Er facebook að gera okkur sjálfhverfari?

Þegar afi var að alast upp var bóklestur unglinga eitt stærsta samfélagsmeinið. Ungdómurinn nennti ekki lengur að vinna, heldur lá yfir bókum og ekki blessuðu guðsorðinu neiónei, heldur allskyns siðspillandi ævintýrum og annarri þvælu. Einn og einn las jú líka einhver fræði svona meðfram bullinu en bókvitið varð ekki í askana látið og menn óttuðust að unga kynslóðin yxi úr grasi dyggðum sneydd og full af ranghugmyndum.

Svo kom sjónvarpið. Sjónvarpssjúklingar héngu yfir imbakassanum allt að 6 kvöld vikunnar og sumir fóru aukinheldur í bíó á fimmtudögum. Öll sjálfstæð hugsun var að fara til fjandans að maður tali nú ekki um ímyndunaraflið. Já og hvernig ætlaði þetta eiginlega að hafa til hnífs og skeiðar þegar það gekk jafnvel svo langt að afþakka yfirvinnu af því að það vildi ekki missa af einhverju sjónvarpsefni?

Einhvernveginn tókst sjónvarpskynslóðinni að fjölga sér, þrátt fyrir lamandi áhrif sjónvarpsins en ekki tók betra við. Tölvuleikjafirringin tók yfirhöndina og fólk hætti að mæta í vinnu. Á endanum hætti það að standa upp til annars en að opna fyrir pizzusendlinum og svo kúkaði það í pizzukassann af því að það gat bara ekki slitið sig frá tölvuleiknum. Fólk varð heimskt og sinnulaust og efnahagskerfið hrundi… Nei-já, alveg rétt, bankahrunið var víst ekki tölvuleikjafíkninni að kenna.

Og nú er það facebook sem allt ætlar að drepa. Þar þrífst firringin, þar þrífst yfirborðsmennskan, gott ef fólk verður ekki bæði heimskt og sjálfselskt af því að nota facebook.

Í gær var ég að lesa hið prýðilega vefrit Róstur og rakst þar á þessa frétt um tengslin milli sjálfsdýrkunar og facebooknotkunar. Þótt ég mæli eindregið með því að sem flestir kynni sér Róstur rækilega, læðast að mér ákveðnar efasemdir um vísindalegt gildi þessarar rannsóknar.

Samkvæmt rannsókninni eru þeir sem mestum tíma verja á facebook narkissistar. Um leið kemur fram að einmana fólk sé mikið á facebook en það liggur reyndar ekki ljóst fyrir hvað einmanaleiki kemur sjálfsdýrkun við. Tengsl milli mikillar facebooknotkunar og einmanaleika koma í sjálfu sér ekki á óvart. Þau segja heldur ekkert um facebook eða facebooknotendur sem ekki var vitað fyrir. Fólk sem er mikið eitt, t.d. öryrkjar og þeir sem eru atvinnulausir til langs tíma eru öðrum líklegri til að einangrast. Einmana fólk reynir að rjúfa einangrun sína og samskiptasíður á netinu bjóða upp á þann möguleika að komast í samband við aðra án þess að þurfa að hætta sér út úr húsi. Auk þess er auðvelt að láta sig hverfa á netinu en taugaveiklaðir munu víst einnig eiga það sammerkt með þeim sjálfhverfu og einmana að nota fb oft og lengi í einu. Af fréttinni má ráða að það bendi til sjálflægni að setja inn persónulegar stöðuuppfærslur en ég efast líka um það. Það er t.d. skiljanlegt að fólk sem er mjög einmana sé upptekið af líðan sinni og hafi þörf fyrir að segja frá persónulegri reynslu sinni. Ekkert sérstakt bendir til þess að það hafi nokkurn skapaðan hlut með sjálfsdýrkun að gera. Ekki frekar en verkur í fæti eða það að losna við verk í fæti bendir til líkamsdýrkunar.

