Í gær logaði internetið út af rasista í Vesturbæjarlaug. Ekki fylgir sögunni hvort tónn og svipbrigði konunnar sem notaði orðið „múlatti“ um ungbarn bentu til þess að hún liti niður á barnið vegna húðlitar þess. Kannski var hún bara af þeirri kynslóð sem ólst upp við orðið „múlatti“ sem hlutlaust orð sem merkti ekki annað en það að annað foreldranna væri hvítt og hitt svart. Kannski vissi hún ekkert um kenningar um orðsifjaleg tengsl múlatta og múlasna.

Þegar fólk er beðið að nota ekki tiltekið orð þá er undarlegt að halda áfram, en við sem ekki vorum viðstödd vitum svosem ekkert um hvað þetta snerist. Var konan vísvitandi að ögra móðurinni eða var hún að útskýra fyrir henni þá afstöðu að orðið hefði ekki neikvæða merkingu? Best gæti ég trúað að konan sem kallaði barnið múlatta sé nú sármóðguð yfir því að vera kölluð rasisti, enda hefur það orð niðrandi merkingu og er ekki endilega lýsandi fyrir alla sem komast klaufalega að orði.

RÚV kallar á Mannréttindaskrifstofu vegna „málsins“

Hafi konan beinlínis verið að áreita móður barnsins þá skil ég kröfuna um að vísa henni upp úr lauginni. En einhverjum finnst sú krafa ekki ganga nógu langt heldur kallar Ríkisútvarpið eftir viðbrögðum Mannréttindaskrifstofu Íslands. Og ekki stendur á svörum:

Að nota niðrandi orð um fólk sökum húðlitar á opinberum stað getur verið refsivert athæfi, að sögn framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands.“

Sjá hér

Með þessum ummælum er framkvæmdarstjóri Mannréttindaskrifstofu að vísa til ákvæðis í almennum hegningarlögum, nánar tiltekið 233. gr. a.:

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Þetta ákvæði hefur verið frjálslega túlkað af íslenskum dómstólum svo ekki sé meira sagt. Það að nota ósmekklegt orðalag til að angra minnihlutahópa er beinlínis flokkað sem glæpur sem telst mannréttindabrot af ríki að bregðast ekki við. Fúkyrði eru þannig sett í flokk með frelsissviptingu, líkamsárásum og stórfelldum eignaspjöllum. Það er miður, því það er ekki áhrifarík leið til að uppræta fordóma að sekta nokkra heimskingja. Það er hinsvegar til þess fallið að styrkja samkennd hópa sem aðhyllast fjandsamleg viðhorf í garð minnihlutahópa. Það eina sem rasistar og aðrir fordómafullir hópar læra af refsidómum er að tjá ógeðfelldar skoðanir án þess að hægt sé að hanka þá á orðalaginu.

Ný orð en ekki endilega ný merking

Þegar orð hafa lengi verið notuð í niðrandi merkingu getur áreiðanlega hjálpað til að kynna ný orð til sögunnar og biðja fólk að nota þau frekar. Það eitt út af fyrir sig að skipta um orð vinnur ekki gegn fordómum en upplýst samræða gerir það. Að taka upp ný orð er ekki nóg.

Þegar ég var smábarn voru Inúítar kallaðir Eskimóar. Við hættum því þegar var útskýrt fyrir okkur að merkingin væri niðrandi og að þetta fólk kallaði sig sjálft Inúíta. Það notar enginn orðið Eskimói í dag nema umboðsskrifstofa fyrir ljósmyndamódel. Fordómar í garð Inúíta lifa þó góðu lífi.

Ég ólst upp við að flökkuþjóðin sem í dag er kölluð Rómafólk héti Sígaunar. Orðið sjálft fól ekki í sér gildisdóm en Sígaunar voru álitnir óheiðarlegir og lífstíll þeirra fordæmdur. Orðið Sígauni er sjaldan notað í fjölmiðlum núorðið en Rómafólk er ennþá álitið óheiðarlegt og lífstíll þess fordæmdur. Víða er það ofsótt. Kerfisbundin mismunun veltur ekki á þeim orðum sem við notum.

Kynslóð ömmu minnar kallaði þroskahamlað fólk fávita. Það þótti framfaraspor að tala um það sem „vangefið“. Sjálfsagt hefur það að skipta út orðinu vangefinn fyrir þroskaheftur hjálpað til við að vinna gegn illri meðferð á fötluðum. Sá árangur sem hefur náðst vannst þó ekki með refsingum heldur með þvi að þroskaheftu fólki var veittur betri aðgangur að samfélaginu. Má annars segja þroskaheftur? Mér sýnist orðið algengast að talað sé um að fólk sé „með fötlun“ frekar en að það sé fatlað.

Og svartir – orðið negri hefur verið gert útlægt úr íslensku máli og það þótt það hafi aldrei haft sömu gildishlöðnu merkinguna og nigger í Ameríku. Múlatti lenti á bannlista fyrir þó nokkuð mörgum árum. Ég veit ekki hvort „blendingur“ félli í frjórri jarðveg, líklega á bara ekkert að tala um það að fólk geti átt foreldra af sitthvorum kynþættinum. Reyndar er vafasamt að kynþættir séu í raun til, genamengi flestra munu víst vera álíka skrautleg og Ásmundur Friðriksson í fullum skrúða. En ef líf svartra skipta máli þá hljóta svartir að vera til, a.m.k. í hugum okkar ef ekki genapollinum.

Og þrátt fyrir alla þessa málhreinsun, ekki bara í Bandaríkjunum heldur um allan heim, ganga nú hundruð þúsunda um götur undir merkinu #Black_Lives_Matter. Bann við orðum eins og negri og múlatti skiptu engum sköpum, African American er í huga rasistans bara fegrunarorð fyrir nigger.

Að höggva hausa af fíflum

Það þjónar engum tilgangi að beita þá refsingum sem nota orð sem þykja niðrandi, það eru til þúsund leiðir fyrir þá sem vilja koma rasisískum skilaboðum áleiðis. Það er hægt að nota fullkomlega hlutlaust orðalag eins og „af afrískum ættum“ í þannig tón og með þannig svipbrigðum að engum dyljist hvað átt er við.

Hættum þessvegna að einblína á orðin, ræðum frekar hugarfarið á bak við það sem við segjum og gerum.

Og verum ekki svo vitlaus að setja einhverja hálfkjána sem nota óviðeigandi orðalag í flokk með morðingjum sem veita kynþáttahatri sínu útrás í skjóli lögregluvalds. Verum frekar vakandi fyrir kerfislægum þáttum sem ýta undir misrétti og andúð á minnihlutahópum. Það er hægt að ræða málin við rasistann í lauginni, en það eru rasistarnir hjá Útlendingastofnun og öðrum stjórnvöldum og opinberum stofnunum sem þarf að daga fyrir dóm.

Að draga fólk sem hefur ekkert áhrifavald fyrir dóm er jafn tilgangslaust og að höggva haus af túnfífli en láta rótina ósnerta. Það er gula blómið sem æpir á okkur en vandamálið er ekki þar. Það er vond nýting á tíma lögreglu og dómstóla að eyða púðri í einstaklinga sem nota móðgandi orðalag eða láta í ljós fáviskulega fordóma. Það er reyndar líka vond nýting á tíma og orku þeirra sem beita sér gegn rasisma í alvöru.

Ein spurning að lokum: Ætli Mannréttindaskrifstofa myndi mæla með lögreglurannsókn á þeim sem notar orðið „blökkumaður“? Ég hreinlega veit ekki hvort það er komið á bannlistann eða ekki.