Mér var meinilla við ryklóna sem skreið meðfram veggjum ef dyrnar stóðu opnar. Taldi víst að þetta væru einhverskonar lífverur og varð smeyk þegar lóin hreyfðist. Kannski átti þessi ótti rót í hreingerningaræði ömmu minnar. Hún hafði megna andúð á drasli og drullu og gaf viðbjóð sinn til kynna með því þykjast kúgast. Sömu tilburði hafði hún í frammi þegar Þjóðviljinn kom inn á heimilið. Hún tók blaðið milli tveggja fingra og hélt því armslengd frá sér, líkt og það væri skríðandi af sýklum, rétti það í átt til afa með svip sem gaf til kynna að annar eins sóðaskapur væri varla húsum hæfur, og kúgaðist svo. Afi glotti bara.

Ég er samt ekki viss um að óbeit ömmu á ryki hafi ráðið mestu um ótta minn. Ég var allavega ekkert hrædd við sand, kexmylsnu eða ýmsan annan ófögnuð sem amma kúgaðist yfir. Ekki einu sinni Þjóðviljann. Ég var hinsvegar smeyk við formin sem baðfroðan tók á sig þegar lítið var eftir af henni. Freyðibað, eða „skúmbað“ eins og amma kallaði það, var bráðskemmtilegt á meðan froðan var nógu mikil til þess að ég gæti tekið handfylli af henni og leikið mér með og horft á hana hjaðna milli fingra mér. En svo allt í einu var næstum engin froða eftir. Bara þunn, hvít óhugnanleg ský sem flutu ofan á vatninu og breyttu um lögun þegar maður bærði á sér.

Ég taldi víst að skýin væru náskyld ryklónni og fann til feiginleika þegar þau hurfu ofan í niðurfallið. Ég vildi alltaf fá að fylgjast með því hvernig hringiðan sneri þeim og dró niður í myrkrið og ímyndaði mér að þarna fyrir neðan væri nokkurskonar skrímslaheimur, þar sem rykhnoðrar og froðuský byggju.

Einhverju sinni hafði mamma tekið tappann úr baðkarinu áður en hún tók mig upp úr því. Síminn hefur líklega hringt eða kannski þurfti hún að sækja þurrt handklæði, því hún skildi mig andartak eftir. Ég stóð upp og ætlaði af hugrekki mínu að stíga á froðuskrímslið sem var að hverfa niður í þetta litla gat í botninum á baðkarinu.

Það tókst ekki betur til en svo að skrímslið þreif í tærnar á mér og reyndi að draga mig með sér niður í skrímslaheiminn. Ég orgaði eins og stunginn grís.

Ég man að mamma dró stórlega í efa að það hefði verið froðuskrímslið sem togaði í mig og ég held að ég hafi alveg skilið að myndirnar sem ég sá fljóta á vatninu voru ekki lifandi en ég var samt í uppnámi.

Hvort það var þessi atburður sem kveikti áhuga minn á niðurföllum, það er ég bara ekki viss um, en á tímabili þóttu mér niðurföll sérdeilis áhugaverð og tróð óliklegustu hlutum ofan í þau. Ég man mig líka gera tilraunir með ryksuguna við litlar vinsældir ömmu minnar.

Tilraunir mínar leiddu í ljós að þótt sogkraftur virki ágætlega til að losna við ryk og froðu voru stærri hlutir líklegir til að valda stíflum. Og fá ömmu mína til að kúgast, rétt eins og Þjóðviljinn væri kominn inn um lúguna.