Að kjósa í útlöndum

Allt útlit er fyrir að ný stjórnarskrá verði grundvölluð á tillögum Stjórnlagaráðs. Með gerð þessarar tillögu var stigið mikilvægt skerf í átt til þátttökulýðræðis. Fordæmi hefur verið sett og rökrétt framhald er að almennir borgarar taki beinan þátt í því að móta lagafrumvörp um stór mál og að fleiri mál verði borin undir almenna borgara.

Ég kaus í útlöndum. Mér þótti dálítið óþægilegt að afhenda kjörseðilinn minn einhverjum starfsmanni pósthúss og velti því fyrir mér hvort hann kæmist örugglega til skila. Ábyrgðarsending kostar sem svarar 4.193 íslenskum krónum og það er ekki nein trygging fyrir því að bréfið komist til skila, aðeins trygging fyrir því að maður fái staðfestingu á því að hún hafi komist í réttar hendur ef hún kemst svo langt. Ég efast því um að margir þeirra sem kjósa í útlöndum sendi atkvæðin sín með ábyrgðarpósti.

Það sem truflar mig þó meira er að umslögin á að merkja með nafni og heimilisfangi. Það er hægt að stinga umslaginu í annað umslag og senda það án þess að setja nafnið sitt utan á umslagið. Það verður þó ekki framhjá því litið að  kerfið gerir beinlínis ráð fyrir því að utankjörfundaratkvæði séu send um langan veg, nánast eins og opin póstkort. Þetta býður heim hættunni á því að starfsmaður pósthúss eða kjörstjórnar sem þekkir nafn sendanda og veit um pólitískar skoðanir hans, finnist óþarfi að skila atkvæði sem hann álítur óæskilegt. Ég er ekki að tortryggja starfsmenn pósthúsa og kjörstjórna en ástæðan fyrir því að við setjum ekki upplýsingar á borð við “í þessu umslagi er að finna lykilorðið að netbanka Evu Hauksdóttur, vinsamlegast opnið ekki í umslagið” er ekki sú að líklegt sé að fólk misnoti aðstöðu sína, heldur sú að það getur gerst.

Fleira við framkvæmd utankjörfundarkosninga vekur spurningar. Víða eru það ræðismenn sem hafa umsjón með utankjörfundakosningum og annaðhvort eru ekki til samræmdar reglur um það hvernig að því skuli staðið, eða þá að sumir þeirra fara ekki eftir þeim. Ég veit þess dæmi að hópum fólks var boðið sæti við borð þar sem allir fylltu út kjörseðla sína í sameiningu. Ég efast ekki um að hlutaðeigandi ræðismaður hefði brugðist vinsamlega við tilmælum um að bjóða upp á aðstöðu til að kjósa leynilega en er við því að búast að sá sem fylgir fjölskyldu sinni eða vinahópi veki sérstaka athygli á því að hann vilji leyna afstöðu sinni? Ég veit líka dæmi þess að fólk hefur fengið óútfyllta kjörseðla með sér heim, ásamt stimpli frá ræðismanni. Ef ég á óútfylltan kjörseðil, get ég gefið seðilinn eða jafnvel selt. Ég efast um að slík tilvik hafi komið upp, allavega eru hverfandi líkur á að það myndi hafa áhrif á úrslit kosninga en þeir sem kjósa á Íslandi fá ekki kjörseðlana með sér heim og við hljótum að gera þá kröfu að framkvæmd kosninga sé eins samræmd og mögulegt er.

Það er ekki við því að búast að fólk sem rekur sig á svona klaufaskap hjá sínum ræðismanni tilkynni kjörstjórnum það, í mörgum tilvikum yrði auðvelt að giska á hvaðan ábendingin kæmi og í litlum samfélögum gæti það valdið árekstrum. Það væri meira öryggi í því fólgið að gefa fólki sem kýs í útlöndum kost á að skila atkvæði sínu rafrænt en að setja þetta í hendur einnar manneskju á hverjum stað. Það væri líka mun öruggara að senda atkvæði rafrænt en í umslögum sem eru rækilega merkt hverjum og einum.

Það er amk eitt kosningatengt vandamál í viðbót sem Íslendingar í útlöndum standa frammi fyrir. Eftir átta ára búsetu erlendis dettur fólk út af kjörskrá. Til þess að fá að kjósa þarf maður að kæra sig inn á kjörskrá. Það er enginn sýnilegur tilgangur með þessu fyrirkomulagi. Rétturinn er skýlaus; niðurstaðan er alltaf sú sama, sá sem kærir fær að kjósa. Engin rök hníga að því að íslenskur ríkisborgari eigi að þurfa að sækja þann rétt sinn sérstaklega. Þyngra vegur þó að við kosningar skiptir öryggið máli. Það skiptir máli að kosningar séu raunverulega leynilegar. Það skiptir máli að atkvæði merkt með persónuupplýsingum fari ekki á flakk. Væri ekki rétt að enduskoða framkvæmd utankjörfundakosninga fyrir næstu Alþingiskosningar? Bara svona upp á prinsippið.

Share to Facebook