Vaxandi áhugi er fyrir þeirri hugmynd að flýta fyrir þróun kórónufaraldursins með því að smita unga, heilbrigða sjálfboðaliða og mynda þannig hjarðónæmi án bólusetningar. Grasrótarhreyfing sem kallar sig „Deginum fyrr“ (1 Day Sooner) skráir sjálboðaliða á netinu og þegar þetta er ritað hafa 2384 manns frá 52 löndum boðið sig fram.

Talsmenn samtakana benda á að langan tíma taki að þróa bóluefni og að það sé ekki hægt að slá því föstu að það takist nokkurntíma. Í Bandaríkjunum er eitthvað um að stjórnmálamenn telji hugmyndina góða, m.a. hafa 35 þingmenn kallað eftir því að heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytið að skoða möguleikana á því að innleiða þessa aðferð. Hún virðist hinsvegar eiga litlu fylgi að fagna meðal vísindamanna og fyrirtækja sem vinna að þróun bóluefnis. (Sjá nánar hér.)

Þótt sjaldgæft sé að ungt og heilbrigt fólk deyi af völdum kórónuveirunnar er ennþá margt á huldu um áhrif hennar. Komnar eru fram vísbendingar um að veiran leggist ekki aðeins á öndunarfæri heldur valdi hún einnig í mörgum tilvikum óeðlilegri blóðstorknun. Blóðtappar geta svo aftur valdið skaða á meltingakerfi, hjarta, æðakerfi, lifur, nýrum og heila. Blóðtappi í lungum er ekkert grín heldur, því heilinn þrífst illa án súrefnis. Fram hefur komið að blóðstorknun verði hjá allt að 40% þeirra sem veikjast.

Ég velti því fyrir mér hvort þessar 2348 sálir sem bjóða sig fram til smitunar hafi fengið lungnabólgu, og hvort upplýsingar um möguleika á heilaskaða dregi nokkuð úr áhuganum.