Af hugvitssamlegum reikningsaðferðum Fangelsismálastofnunar

Ég er ekki búin að fá svar við bréfi mínu til Fangelsismálastofnunar sem ég birti síðasta  mánudagskvöld. Ég held þó að ég sé, með hjálp athugulla manna, búin að fá botn í það hversvegna Baldur Guðlaugsson er kominn í endurhæfingu á lögmannsstofu eftir aðeins hálft ár í fangelsi, þrátt fyrir að hafa fengið tveggja ára óskilorðsbundinn fangelsisdóm. Vandinn liggur í hugtakanotkun Fangelsismálastofnunar en hugtakið „afplánunartími“ virðist hafa a.m.k. tvær ólíkar merkingar.

Afplánunartími er allt annað en dómstíminn

Samkvæmt almennum reglum þarf maður að hafa setið í fangelsi þriðja hluta afplánunartímans til að fá inni á áfangaheimilinu Vernd. Maður nokkur sem hefur legið yfir reglunum benti mér á það í gærkvöld að afplánunartími er alls ekki það sama og sá tími sem dómurinn hljóðar upp á. Þar liggur hundurinn grafinn. Svo virðist sem „afplánunartíminn“ sé sá tími sem eftir er, þegar búið er að draga frá dómnum þann hluta sem fanginn afplánar á Vernd og undir rafrænu eftirliti.

Í Baldurs tilviki er „afplánunartíminn“ átján mánuðir. (24 mínus 6, þar af 4 á Vernd og 2 með eftirlitsbúnað.) Samt sem áður er talað um vist á Vernd og undir rafrænu eftirliti sem „afplánun utan fangelsis„.  Fanginn er þannig í afplánun á Vernd og afplánun undir rafrænu eftirliti, eftir að afplánunartíma lýkur. Finnst einhverjum þetta skrýtið?

Til þess að fá að fara á Vernd, þurfti Baldur að sitja þriðjung þessa átján mánaða afplánunartíma (en ekki þriðjung af tuttugu og fjórum mánuðum) í opna fangelsinu að Kvíabryggju. Það eru sex mánuðir. Hann fær að afplána fjóra mánuði á Vernd, sem er áfangaheimili, ætlað þeim sem þurfa á hægri aðlögun að halda. Aðrir starfsmenn lögmannsstofunnar LEX virka þannig sem nokkurskonar stuðningshópur á meðan hann er að fóta sig í samfélagi ærlegra borgara. Þess má vænta að þeir félagar séu  Baldri heiðvirð fyrirmynd og leiðbeini honum um góða viðskiptahætti og þær siðferðisreglur sem hann þarf að ná tökum á, til þess að sýna framvegis ráðvendni í hvívetna, a.m.k. í starfi sínu sem lögfræðingur. Afplánun lýkur svo með rafrænu eftirliti, sem fyrir þann sem hefur fengið tveggja ára dóm getur staðið í allt að tvo mánuði. Skilyrði þess má sjá á  vef Fangelsismálastofnunar.

Afplánunartími er ekki sá tími sem fangi er í afplánun

Semsagt, afplánunartími Baldurs er átján mánuðir. Hann situr í fangelsi í sex mánuði, afplánar fjóra mánuði á Vernd og tvo undir rafrænu eftirliti. Og ka-tsja-búmm- þá er sá tími sem hann er í afplánun allt í einu orðinn tólf mánuðir en ekki átján.

Samkvæmt reglum Fangelsismálastofnunar geta fangar sótt um reynslulausn eftir að hafa setið af sér tvo þriðju hluta dóms en í þeim tilvikum sem afturbatinn lukkast sérlega vel (eins og hjá Baldri) geta menn jafnvel fengið reynslulausn eftir að hafa afplánað helming tímans. Ef afplánunartíminn er aðeins tólf mánuðir hlýtur það að teljast nýstárleg aðferð að reikna tímann sem Baldur þurfti að vera á Kvíabryggju áður en hann komst á Vernd út frá átján mánuðum. Ef reiknað væri með að Baldur afplánaði tólf mánuði fengi hann aðeins þrjá mánuði á Vernd, einn undir rafrænu eftirliti og sæti átta mánuði í almennu fangelsi. Afplánunartími merkir þannig eitthvað allt annað en sá tími sem fangi afplánar dóm.

Ennfremur er athyglisvert að samkvæmt skilningi Fangelsismálastofnunar eru þessir fjórir mánuðir Baldurs á Vernd „síðasti hluti“ afplánunartímans en svo lýkur hann afplánun undir rafrænu eftirliti, eftir að hann er búinn að sitja síðasta tímann af sér á Vernd. Fyrst kemur þannig almenn refsivist, svo síðasti hluti afplánunar og eftir það afplánunarlok (sem er þá líklega allrasíðasti tíminn?) og að síðustu reynslulausn. Í Baldurs tilviki er „síðasti hluti afplánunar“ sjöundi til tíundi mánuður af tólf mánaða afplánun. Er ég ein um að finnast eitthvað undarlegt við þessa hugtakanotkun?

