Af góðum hugmyndum

Það sem hefur komið mér mest á óvart á þessum tíma sem ég hef staðið í verslunarrekstri, er hvað margir virðast álíta það einhverskonar náðargáfu að fá hugmyndir. Iðulega kemur fólk til mín, jafnvel fólk sem ég þekki ekki neitt og þó einkum og sér í lagi fólk sem aldrei hefur komið nálægt rekstri, og gefur mér hugmyndir um það hvernig best sé að gera Nornabúðina að gullnámu. Síðast í gær hringdi ókunnug kona í mig og sagði mér allt um það hvað ég gæti grætt mikið á því að breyta búðinni í kærleiksblingbling. Ég benti henni á að í Reykjavík væri einmitt ein slík búð til sölu á mjög góðu verði (líklega af því að eigandinn er orðinn óhóflega ríkur og vill losna við veraldleg auðævi sín til að sinna andlegum málefnum) og bað hana endilega að láta mig vita ef hún myndi kaupa hana, því ég hefði þá áhuga á að kaupa ákveðnar vörur af henni. Þá kom nú reyndar í ljós að hún áleit þessa hugmynd vera góða fyrir mig en ekki sjálfa sig.

Það er auðvitað ekkert merkilegt við það að fá spennandi hugmyndir. Maðurinn er ein stór hugmyndamaskína. Allir fá hugmyndir, yfirleitt fremur ófrumlegar þó og flestar þeirra mjög slæmar. Það að enginn hafi framkvæmt hugmyndina merkir ekki endilega að enginn hafi fengið hana áður, það getur alveg eins merkt að hún sé of slæm til að nokkur heilvita maður hafi ákveðið að leggja tíma og peninga í að koma henni á koppinn. Sjálf fæ ég vondar hugmyndir á hverjum einasta degi og leti minni sé lof fyrir að ég æði ekki beint í að framkvæma þær allar. Það er þó engu líkara en að margir haldi að ef hugmyndin vekur þeim ástríðu, þá hljóti hún þar með að vera góð.

Munurinn á góðri hugmynd og slæmri er sáraeinfaldur. Góð hugmynd er hugmynd sem maður framkvæmir og sér ásættanlegan árangur af. Slæm hugmynd er hugmynd sem maður vill að aðrir framkvæmi eða hugmynd sem kemur manni í vandræði ef maður framkvæmir hana sjálfur. Og góðar hugmyndir eru ekkert endilega frumlegar eða spennandi. Ég veit t.d. að það er t.d. góð hugmynd að sinna bókhaldinu sínu eins og ungbarni en glætan spætan að blóðið í mér renni hraðar við tilhugsunina.

Share to Facebook