Að skrifa nafnið sitt

Löggan rétti honum blað og túlkurinn sagði að hann ætti að skrifa nafnið sitt á það. Hann sagði honum að í skjalinu væri rakið það sem hann hefði sagt lögreglunni af högum sínum. Mouhamed skildi ekki það sem stóð á blaðinu en hann kunni að skrifa nafnið sitt og fannst sjálfsagt að gera það fyrst hann var beðinn um það enda hafði hann enga hugmynd um merkingu þess að undirrita skjal sem lögreglan réttir manni.

Þeim fannst undirskriftin víst  ekki nógu góð. Hann fékk annað blað og löggan teiknaði einhver tákn á miða og sagði honum að setja þau á blaðið í staðinn fyrir nafnið sitt. Hann spurði hvort þeir væru að gefa honum nýtt nafn en túlkurinn útskýrði fyrir honum að svona væri nafnið hans ritað með latnesku letri.

Mouhamed man ekki lengur hvernig honum var kennt að stafsetja nafnið sitt. Þegar hann kom til Íslands stafaði hann það Mouhamde Lo en það verður að teljast ólíklegt að lögreglan í Noregi hafi kennt honum þann rithátt. Engin lög gilda um það hvernig nöfn af arabiskum og persneskum uppruna skuli stafsett þegar þau eru rituð með okkar stafagerð en algengast er að nafnið hans sé ritað Mohammed. Ég hef séð það ritað „Muhammed“ og „Mohamed“ en rithátt okkar manns hef ég ekki séð áður. Mér finnst líklegt að ritháttur norsku löggunnar hafi skolast til í minni hans eða jafnvel að hann hafi séð nanfið stasett á tvo vegu og blandað rithættinum saman.

Hann fékk aðstoð lögmanns til að sækja um hæli í Noregi og var komið fyrir í flóttamannabúðum þar sem hann skyldi búa þar til hann fengi svar við umsókninni. Á Spáni hafði hann kynnst þeim munaði að búa í húsi og sofa í rúmi og eftir að hafa kúldrast á bekkjum lestarstöðva, virtust honum flóttamannabúðirnar hin dásamlegasta vistarvera. Auk þess var honum sagt að hann fengi peninga til að kaupa mat enda þótt hann hafði enga vinnu og þótt hann skildi ekki alveg það fyrirkomulag var hann hættur að efast um að á Vesturlöndum væri allt mögulegt. Hann var kvalinn af tannpínu en honum var gefið verkjalyf og sagt að hann yrði sendur til tannlæknis við fyrsta tækifæri.  Þegar hann svo áttaði sig á því að í flóttamannabúðunum var maður frá Gíneu sem talaði wolof og var tilbúinn til að túlka fyrir hann, fannst honum þetta allt saman of gott til að vera satt. Í nokkra klukkutíma var hann svo hamingjusamur að hann þorði varla að trúa því að hann væri vakandi.

Einmitt þegar eitthvað virðist of gott til að geta staðist, koma skuggahliðarnar iðulega í ljós. Eftir langt spjall við aðra menn í flóttamannabúðunum, fór að renna upp fyrir honum að frelsi hans var einn allsherjar misskilningur. Hann var ekki frjáls maður heldur flóttamaður og þessi hælisumsókn var bara einhverskonar leikur. Sómalir fengju að vísu hæli og hugsanlega einn og einn frá Eþíópíu eða Súdan, var honum sagt en ekki Máritaníumenn, Senegalar eða aðrir flóttamenn frá Vestur Afríku. Hann gæti verið rólegur í nokkra mánuði en svo fengi hann synjun. Honum yrði sagt að hann gæti prófað aftur (eða eins og það var orðað, kært úrskurðinn) en það myndi ekki hafa neitt að segja. Hann gæti eins reiknað með að vera sendur burt nauðugur áður en tekin væri afstaða til kærunnar. Eina leiðin til að komast hjá því að vera sendur í hendur kvalara síns aftur, væri sú að útvega sér fölsuð skilríki.

Á næstu vikum komst hann að þeirri niðurstöðu að flóttamaður væri öfgakennd andstæða við þræl. Þrældómur merkti það að vera kúgaður til að vinna sér til óbóta án launa. Hlutskipti flóttamannsins var hinsvegar að vera kúgaður til aðgerðaleysis á launum. Enda þótt einhver vildi ráða hann, þá mátti hann ekki vinna. Og sá sem á hvergi heima í veröldinni, getur í raun fátt gert annað en að bíða. Jafnvel þótt hann hefði næg fjárráð, sem hann hafði ekki, hefði hann ekki átt kost á því að verða sér úti um menntun eða stofna heimili og nú var honum orðið ljóst að honum var heldur ekki óhætt að ferðast án vegabréfs.

