Í gær fékk ég bréf þar sem ég var beðin að skýra frekar afstöðu mína til kláms. Bréfritari (sem ég þekki ekki) segist sjá í mér feminista og er undrandi á því umburðarlyndi sem ég virðist hafa gagnvart þessum ógeðfellda iðnaði.

Sannleikurinn er sá að hef ég enga sérstaka afstöðu til kláms. Ekki frekar en körfubolta eða brjóstsykursgerðar. Mér er eiginlega slétt sama um klám svo framarlega sem því er ekki troðið upp á mig eða aðra. Það sem ergir mig er hræsin í málflutningi þeirra sem þykjast vera talsmenn mannréttinda og jöfnuðar.

Helstu rök gegn klám- og kynlífsiðnaðinum eru:
-tengslin við barnaníð og annað ofbeldi
-tengsl þessa iðnaðar við mansal og nauðungarvændi
-tíð tengsl atvinnurekenda í þessum geira við fíkniefnadreifingu
-hlutgerving lifandi fólks einkum kvenna
-ástaratlot eru svipt tilfinningalegu gildi, tjáning ástar gerð vélræn og grótesk

Því miður eru þessi rök lítið annað en yfirskin þeirra sem telja sinn smekk bestan og réttastan.
-Ef andstæðingum kláms og kynlífsiðnaðar væri svona umhugað um fórnarlömb ofbeldis, myndu þeir byrja á því að mótmæla þeim misþyrmingum sem viðgangast fyrir framan nefið á þeim, t.d. í þekktum fangabúðum sem hollvinir okkar og verndarar reka.
-Ef þeir hefðu áhyggjur af mansali, myndu þeir mótmæla innflutningi á ódýrum vörum sem eru framleiddar af þrælum, þ.m.t. þrælum undir 10 ára aldri, og berjast gegn því þrælahaldi sem er að verða æ algengara á Íslandi með innflutningi fátækra útlendinga.
-Ef fíkniefnadjöfullinn héldi fyrir þeim vöku, myndu þeir byrja á því að taka til í íslenskum fangelsum og meðferðarheimilum fyrir börn og unglinga.
-Ef hlutgervingin væri vandamál, myndi þetta sama fólk ekki fylgjast spennt með fegurðarsamkeppnum, top-model þáttunum eða öðrum fegurðariðnaði sem gerir út á óraunhæfa ímynd og hikar ekki við að traðka á tilfinningum fólks.
-Ef fegurð ástarinnar kæmi málinu eitthvað við, hefði sami hópur risið gegn batsjellorþáttunum og öðrum slíkum þar sem hópur heimskingja kemur saman til að slást um hylli einhvers sem þeir/þær þekkja ekkert (og vita í raun ekkert um nema oftast það að hvalrekinn er fjárhagslega vel stæður) og láta hafna sér frammi fyrir alheiminum. Ég veit ekki hvort er yfirhöfuð hægt að draga upp meira niðurlægjandi mynd af ástföngnu fólki.

Sannleikurinn er sá að andstæðingar klámiðnaðarins hafa ekkert meiri áhyggjur af ofbeldi, dópi, nauðung og niðurlægingu en við hin. Þeir/þær taka það hinsvegar afskaplega nærri sér að einhver sóðapíkan fái fullt af peningum fyrir að sýna mökum þeirra það sem gæti kannski verið í boði annarsstaðar en heima hjá þeim.