Að gefa ríkisstjórninni séns

268813_10201141269924005_734261846_nÞeir sem benda á ósamrýmanleg markmið og ótrúverðugan málflutning formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fá gjarnan tilmæli um að „gefa ríkisstjórninni séns“.  Tortryggni í garð ríkisstjórnarflokkanna er afgreidd sem neikvæðni. Mig rekur reyndar minni til þess að sama gagnrýni frá sama fólki hafi fengið sömu einkunnir á árunum fyrir hrun. Efasemdir um ágæti þenslunnar voru sagðar svartagallsraus og nöldur.

Nokkur dæmi um markmið nýrrar ríkisstjórnar

Ríkisstjórn Silfurskeiðabandalagsins hefur sett sér metnaðarfull markmið. Hún ætlar m.a:

…að vinna að því að Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu og öðrum þjóðum fyrirmynd á sviði umhverfisverndar.

 Samtímis ætlar hún að auka veg landbúnaðar þrátt fyrir að ofbeit sé ein helsta orsök jarðvegseyðingar og

…stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst, finnist þær í vinnanlegu magni.

Jafnframt ætlar hún að sjá til þess 

…að engar nýjar íþyngjandi reglur verði innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið falli brott jafnveigamiklar kvaðir.

Samkvæmt þessu mætti ekki herða kröfur um mengunarvarnir eða vinnuvernd, jafnvel þótt áður óþekktar afleiðingar kæmu í ljós, nema fyrirtækjum yrði bætt fjárhagstjónið sem slíkar aðgerðir útheimta. En það kemur svosem ekki á óvart þótt Silfurskeiðabandalagið ætli að setja hagsmuni eigenda atvinnulífsins ofar hagsmunum almennings.

Myndin er eftir Gunnar Karlsson

 

Auk þess að ætla sér að vera öðrum þjóðarleiðtogum fyrirmynd á sviði umhverfisverndar, samtímis því að virkja hverja einustu sprænu og hvern einasta hver sem hugsanlegt er að stórfyrirtæki geti grætt á, ætla ríkisstjórnarflokkarnir, þeir hinir sömu og bera ábyrgð á einhverju stærsta efnahagshruni mannkyssögunnar,

…að auðvelda börnum og ungmennum að fóta sig í bráð og lengd, meðal annars með því að leggja áherslu á félagsfærni, aðgerðir gegn einelti og fjármálalæsi í grunn- og framhaldsskólum.


Það er dálítið athyglisvert að Silfurskeiðabandalagið nefni félagsfærni, aðgerðir gegn einelti og „fjármálalæsi“ í sömu andrá og gaman væri að fá álit sálfræðinga á þeim sálarflækjum sem þar kunna að búa að baki. Einnig væri áhugavert að fá skýringar á því hvað felst í fjármálalæsi. Kannski hugmyndin sé sú að kenna ungviðinu að nýta sér „vafningatækni“ og skattaskjól erlendis? Í myndbandinu hér að neðan sjáum við dæmi um fjármálalæsi mannsins sem á að gegna embætti fjármálaráðherra næstu fjögur árin. Er nokkur furða þótt hann sé sármóðgaður yfir því að fréttamaður skuli voga sér að leggja fyrir hann óþægilegar spurningar?

 

 

Líklega kemur fáum á óvart að fjármálaráðherra sem tengist vafasömum fjármálagjörningum og forsætisráðherra sem hikar ekki við að gefa villandi upplýsingar um menntun sína, ætli að taka að sér

…að rækta með þjóðinni þær dyggðir sem best tryggja farsæld og jafnræði.

Hvort skortur þjóðarinnar á slíkum dyggðum er stórt vandamál er umdeilanlegt. Ég efast satt að segja minna um dyggðir þjóðarinnar en um ágæti þess að þorri almennings tileinki sér siðferði Silfurskeiðabandalagsins. Sömuleiðis efast ég um að þau kraftaverk sem þeir sætabrauðsdrengir hyggjast fremja á næsta kjörtímabili séu raunhæf og ég er ekki ein um þær efasemdir.

 

En eigum við ekki að gefa þeim séns?

Hér hafa verið nefnd örfá dæmi um þá hroðalegu blöndu af froðu og steypu sem einkennir stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar en ef ætti að gera þessum þvættingi sæmileg skil yrði það efni í heila bók. Þeir sem benda á ósamrýmanleg markmið og ótrúverðugan málflutning formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fá gjarnan tilmæli um að „gefa ríkisstjórninni séns“.  Tortryggni í garð ríkisstjórnarflokkanna er afgreidd sem neikvæðni. Þeim sem heimta svör um það hvernig ríkisstjórnin hyggist ná sínum háleitu markmiðum er sagt að vera nú ekki að nöldra áður en hún er búin að gera neitt alvarlegt af sér. Mig rekur reyndar minni til þess að sama gagnrýni frá sama fólki hafi fengið sömu einkunnir á árunum fyrir hrun. Efasemdir um ágæti þenslunnar voru sagðar svartagallsraus og nöldur. Mótmæli gegn stóriðjustefnunni voru sögð tilraun til að „koma þjóðinni aftur inn í torfkofana“ (þessa sem Íslendingar bjuggu í árið 1969) og enn flíka menn þessum kjánalega frasa.

Efnahagskerfið hrundi en forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sáu enga sök hjá sjálfum sér. Sjálfstæðismenn grobbuðu af styrkri efnahagsstjórn um leið og þeir greiddu veg bankaræningja og Framsókn lofaði almenningi nýrri stjórnarskrá en barðist svo af alefli gegn tillögum Stjórnlagaráðs.

Þið sem kusuð Sjálfstæðisflokk og Framsókn; að sjálfsögðu fær ríkisstjórn Silfurskeiðabandalagsins séns, þið sáuð til þess með því að kjósa þessa flokka. Ríkisstjórnin ykkar fær tækifæri til þess að eyðileggja meira af náttúru Íslands. Hún fær tækifæri til að mylja ennþá meira undir sægreifana. Hún fær tækifæri til að vinna gegn fjölmenningarstefnu og halda áfram að kúga innflytjendur og flóttamenn. En að hún fái frið fyrir gagnrýni eða tækifæri til þess að athafna sig án þess að fylgst verði gaumgæfilega með henni, það kemur ekki til greina. Til þess er nákvæmlega engin ástæða.

Einnig birt hér

Share to Facebook