Dagurinn silaðist áfram. Hann sat í stól, gekk í hringi, reykti, settist í annan stól, gekk aftur í hringi, boraði tánum í gólfið og gekk í fleiri hringi. Stundum fannst honum hann vera að missa vitið. Ári áður hafði hann séð hvíld í hillingum en nú hefði hann með ánægju dregið vatn úr brunni og hlaupið á eftr úlföldum. Þ.e.a.s. í nokkra klukkutíma, gegn því að fá nóg að borða og frí á sunnudögum. Nei, hann langaði ekki heim en hann langaði að gera eitthvað. Draga upp 10 vatnsfötur, 15 jafnvel en ekki 180 eða 217. Hann saknaði vina sinna en tilhugsunin um að vera sendur heim og hitta eiganda sinn aftur hélt honum andvaka nóttum saman. Hann yrði heppinn ef hann slyppi með geldingu.

Honum datt í hug að fara bara en félagar hans gerðu honum grein fyrir því að hann væri í lítið skárri aðstöðu til þess hér en hann hafði verið í Máritaníu. Í rauninni væri litið á það sem strok. Hann gæti hugsanlega komist til Svíþjóðar, Danmerkur, jafnvel Þýskalands án þess að vera stoppaður en án vegabréfs gæti hann ekki gert sér vonir um að fá vinnu og það að liggja úti í Noregi að vetrarlagi væri jafn hættulegt og að ferðast einn í eyðimörk. Á endanum yrði hann handtekinn og sendur í búðirnar aftur, eða það sem verra væri, til Máritaníu.

„Það eina sem þú getur gert er að bíða og reyna svo að komast til Kanada þegar þeir vilja fara að losna við þig“ sögðu þeir og fyrst allir sögðu það sama sá Mouhamed ekki ástæðu til að draga það í efa. Hann yrði bara að bíða. Hanga á horriminni, láta hjálparstofnir um að útvega sér fatnað og stilla sig um að nota dagpeningana til að verða sér úti um afþreyingu, heldur leggja fyrir til að kaupa falsað vegabréf og flugmiða til Kanada. Og hann hélt áfram að ganga í hringi, reyndi að reykja úr sér kvíðann og biðjast fyrir. Hélt áfram að bíða, bíða allan daginn, alla daga. Einhverntíma hefði hann þegið nokkurra daga aðgerðaleysi með þökkum en mikið óskaplega var hann orðinn þreyttur á allri þessari hvíld. Eftir margra mánaða bið (hann er ekki viss en telur að hann hafi verið í Noregi í 5-7 mánuði) kom bréfið. Honum var synjað um hæli. Skýringin sem honum var gefin var sú að þrælahald væri ólöglegt í Máritaníu.

Hann fór að ráðum félaga sinna. Kærði úrskurðinn en beið ekki eftir niðurstöðu. Afhenti manni sem heimsótti flóttamannabúðirnar alla peningana sína og fékk í staðinn falsað vegabréf og flugmiða til Kanada. Honum var sagt að hann myndi millilenda á Íslandi en það væri ekkert mál því þar væri ekkert vegabréfaeftirlit. Um leið og hann fékk gögnin fékk hann blað með tölustöfum og nokkrum strikum sem vöktu athygli hans. Hann spurði félaga sinn út í þetta blað og fékk þær skýringar að merki rauða krossins táknaði að tölurnar hefðu verið lagðar saman, tvö þverstrik táknuðu að talan fyrir aftan þau væri samanlögð upphæð og eitt þverstrik að upphæðin fyrir neðan hefði verið dregin frá. Þetta var víst eitt af því sem börn lærðu í skólum, var honum sagt. Og tilfinningin flóði einhvernveginn yfir hann. Þetta var einfalt. Hann skildi þetta. Samt var þetta nánast eins og galdur. Galdur sem allir Norðmenn þekktu, allir Spánverjar, margir Afríkumenn líka. Kannski allir sem einhverntíma höfðu gengið í skóla. Það eru skólar allsstaðar, líka í Kanada, hugsaði hann. Svo steig upp í flugvél í fyrsta sinn á ævinni og þegar vélin tókst á loft varð hann smeykur en kyngdi óttanum og einbeitti sér að draumnum um að kannski kæmist hann í skóla í Kanada.

