Svona af því að margir hafa spurt…

Tilgangur minn með þessari klámvæðingar- og nauðgaraumræðu er:

– Að leiðrétta þá ranghugmynd sem hefur verið hamrað á árum saman, að kynferðisofbeldi sé viðurkennd hegðun bæði meðal almennings og í réttarkerfinu.

– Að leiðrétta þá hugmynd að öll kynferðisbrot séu jafn alvarleg, eigi sér sömu orsakir og hafi sömu afleiðingar.

– Að leiðrétta þá ranghugmynd að konur geti hvar sem er og hvenær sem er reiknað með því að hvaða karlmaður sem er nauðgi þeim.

– Að leiðrétta þá ranghugmynd að klám sé 20. aldar fyrirbæri og tilgangur þess sé sá að halda konum niðri og tryggja völd karlmanna yfir þeim.

– Að leiðrétta þá ranghugmynd að klám og útlitsdýrkun valdi kynferðisofbeldi.

– Að leiðrétta þá ranghugmynd að það sé eðli karlmannsins að vilja kúga konuna og að þessvegna sé í gangi kynjastríð sem muni ekki linna fyrr en konur (feministar) hafi sölsað undir sig öll völd.

Útbreiðsla ofangreindra hugmynda þjónar þeim tilgangi að festa í sessi skelfilega pólitíska réttrúnaðarstefnu sem á töluvert skylt við fasisma og mun leiða af sér yfirvaldsdýrkun, ritskoðun, ofsóknir á hendur ákveðnum samfélagshópum (metrófólki, fólki í kynlífsgeiranum, trúuðu fólki og miðaldra, hvítum menntakörlum) skerðingu á mannréttindum karlmanna og alvarlega skerðingu á sjálfsákvörðunarrétti kvenna, ef hún nær undirtökum í stjórnkerfinu.

– Að vinna gegn því að samskonar mannréttindabrot sem hafa verið framin í öðrum löndum í nafni réttlætis fyrir fórnarlömb kynferðisglæpa, verði framin á Íslandi en það er sennilega versta afleiðingin sem nú er í sjónmáli.

– Að kalla eftir umræðu um raunverulegar orsakir kynferðisofbeldis, forvarnir og árangursrík viðbrögð.

Undanfarið hafa margir undrast það að ég sem iðulega hef lýst yfir megnri andúð á lögreglu og dómstólum, skuli mótmæla þeirri hugmynd að réttarkerfið sé fórnarlömbum ofbeldis fjandsamlegt. Rétt er að fram komi að álit mitt á réttarkerfinu hefur ekkert skánað. Ég sé hinsvegar ekki að neinum sé hagur í því að berjast gegn kúgandi kerfum með ósannindum. Það er einfaldlega argasta bull að réttarkerfið haldi hlífiskildi yfir nauðgurum. Mun meiri ástæða er til að tortryggja þá meðferð sem menn sem ásakaðir eru um kynferðisbrot hljóta.