Þeir sem nota fb mest eru uppteknir af myndaalbúmum og stöðuuppfærslum, frekar en t.d. viðburðum, það er ein af niðurstöðum þessarar vísindalegu rannsóknar. Afsakið en hvað kemur það yfirborðsmennsku og sjálfsdýrkun við? Eru viðburðir minna yfirborðslegir en myndaalbúm? Viðburður á fb getur verið þátttaka í stuðningi við alnæmissjúka. Viðburður á fb getur líka verið boð í afmælisveislu. Ég gæti best trúað því að Ásdís Rán hafi einhverntíma kynnt störf sín í þágu bleika klámsins með viðburði á fb. Vissulega segir það eitthvað um fólk hverskonar viðburði það auglýsir á síðunni sinni en hvernig í ósköpunum komust aðstandendur rannsóknarinnar að þeirri niðurstöðu að það að auglýsa partý eða mæla með undirskrifasöfnun, bendi til minni sjálfselsku en það að setja inn ljósmyndir frá mótmælum eða sjálfum sér og nýja bílnum sínum? Hvað er annars átt við með því að vera upptekinn af myndaalbúmum og stöðuuppfærslum? Er bara átt við þá sem skoða helst myndir af sjálfum sér eða er það t.d. sjálfsánægja sem er að verki þegar fólk skrifar athugasemdir á borð við ‘sætir krakkar’ á fb síður vina sinna og óskar öðrum til hamingju með afmælið eða bendir það kannski frekar til umhyggju og áhuga á öðru fólki?

Þrífst grunnhyggni á snjáldrinu? Fokk já. Einu sinni spurði ég vini og vandamenn álits á því hvaða drykkur væri góður með tilteknum rétti. Ég fékk meira en 50 svör. Þegar ég vakti athygli á því að Jason Slade ætti yfir höfði sér allt að 21 árs fangelsisdóm fyrir friðsamleg mótmæli gegn umhverfisspjöllum, hernaði og mannréttindabrotum, fékk ég eitt svar og þrjú eða fjögur ’læk’ á tengilinn. Af einhverjum ástæðum virðist fólk hafa meiri áhuga á mat og drykk en mannréttindum og ég efast ekki um, ekki eitt andartak að sjálfhverfa og yfirborðsmennska lifi góðu lífi á fb.

Hitt er svo annað mál að það er illgerlegt að mæla þessa eiginleika vísindalega. Hvernig er yfirborðsmennska skilgreind? Við getum leikið okkur að því að búa til mælikvarða. T.d: yfirborðsmennska er það að verja meiri tíma og peningum í að standa undir ímynd en að rækta dyggðir sínar og kærleikssambönd og gera heiminum gagn. En þessi skilgreining er auðvitað handónýt því ef við ætlum að nota hana þurfum við fyrst að spyrja hvenær er maður að reyna að standa undir ímynd og hvenær er maður að tjá sinn innri veruleika? Er það yfirborðsmennska að nota tískufatnað og fara í fegrunaraðgerðir? Er það athyglissýki að skreyta sig með óvenju miklu húðflúri og fá sér horn á hausinn? Eða er hvorttveggja tjáning? Er sá sem vill endilega segja alheiminum frá því að hann sé að fá dóttur sína í heimsókn, sé í ástarsorg eða nenni ekki að þrífa stofugluggana, sjálfhverfur eða er tjáning hans ósköp svipuð og tjáning listamannsins sem finnur hjá sér hvöt til að syngja um það hvað hann sé latur, gáfaður, ástfanginn o.s.frv?

Bleika klámið, er nefnilega alveg eins og bláa klámið, illskilgreinanlegt, illmælanlegt en við þekkjum það þegar við sjáum það. Með þeirri einu aðferð, að meta hvert tilvik, er hægt að dæma um yfirborðsmennsku og sjálfselsku snjáldurverja. Sú aðferð getur þó ekki talist vísindaleg og eftir stendur að til þess að meta hvort fb ýtir undir þessa eiginleika og/eða er sérstakur vettvangur fyrir narkissista, þyrfti fyrst að sýna fram á að sjálflægni og yfirborðsmennska séu óalgengari á einhverjum öðrum vettvangi. Er hlutfall narkissista á fb hærra eða lægra en hlutfall narkissista í verslunarmiðstöðvum? Þrífst yfirborðsmennska kannski líka á Alþingi? Eru meðlimir björgunarsveita raunverulega fórnfúsari en pjattrófur eða gera þeir bara meira út á þá ímynd? Nú og ef það er rétt að sjálfhverfa sé meira áberandi á fb en annarsstaðar hvað eigum við þá að gera við þær upplýsingar? Hætta á fb og verða dyggðug aftur eins og við vorum 2002? Loka fb til að útrýma yfirborðsmennsku?

