Að runka refsigleðinni

Fangi strýkur af Litla Hrauni. Gefur sig að lokum fram enda afber enginn venjulegur maður útlegð á Íslandi um miðjan vetur. Honum er skutlað beint í einangrun, ekki af því nein hætta sé á að hann spilli rannsókn sakamáls eða af því að hætta stafi af honum eða steðji að honum innan um aðra fanga, heldur er það hrein og klár grimmd sem ræður ferðinni.

Nú er ég viss um að einhverjum þykja þetta stór orð. Einhverjir telja að nauðsynlegt sé að refsa föngum fyrir strok því annars sé svo mikil hætta á að heilu flokkarnir flýi fangelsin. En fangelsisyfirvöld vita betur. Þau vita vel að ekkert bendir til þess að einangrun komi í veg fyrir strok. Þau vita líka að einangrun er grimmdarleg aðgerð sem stofnar geðheilsu fangans í voða. Reyndar svo grimmileg meðferð að það er óskiljanlegt að einangrun hafi enn ekki verið skilgreind sem pyntingar í mannréttindasáttmálum. Mörg ríki viðurkenna þó að nokkru leyti að einangrun sé eitt form pyntinga því þótt það sé ekki orðað þannig í lögum hafa þessi ríki lagt takmarkanir við því hversu lengi má beita fólk einangrun og á hvaða forsendum. Eitt þessara ríkja er Ísland.

Samkvæmt lögum liggur sú refsing við stroki úr fangelsi að fanginn fær ekki dagsleyfi næstu tvö árin. Að auki er heimilt að einangra strokufanga en það er þó engin skylda að beita þeirri grimmilegu meðferð. Það er ömurlegt til þess að vita að fangelsisyfirvöld skuli nýta heimildir til ómannúðlegrar meðferðar þegar það þjónar engum tilgangi öðrum en þeim að runka refsigleði fangavarða á páerflippi og óskandi væri að íslenskir fjölmiðlar krefðu Margréti Frímannsdóttur svara um það hversvegna hún taki þá ákvörðun að einangra menn á nokkrum öðrum forsendum en þeim að rannsóknarhagsmunir krefjist þess.

Share to Facebook