Hann millilenti á Íslandi 19. desember 2010 og komst að raun um að hann hefði ekki fengið alveg réttar upplýsingar um eftirlitsleysið á Leifsstöð. Þvert á móti þótti öryggisgæslunni vegabréfið hans einkar áhugavert. Hann var handtekinn og dæmdur fyrir skjalafals, þrælborinn maður sem kunni ekki að skrifa nafnið sitt og hafði komist að því aðeins nokkrum dögum fyrr að samlagningartáknið væri ekki merki Rauða Krossins. Að vísu er skýrt tekið fram í flóttamannasamningi SÞ (sem Íslendngar eiga aðild að) að ekki megi refsa fólki sem hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, fyrir að framvísa fölsuðum eða stolnum skilríkjum en þar sem Íslendingar hafa aldrei séð ástæðu til að virða mannréttindi einhverra halanegra sem hafa unnið sér það til óhelgi að fæðast á röngum stað, eru mannréttindabrot gegn flóttamönnum bundin í lög á Íslandi. Mouhamed var því samkvæmt þessari dásamlegu réttvísi stungið í fangelsi á þeirri forsendu að flóttamenn komi ekki til Íslands beint frá ríki þar sem lífi þeirra er ógnað.  Samkvæmt strangasta skilningi flóttamannasamningsins hefði hann átt að sækja um hæli á Spáni (það er orðið of seint núna því ef hann fer þangað aftur er hann ekki að koma beint frá Máritaníu og Spánverjar geta notað það sem réttlætingu alveg eins og útlendingastofnunin okkar.) Glæpur hans fólst þannig ekki aðeins í þeirri yfirgengilegu frekju að vilja lifa fram yfir fimmtugt og það án þess að þola ofbeldi og hungur heldur ekki síður í því að hafa fæðst til þrældóms og fáfræði.

 

Auðvitað á fólk sem elst upp við þessar aðstæður að hafa rænu á því að sækja um hæli í því landi sem reglugerðir gera ráð fyrir.

 

Share to Facebook

7 thoughts on “Að skrifa nafnið sitt

  1. Takk fyrir þessa umfjöllun þína. Megi hún troðast ofan í og upp í líkamsholur íslenskra rasista.

  2. ‘Ég hef illu heilli þurft að kljást við útlendingastofnun vegna,, fyrrverandi,,og ég segi alveg eins og er að allt sem sagt er slæmt um þá stofnun er satt og í allflestum tilfellum miklu verra,,því miður,,ég hef náð að hafa vitrænna samtal við grjót. En starfsmenn þeirrar ömurlegu stofnunar virðist vera uppálagt að allir sem vilja flytja til íslands til að búa hérna séu í besta falli afætur og sníkjudýr eða forhertir glæpamenn,nema náttúrulega að þeir séu svo heppnir að vera fæddir á réttum stað á jörðinni,,,eða vera góðir í handbolta,það hefur hjálpað mikið,,,ég held að þessum dreng væri gerður stór greiði með því að reyna að fá Norðmenn til að veita honum hæli,,,Útlendingastofnun hleypir honum ekki inn hérna.

  3. Sæl Eva og gleðilegt ár!
    Takk fyrir að skrifa þessa sögu. Þó þetta sé átakanleg saga þá þykir mér alltaf hressandi að fá innsýn í reynsluheim annarra. Sérstaklega þeirra sem lifa við slíkar aðstæður sem þú lýsir þarna. Við erum svo spillt af vestrænum vellystingum að við eigum erfitt með að setja okkur í spor þeirra sem lifa við þrældóm, bláfátækt og kúgun. Það kemur mér líka sífellt á óvart hversu samansaumaðir við Íslendingar getum verið gagnvart fólki af ‘erlendum uppruna’. Ég hringdi eitt sinn í útlendingastofnun til að kanna möguleika bandarísks vinar míns til að koma tímabundið til landsins til að vinna. Það var eins og ég hefði framið stórglæp með því að vera að leita eftir því að útlendingur kæmi til landsins og settist jafnvel að til langframa. Ég á ofsalega erfitt með að sætta mig við að um leið og við látum eins og fasistaríki heima við gagnvart erlendum ríkisborgurum og flóttafólki þá ætlumst við sjálf til að fá að búa í öðrum löndum og njóta þar fullra mannréttinda og lífskjara. En það er auðvitað sjálfsagt og allt annað mál, við erum jú Íslendingar og þar af leiðandi best í heimi. 🙂

    Takk fyrir jafnan málefnaleg skrif. Ég fylgist reglulega með þeim og vissulega verða þau oft kveikja að umræðum í minni fjölskyldu. Nú síðast í dag þegar ég gekk með unglingssyni mínum um stræti kínverskrar stórborgar og við okkur blasti kynlífstækjaverslun mitt á meðal tehúsa, ávaxtasala og nærbuxnabúða.

  4. Góð saga. Því miður er þetta saga sem endurtekur þúsundfalt, aftur og aftur, í nánast hverju einasta Evrópuríki og lausnin vandfundinn. Við getum eðlilega ekki tekið á móti öllum sem búa við bág kjör og þurfum að setja einhverjar reglur eða hömlur, en við getum heldur ekki komið fram við þau eins og glæpamenn og hent þeim í fangelsi – jafnvel þó við köllum það flóttamannabúðir.

Lokað er á athugasemdir.