Þegar þetta er skrifað er klukkan að ganga 11 á laugardagsmorgni. Ég opna fréttaveituna og athuga hvaða sjálfselska og yfirborðsmennska mæti mér í dag. Skoða fyrstu 10 ’fréttirnar’. Í nýjustu stöðuuppfærslunni gleðst vinkona mín yfir endurfundum fjölskyldunnar. Þjóðþekkt kona tjáir sig um frétt af því að pistlum fjárdráttarmanns hafi verið eytt af Deiglunni. Vinsæll bloggari vekur athygli á grein sinni um kvótakerfið. Kunningjakona mín segir þau hjónin hafa farið á dansleik og skemmt sér vel. Áhugaljósmyndari birtir flotta landslagsmynd. Einhver vekur athygli á því að Twittermál Birgittu verði bráðum tekið fyrir, annar kallar eftir umræðu um Orkuveitu Reykjavíkur. Einn deilir tónlistarmyndbandi sem mig grunar að feli í sér persónuleg skilaboð til kærustunnar hans. Hjúkrunarfræðingur er sáttari við Jón Gnarr nú en áður. Háskólakennari óskar doktorsnemum til hamingju með námsstyrkinn. Hvar er yfirborðsmennskan? Sjálfsdýrkunin? Hún er til á fb eins og annarsstaðar jú en ég þarf að leita til að finna hana. Snjáldurskinna hefur nefnilega þann kost (einn af mörgum) að maður ræður því hvaða síður birtast á fréttaveitunni.

Sýndarmennska og grunnhyggni er ekki neitt sérstakt einkenni á nútímanum. Raunsæisbókmenntir frá fyrri hluta 20. aldar eru t.d. fullar af gagnrýni á skinhelgi og stéttarhroka. Munurinn er sá að í þá daga rembdist fólk við að standa undir ímynd hins guðhrædda dándimanns með því að fleygja ölmusu í smælingja. Í dag reynir fólk að standa undir kröfum um útlit og auðæfi. Yfirborðsmennskan er sú sama, sjálfsdýrkunin sú sama.

Á facebook fer fram víðtæk samfélagsumræða. Notendur benda á fréttir úr erlendum fjölmiðlum sem hafa farið fram hjá íslenskum blaðamönnum eða ekki vakið athygli þeirra. Menn bindast samtökum og fjársafnanir og undirskriftasafnanir í þágu ýmisskonar málefna fara þar fram. Þar fer líka fram almennt spjall um ómerkilega hluti, tilfinningatjáning og afþreying sem vissulega getur verið heiladrepandi til lengdar. Facebook er nefnilega samfélagsspegill, safn af síðum þar sem fólk sýnir andlit sitt, stundum ímynd sem stenst ekki raunveruleikann en rétt eins og þegar við tökum þátt í spunaspili þá fer fólk fyrr eða síðar að leika sjálft sig. Sjáldran er þessvegna ekkert hættulegri en hinn raunverulegi heimur.

Nei elskurnar, þessi ótti við facebook er ástæðulaus. Snjáldran fer ekki með okkur til fjandans frekar en afþreyingarbókmenntir, sjónvarpið eða tölvuleikir. Facebokk er ekkert meira geldandi en aðrir miðlar og áreiðanlega mun minna geldandi en verksmiðjuvinna og ræstingar. Hún er heldur ekkert hættuleg öryggi manns og einkalífi svo fremi sem maður hefur vit á því að setja ekkert á facebook sem maður ætlar ekki að segja mömmu sinni, löggunni og vítisenglum. Ég sé heldur ekki að það sé neitt sjálfhverfara að segja heiminum hvað maður er að hugsa um og hvernig manni líður í dag en að skrifa það á vegg í miðbænum eða semja um það lag.

Við lifum í yfirborðslegum heimi og þegar allt kemur til alls, er engin furða að flestum finnist auðveldara að gefa ókunnugri konu góð ráð þegar hún þarf að velja vín með matunum en að styðja hugsjónafólk á borð við Jason Slade. Hvernig má annað vera í samfélagi sem er stjórnað ofan frá, af fólki sem vinnur markvisst gegn áhuga almennings á mótun samfélagsins? Ef maður hefur skoðanir á einhverju mikilvægara en því hvaða vín hæfi kálfakjöti, þá eru stjórnmálaflokkarnir eini vettvangurinn þar sem maður fær raunverulegt tækifæri til áhrifa. Og þeir eru nú ekki alveg lausir við yfirborðsmennsku og sjálflægni.

