandamál þeirra samfélaga sem þeir heimsækja á ögn vitrænni nótum framvegis. Við sem höfum áhyggjur af kynþáttahyggju og útlendingafordómum vitum að hættulegu rasistarnir eru ekki þeir sem  eru bara ekkert búnir að pæla í þessu og missa hugsanir sínar út úr sér svona óvart. Þeir hættulegu eru nefnilega búnir að hugsa þetta til enda og gala þó öllu fegurri söng en óheppni íþróttastrákurinn. Það eru þeir virtu menn og mælsku sem hafa vit á að vefja viðbjóðslega afstöðu sína í neytendavænar umbúðir og smygla henni inn í stjórnmálin undir yfirskini menningarverndar, föðurlandsástar og ótta við erlend glæpasamtök. Sumir þeirra halda því beinlínis fram að þeir vilji bjóða innflytjendur velkomna, enda þótt þeir í hinu orðinu geri sér far um að sá tortryggni og andúð.

_____________________________________________________________________

Share to Facebook

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.