Hversu langur er „síðasti hluti“ afplánunar?

Í réttarríki er talið mikilvægt að menn séu jafnir fyrir lögum og að meðferð á föngum litist ekki af félagslegum aðstæðum þeirra, tengslum eða öðrum þáttum sem eru hegðun þeirra óviðkomandi. Þessvegna má ganga út frá því að þessi hugvitssamlega reikningsaðferð sé almennt viðhöfð í fangelsiskerfinu. Þetta stórmerkilega uppátæki Fangelsismálastofnunar, að reikna afplánunartíma þegar búið er að draga frá þann tíma sem afplánaður er á áfangaheimili og undir rafrænu eftirliti, býður upp á töluverða mildi. Maður sem fær árs dóm fengi samkvæmt reglunum þrjá mánuði á Vernd og einn undir rafrænu eftirliti. Þá eru eftir átta mánuðir og af þeim er þriðjungurinn sem hann þarf til að komast inn á Vernd 80 dagar. Samkvæmt þeirrri reikingsreglu sem notuð er í tilviki Baldurs, situr sá sem fær eins árs dóm þannig í almennu fangelsi skemur en þann tíma sem hann er á áfangaheimili. Ætli sú sé raunin?

Hversu langur getur „síðasti hluti“ afplánunar annars orðið? Samkvæmt reglum Verndar en lágmarkstíminn á Vernd þrjár vikur. Ef maður fær t.d. þrjátíu daga dóm, situr hann þá í almennu fangelsi í tíu daga og fer svo á Vernd til hægrar aðlögunar í þrjár vikur? Mér finnst það eitthvað svo ótrúlegt en er nokkuð í lögum sem mælir á móti því? Það væri nú gott ef einhver snöfurmannlegur blaðamaður tæki að sér að leita svara við því.

Hversu oft má endurreikna afplánunartímann?

Ég á ekki von á að Fangelsismálastofnun hafi nýtt möguleikana á endurúreikningi að meira marki en í dæmi Baldurs en með þeirri aðferð að reikna tímann á Vernd út frá þriðjungi „afplánunartímans“ enda þótt raunverulegur tími sem fangi er í afplánun sé kominn langt frá upphaflegri forsendu (sem er dómurinn sjálfur) væri hægt að teygja sig ansi langt. Tökum Baldur sem dæmi:

Baldur er búinn að fá fyrsta útreikning og afplánunartíminn, sem byrjaði í átján mánuðum er  orðinn tólf mánuðir. Höldum áfram að reikna með aðferð Fangelsismálastofnunar. Baldur ætti samkvæmt nýja afplánunartímanum að sitja í almennu fangelsi þriðjung þess tíma eða sem svarar fjórum mánuðum. Svo koma fjórir á Vernd og tveir undir rafrænu eftirliti, því það er ennþá reiknað út frá tuttugu og fjórum mánuðum. Þar með er hann kominn niður í tíu mánuði, sem við gætum svo endurreiknað og endurreiknað aftur.

Mikið er rætt um þörfina á fleiri fangelsisbyggingum á Íslandi. Það er dýrt að byggja fangelsi og það er dýrt að reka þau. En ég er búin að finna lausnina. Það þarf ekkert að byggja fleiri fangelsi, það þarf bara að nýta reikingsreglur Fangelsismálastofnunar betur.

Share to Facebook

2 thoughts on “Af hugvitssamlegum reikningsaðferðum Fangelsismálastofnunar

  1. Takk Eva, fyrir þennan pistil og marga fleiri.

    Ég held að við þurfum (neyðumst til) að gera greinarmun á hugtökum, t.d.: Lögum, réttlæti og sanngirni.

    Mál Baldurs er frekar einfalt. Hann fékk 2 ár. Almenna reglan (kannski afplánunartími) mun vera sú að menn sem fá 2 ár, þurfi að afplána helminginn. Önnur almenn regla er sú að þeir sem haga sér vel í fangelsi fái aðlögunartíma á Vernd. Þriðja reglan mun alveg nýtilkomin – sú að allra síðustu mánuðina fái menn að afplána með GPS-tæki á ökklanum.

    Almenn séð finnast mér þetta góðar reglur. Ég vildi þó gjarnan óska þess að hvítflibbakrimmar þyrftu undantekningarlaust að afplána allan dóminn. Það er nefnilega svo augljóst að hvítflibbarnir kunna „góða hegðun“ sem er skilyrði reynslulausnar.

    En hvar á að setja mörkin? Veit það svo sem ekki, en er til í að taka þátt í umræðum um það mál.

    Hvað um það. Ég þakka góða pistla, en bið þig að gera greinarmun á veruleika og óskhyggju.

  2. Takk fyrir svarið Jón

    Ég geri fullan greinarmun á veruleika og óskhyggju. Það er ekki óraunhæf ósk að hugtakanotkun í lögum og reglugerðum sé almenningi skiljanleg, a.m.k. að samræmis sé gætt; þvert á móti er það mjög sanngjörn krafa.

Lokað er á athugasemdir.