Facebook hefur miklu fleiri kosti en galla og hún er komin til að vera. Það eru ekki stjórnmálaflokkarnir eða álfyrirtækin, heldur notendur síðunnar sem stjórna því hvað fer þar fram. Það vinnst ekkert með því að sniðganga facebook en hinsvegar er hægt að nota hana sem vettvang fyrir grasrótarstarf. Það er hægt að nota hana til að vega á móti bleika kláminu. Það er satt, það er satt, það er auðveldara að skrá sig í fb hóp eða ýta á ’like’ en að rífa sig upp af rassgatinu og gera eitthvað en hugsun er til alls fyrst og fólk fer ekki á fætur nema vakna fyrst.

Svo kæru Rósturpennar, endurskoðið afstöðu ykkar. Losið ykkur við þá ranghugmynd að flestir sem nota facebook séu hvort sem er yfirborðslegir auðvaldssinnar sem ekkert þýði að reyna að tala við. Skoðið teljarann ykkar og veltið fyrir ykkur hvort orð ykkar hefðu meiri áhrif ef lesendafjöldinn myndi tífaldast. Veltið því fyrir ykkur hvort þið hafið nokkru að tapa með því að setja ’læk’ tengil á Róstur. Það er nefnilega mjög góð ástæða fyrir því að síður á borð við ted.com bjóða notendum sínum að ‘læka’.

Share to Facebook

One thought on “Er facebook að gera okkur sjálfhverfari?

  1. —————————————-
    Það var skemmtilegt og fróðlegt að lesa þetta Eva. Takk. Þú hefur svo opinn huga og betra lag en margir til að sjá fleiri en einn flöt á ýmsum málum. Fyrir mér er fb að sumu leyti félagsleg sárabót því ég er ekki sterk á svellinu í samskiptum; þarf að halda þeim innan ákveðinna marka.
    Fb hefur gefið mér tækifæri til að velja mér áhugaverða vini sem ég hefði annars ekki kynnst og fylgjast með þeirra hugmyndum og skoðanaskiptum um lífið og tilveruna. Vegna fb er ég pólitískari og samfélagslega meðvitaðri en áður. Og síðast en ekki síst þá finnst mér ég gera gagn þegar mér gefst tækifæri til að setja nafnið mitt á undirskriftarlista fólks sem berst fyrir betri heimi. Það virðist vera að skila sér að einhverju
    leiti og á eftir að skila miklu meiri árangri þegar fólk áttar sig betur á því hve netið er kröftugur miðill.

    Posted by: Sigríður Halldórsdóttir | 16.04.2011 | 13:43:37

    —————————————-

    Í yfirgnæfandi meirihluta tilvika virkar facebook á eftirfarandi hátt:
    1) Þú setur inn lýgi um hvað þú ert hamingjusöm.
    2) Þú lest lýgi hjá öðrum um hvað þeir eru hamingjusamir.
    3) Þú ferð á bömmer yfir því hve aðrir eru að lifa skemmtilegra lífi en þú.
    4) Þú færð auglýsingu um eitthvað sem gerir líf þitt betra.
    5) Þú ferð og kaupir það sem auglýst var.
    6) Þú ferð aftur á byrjunarreit.

    Vissulega eru varíasjónir á þessu, en í grundvallaratriðum er facebook ætlað að auka neyslu með því að búa til vanlíðan með því að nota sýni- og gægjuþörf fólks gegn því.

    Posted by: Björn I | 16.04.2011 | 14:06:36

    —————————————-

    Hvað hefurðu fyrir þér í þessu Björn?

    Ég hafði áhyggjur af því fyrsta árið sem ég notaði fb að pósthólfið mitt myndi fyllast af tilboðum. Það hefur ekki gerst. Ég verð mjög lítið vör við auglýsingar á fb, þær eru þarna til hliðar jú en þær trufla mig ekkert. Satt að segja get ég ekki einu sinni rifjað upp nema eina auglýsingu sem ég hef séð á fb.

    Af þessum 10 stöðuuppfærslum sem ég skoðaði í gær, snúast tvær um persónulega hamingju. Endurfundi fjölskyldu og hjón sem veittu sér munað sem þau gera ekki oft. Er eitthvað ótrúverðugt við þá gleði? Er það eitthvað til að öfundast yfir? Er það til þess fallið að selja mér eitthvað?

