Ég hef gaman af blæbrigðaríku máli og nýsköpun á því sviði. Hef t.d. tekið fagnandi nýmerkingum á borð við pylsupartý um samkomur þar sem karlar eru allsráðandi. Sjálf hef ég kallað pennann á bak við fuglahvísl amx smátittling og ég hló upphátt þegar ég heyrði hið bráðskemmtilega orð hrútskýring. Það finnst mér vera góð þýðing á enska orðinu mansplaining sem hefur verið notað um það þegar karl sýnir konu yfirlæti með því að útskýra fyrir henni, út frá sínu eigin karllæga gildismati, að upplifun hennar sé ómarktæk. Orðið hrútskýring er að mínu mati gott því karlremban minnir að mörgu leyti á graðhrút og mér finnst það skemmtilegur leikur að málinu að ljá orði merkingarauka með því einu að setja hr fyrir framan útskýring. Ég sé þetta sem ákveðinn húmor og þegar einhver bar það upp á mig að hafa gerst sek um hrútskýringu, svaraði ég því að það gæti ekki átt við þar sem mig skorti pung en hinsvegar mætti vel kalla orð mín kýrskýringu, enda væri ég að vanda kýrskýr og ekkert viðkvæm fyrir því þótt einhverjum finnist ég alger belja.

Sem betur fer hafa ekki allir sama húmorinn. Sjálfa skortir mig t.d. húmor fyrir rasima og ofbeldi og á sama hátt eru þeir til sem sjá leiki að málinu sem kúgunartæki og dónaskap. Ég hef þannig verið sökuð um dónaskap gagnvart þeim, sem vilja fá að stjórna kynhegðun minni og klofhárasnyrtingu, með því að kalla þá nærbuxnafeminista.

Ég hef verið að reyna að átta mig á lögmálum hinnar feminisku rétttrúnaðarorðræðu og verð að segja að við fyrstu sýn virðist rökvísin á bak við leyfilegt og óleyfilegt vera ættuð frá mannanafnanefnd. Karlrembusvín er þannig leyft en fórnarlambsfeministi ekki. Nauðgaravinur er leyft en fasystir ekki. Og já, hrútar eru af einhverjum orsökum fyndnari en nærbuxur.

En nú er ég loksins búin að fá viðunandi skýringu á því hvernig í þessu liggur. Skýringin er nefnilega sú að karlrembur, pungrottur, nauðgaravinir og hrútskýringar eru til en það eru gagnrýniverðir femnistar hinsvegar ekki.