Að túlka burt vandamál

Síðustu daga hef ég í félagi við Einar Steingrímsson, beint til mannréttindasinnaðra presta og annarra kristinna manna, spurningum um hvort þeir styðji þá hugmynd að Þjóðkirkjan viðurkenni formlega að Biblían og fleiri rit sem mynda kenningargrundvöll kirkjunnar, séu úrelt og byggi starf sitt framvegis á grundvelli nútímahugmynda um mannréttindi og siðferði.

Höfuðsnillingurinn séra Baldur Kristjánsson hefur nú svarað þessum spurningum. Af svari hans má ráða að hann sé í raun alveg sammála því að Biblían og fræði Lúthers séu ónothæf sem réttlætisviðmið í nútímasamfélagi. Hann bara getur ekki lagt það til með formlegum hætti að helgi þessara rita verði afmumin, af því að þá félli hann í ónáð hjá kirkjuyfivöldum. Yfirvaldinu sem leiðir sauðina.

Mótsagnakennd er sú trú sumra kristinna manna að „heilagt orð Guðs“ sé í raun merkingarlaust. Að mönnum sé frjálst að „túlka burt“ það sem ekki hentar þeim. Hér vakna allavega tvær spurningar:

Í fysta lagi: Ef kirkjunni finnst stór hluti Biblíunnar, Ágsborgarjátningarinnar og fræða Lúthers svo ógeðfelldur að ástæða sé til að „túlka burt“ þau ákvæði sem tískan sundur slær, því þá ekki að viðurkenna formlega að þau séu úrelt og fjarlægja þau úr því ritasafni sem kirkjan viðurkennir sem heilög?

Í öðru lagi: Ef Þjóðkirkjunni er frjálst að túlka bara burt það sem hentar henni ekki, án þess að aflétta heilagleik ritanna formlega, hvað segja trúmenn þá um að gefa ríkisvaldinu leyfi til að fara eins með stjórnarskrána og mannréttindasáttmála? Nú er t.d. ljóst Útlendingastofnun og Innanríkisráðuneytið gera einmitt það, þessar stofnanir hafa þannig „túlkað burt“ ýmis ákvæði flóttamannasamnings SÞ og jafnvel ákvæði íslenskra hegningarlaga. Finnst séra Baldri Kristjánssyni það í lagi?

Kenningasmiðir kristninnar voru börn síns tíma. Um það getum við Baldur verið sammála. Við erum líka sammála um að boðun Snorra í Betel er gjörsamlega úrelt og auk þess mannfjandsamleg. Hún er engu að síður í góðu samræmi við hið mannfjandsamlega ritasafn sem Biblía kallast.  Ég býst ekki við að séra Baldur og félagar hafi neinar áhyggjur af því að þeir þurfi að verja túlkunargleði sína fyrir almættinu, því þeir eru náttúrulega ekki svo vitlausir að trúa því í alvöru að þeir verði kallaðir fyrir hugsanalöggu á vegum Drottins hersveitanna á hinum hinsta degi. Það stendur þó raunverulega upp á þá sem boða mannhatur gvuðsorðsins, á sama hátt og Snorri, að þurfa að verja þá afstöðu sína opinberlega og hugsanlega fyrir dómstólum.

Þjóðkirkjan verður að fara að átta sig á því að hún nýtur engar virðingar sem fulltrúaráð guðdómsins. Flestir líta á hana sem nákvæmlega það sem hún er, ríkisstyrkt hagsmunafélag fólks, sem flest er búið að átta sig á því að það hefur ekkert umboð til að segja öðrum hvernig þeir eigi að hugsa og hegða sér, en langar samt að syngja sálma og halda messur og trúarathafnir öðrum að meinalausu. Ef kirkjan viðurkennir þetta ekki opinberlega, og ef hún fellur ekki formlega frá þeirri staðhæfingu að rit sem boða fordæmingu minnihlutahópa séu „heilög“ þá hlýtur að koma að því að hún neyðist til að verja þá afstöðu sína fyrir dómstólum. Líklega væri skynsamlegt af henni, áður en til þess kemur, að gefa út formlega yfirlýsingu um að heilagleika fornra rita hafi verið aflétt.

Share to Facebook

9 thoughts on “Að túlka burt vandamál

  1. Sé ekki að trúarbrögð yfirleitt falli að lögum um mannréttindi og jafnrétti kynjanna. Ef skoðuð er staða kvenna og minnihlutahópa innan þeirra þá gengur það ekki upp. Síðan má deila um hvort fólk hafi ekki rétt á að hafa þetta eins og það vill innan síns trúfélags.

  2. Jújú, ef fólk vill tilheyra trúfélagi sem hafnar ákveðinni kynhegðun eða viðurkennir ákveðinn valdastrúktúr, þá bara ræður það því. Það hlýtur að mega reka félög sem hafa reglur um kynhegðun og telja karla æðri verur en konur. Það er hinsvegar algerlega fráleitt að slík félög njóti opinberra styrkja eða þjónustu af nokkru tagi og allra síst ættu þau að fá aðgang að barnaskólum.

  3. Mér fannst orðið höfuðsnillingur vera oflof og hélt það væri háð.

    Sé nú að um var að kenna fordómum mínum í garð þessa ágæta manns.

  4. Baldur notar þetta orð um sjálfan sig í pistlinum sem ég tengi á í greininni hér að ofan. Sjálfri hefði mér ekki dottið í hug að nota orðið höfuðsnillingur um Baldur. Ég hefði notað eitthvert allt annað orð, hugsanlega orðið prestur. En ég virði að sjálfsögðu vilja hans.

Lokað er á athugasemdir.