Hildur Knútsdóttir skoðar kynjahlutföll í útgáfu og bókmenntaumræðu og út frá hausatalningu er freistandi að álykta að karlveldið hindri konur í að koma sér á framfæri.

Ég vildi að skýringin á því að ég lifi ekki af því að skrifa væri bara sú að útgefendur vilji mig ekki og fjölmiðlar reyni að þagga niður í mér, því þá gæti ég reddað því með því að sniðganga þá og gefa bara út sjálf. En skýringin á óvinsældum skrifandi kvenna er einhver allt önnur og sennilega illviðráðanlegri.

Kynjahlutföll TMM eru t.d. ekki slæm ef við miðum við bloggbirtingar og lestur samkvæmt bloggáttinni (en mér vitanlega eru engar takmarkanir á bloggfrelsi kvenna.)

Á lista yfir nýbirtar færslur (42 færslur eru á listanum) eru þegar þetta er ritað, 3 færslur eftir konur, þar af 2 eftir Pjattrófurnar en þær virðast flestum bloggkonum vinsælli.

Á lista yfir 25 vinsælustu bloggarana er nú ein kona, sjaldgæft er að sjá fleiri en 3 kvenmannsnöfn á þeim lista. Afar sjaldgæft að kona lendi í einu af efstu 5 sætunum og þá hangir hún þar venjulega aðeins í nokkrar klukkustundir.

8 konur eru á vinsældalista fésbókar, þar ef eru færslur eftir konur í efstu 3 sætunum, sú vinsælasta eftir Tobbu Marínós og næstu tvær frá Pjattrófunum.

Því miður þá er það einfaldlega svo að konur birta síður skrif sín en karlar og skrif kvenna njóta minni vinsælda. Vinsældir kvenna eru jafnvel ennþá minni þar sem birtingum og umfjöllun er ekki stýrt ofan frá. Það er því ekki við fjölmiðla eða útgefendur að sakast þótt verk kvenna fái minni athygli. Mér þætti hinsvegar mjög áhugavert að sjá umræðu um það hversvegna konur birta síður skrif en karlar og ekki síður hversvegna við náum ekki sömu vinsældum. Eru konur yfirhöfuð leiðinlegir pennar? Veljum við umfjöllunarefni sem eru ekki áhugaverð? Eiga karlar fleiri vini? Hvað í fjandanum veldur þessu? Það er nefnilega ekki kvenfyrirlitning TMM sem veldur.