    Geturðu bent á einhverja rannsókn sem bendir til þess að fólki líði verr eftir að fór að nota fb eða að neysla þess hafi aukist?

    Posted by: Eva | 17.04.2011 | 7:08:55

    —————————————-

    Til gamans ætla ég að skýra frá því hvað er að gerast á fréttaveitunni minni einmitt núna:

    G.G. setur inn athugasemd við umræður hjá A.M. um það hvort Samfó muni sprengja ríkisstjórnina.

    H.C. Furðar sig á því að status sem hann setti inn sé horfinn.

    Þ.Þ. tilkynnir að hann sé að blasta Billy Idol og á leið í bað.

    B.J. er á leið á ráðstefnu um internetfrelsi.

    Þ.E. deilir frétt um áhugahóp um Samfélagsbanka.

    G.G. ræðir fiskveiðistjórnun.

    T.G. ræðir tannlæknakostnað.

    N.V. spyr: hvað myndirðu segja við mig ef við vöknuðum saman á geðdeild og þú mættir bara nota 4 orð?

    H.M.H. vísar á tengil þar sem kvótamál eru til umræðu.

    S. er komin með heimiliskött.

    Á eitthvað af þessu að vekja í mér neyslufíknina?

    Ég sé fjórar auglýsingar á síðunni minni. Ein þeirra höfðar til mín, þar er verið að auglýsa ráðstefnu um atvinnumál kvenna. Satt að segja hefði ég ekki tekið eftir henni nema af því að ég ákvað sérstaklega að skoða auglýsingarnar. Auglýsingar verða fyrir okkur allsstaðar, á hverjum degi. Hlutfall þeirra er ekkert meira á fb en annarsstaðar og sá sem lifir í nútímasamfélagi verður sjálfur að taka ábyrgð á því hversu mikið hann stjórnast af auglýsingum.

    Posted by: Eva | 17.04.2011 | 7:27:29

    —————————————-

    Nei sko, Íslendingar eru að fara á fætur. Fleiri fréttir komnar á fréttaveituna:

    E.S.T. og I.Þ. spjalla um eitt hugljúfasta atriði kvikmyndasögunnar.

    J.K. vekur athygli á bloggi sínu um rannsóknir á svefni og heilsu.

    G.Þ. langar í gashitara á veröndina.

    Á.G. bendir á fréttatengil um sjávarútvegsmál.

    E.Ö. tekur þátt í umræðum um þjóðareign.

    G.G. ‘lækar’ innlegg G.A.T. um tannlæknakostnað.

    L.H.E. tekur þátt í spjalli um hunda og hárlos.

    Ég sjálf held uppi umræðu um málfarið á bleikt.is

    H.S.H. tekur þátt í umræðum hjá B.R. um myndverk eftir Pieter Brueghel.

    H.G. finnst Íslendingar heppnir að vera ekki með konungsveldi.

    Hvað af þessu á að gera mig vansæla og ýta undir neyslufíkn mína?

    Posted by: Eva | 17.04.2011 | 7:52:59

    —————————————-

    J.I.Ó. veltir fyrir sér hvernig Þráinn Bertelsson hafi hafi tapað peningum fyrst innistæður voru bættar.

    M.G. er kominn til Berlínar.

    S.O.A. sendi börnin með veskið út í búð og lærði af reynslunni.

    K.R. deilir ljósmynd.

    H.E.G. er búin að skila síðasta verkefninu og framundan er origami, hjónabandshnútur og yndislestur.

    Sjálfsdýrkun? Yfirborðsmennska? Markaðshyggja?

    Posted by: Eva | 17.04.2011 | 8:00:11

    —————————————-

    Mér finnst fb merkilegt fyrirbæri og fræðingar eiga ábyggilega eftir að rannsaka það í bak og fyrir. Eitt af því jákvæða sem fb getur af sér er að gefa fötluðum tækifæri til að eiga í samskiptum á jafnréttisgrundvelli, þótt enginn haldi fram að rafræn samskipti geti komið í stað fyrir önnur samskiptaform.

    Það eru skuggahliðar á öllu og fb er sama marki brennd og annað mannanna brölt.

    Posted by: baun | 17.04.2011 | 10:11:39

     

Lokað er á athugasemdir.