Humar með hvítvíninu

Ég er hjartanlega sammála því að áfengi ætti að fást í matvörubúðum.  Það er hinsvegar lúxusvandamál að þurfa að skipuleggja innkaupin sín og það segir kannski dálítið um veruleikatengingu elítunnar í Sjálfstæðisflokknum að áfengissala í matvöruverslunum skuli vera það afrek sem formaður Heimdallar óskar sér að sjá flokkinn vinna á komandi kjörtímabili.

Maður hefði kannski búist við því að forsvarsmenn stjórnmálahreyfinga ættu sér háleitari drauma. Já og þyngri áhyggjuefni að minnsta kosti rétt á meðan stjórnarmyndunarviðræður standa yfir.  Sjálfstæðisflokkurinn er ekki tekinn við hlutverki stjórnarráðs-maddömunnar ennþá þótt Bjarni sé að hamast við að brydda brúðarskóna.

Verðandi ráðherrar sem og upprennandi stjórnmálamenn mættu alveg hafa í huga að til er fullt af fólki sem hefur ekki efni á því að kaupa vínflösku fyrir helgina og ekki heldur humar eða steik.  Það er líka til fólk, sem þrátt fyrir að vera í fullri vinnu, hefur ekki efni á því að kaupa annað grænmeti en kartöflur og hvítkál.  Kirsuberjatómatar kosta á bilinu 800-2800 kr/kg.  Þegar ég heimsótti Ísland síðasta sumar hætti ég við að kaupa spínat þegar ég sá að það kostaði 5000 kr/kg.

Ég vona sannarlega að sú ríkisstjórn sem brátt tekur við völdum sjái til þess að fólk með lágmarkstekjur geti keypt humar af og til, og jafnvel salatblað með honum, áður en hún léttir þeirri áþján af hinum fordekruðu krakkaormum sínum að þurfa að geyma eina flösku af helgarinnkaupunum fram á sunnudag.

Já og mér er alveg sama þótt formaður Heimdellinga hafi verið spurður hreint út um einmitt þetta mál. Ég hef ekki séð hana tjá sig um neinar aðrar væntingar til Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðismenn eru byrjaðir að hita góðærisgrillin

Einnig birt hér

Share to Facebook