Nú er verið að slaka á kröfum um líkamlegt atgervi slökkviliðmanna. Af fréttinni að dæma er það ekki gert af því að þörfin fyrir líkamsstyrk og úthald hafi minnkað. Nei, það á að leiðrétta ruglið sem hlaust af þeirri arfavitlausu stefnu að bjóða upp á kynjamismunun í nafni kynjajafnréttis.

Fyrirsjáanlegt vandamál

Hringavitleysan var fyrirsjáanleg. Fyrst var settur sérstandard fyrir konur svo þær ættu meiri séns á að komast að. Forsendan var sú að með því að hafa sama próf fyrir alla væri fólki mismunað á grundvelli kyns. Það er augljóslega þvæla, fólki var mismunað eftir getu, sem er fullkomlega málefnalegt. Störf slökkviliðsmanna eru þess eðlis að konur eru ólíklegri til að uppfylla þau inntökuskilyrði sem voru áður en þær fengu að taka léttari próf. Í stað þess að uppræta kynjamismunun (sem var ekki fyrir hendi áður) var þannig tekin upp kynjamismunun. Karl með sömu getu og kona stóðst ekki próf því það voru gerðar meiri kröfur til hans en hennar. Nú á að leiðrétta það, sem verður til þess að fólk er aftur metið á grundvelli getu en hinsvegar gerðar minni kröfur um getu.

Fyrir mörgum árum benti ég á að það er mismunun á grundvelli kynferðis ef kona er tekin fram fyrir smávaxinn karl sem hefur meiri getu en hún til að sinna starfinu. Það hlaut að koma að því að standardinn yrði lækkaður fyrir karla líka því það má ekki mismuna fólki eftir kyni. Og það er nákvæmlega það sem er að gerast.

Þarf þá ekki að leiðrétta aftur?

Niðurstaðan er sú að nú er aftur orðinn stærri hópur karla en kvenna sem uppfylla inntökuskilyrði í slökkviliðið. Það hlýtur að flokkast sem glerþak og feðraveldi og kalla á einhverjar leiðréttingaraðgerðir. Sennilega væri einfaldast að taka upp kynjakvóta. Sú leiðrétting yrði vitaskuld á kostnað öryggis en það er þó huggun að ef lakari hæfni slökkviliðismanna verður til þess að ekki tekst að bjarga einhverjum sem hefði mátt bjarga með því að skipa slökkviliðið eingöngu mjög sterku og úthaldsgóðu fólki, þá mun viðkomandi a.m.k. brenna í þágu góðs málstaðar.

Nú hlýtur að þurfa að minnka kröfur til lögreglu og fangavarða líka, enda inntökupróf kynbundin. Reyndar er full þörf á að breyta eðli þeirra starfa þannig að meiri áhersla verði á sálgæslu en valdbeitingu. Það yrði út af fyrir sig til þess að kynjahlutföllin myndu breytast og þróunin hefur að einhverju leyti verið í þá átt. Mér finnst frekar sannfærandi að í störfum þar sem reynir svo mikið á samskipti geti nokkuð jöfn kynjahlutföll meðal starfsmanna verið kostur. En ætli nokkur sem lendir í eldsvoða hafi skoðun á því hvort björgunarfólk er með typpi eða píku? Sennilega myndu flestir panta stærstu, sterkustu og úthaldsbestu slökkviðliðsmenn sem völ er á ef þeim gæfist kostur á því að velja.