Við Fardagafoss

Jón Hallur Stefánsson samdi lag við þetta kvæði vorið 2010. Diskurinn er enn ekki kominn út.

Miðhúsaá er mild og blá
Fardaga upp hjá fossi
heyrði ég ljúfling hörpu slá,
fagurt galaði fuglinn sá.
Fardaga undir fossi,
í hellinum undir Fardaganna fossi.

Þeim sem heyrir ljúflingslag
verður margt að meini.
Álfur þessi um eigin hag
hugsar nótt sem nýtan dag.
Verður mér að meini,
þeim sem hlýðir verður margt að meini.

Villir hann stúlkur, stillir hann,
strengi hörpu sinnar.
Heilla með bulli hjörtun kann
hleypur roði í kinnar.
Allar vildu þær eiga hann
öðrum til að sýna
„Við stúlkuna vil ég stíga sjálfur mína

Eilíft þér ég unna má“
nú bar vel í veiði
„Ég skal gefa þér gull í tá“
-gekk ég nær á leit þar á;
bar nú vel í veiði
Ljúfan heyrði ég svanasöng á heiði.

„Snör mín hin snarpa og dillidó,
Fardaga undir fossi
á ég gull og grænan skóg.“
Huldupiltur hörpu sló
Fardaga undir fossi
seiddi mig upp að Fardaganna fossi.

„Mitt er þitt og hjá mér áttu heima
Gakk í björg og bú með oss
ástarblossayndishnoss.
Aldrei ég skal þér gleyma.
Ég skal gefa þér blómin blá,
og svani þrjá á sundi“
Listamaðurinn lengi þar við undi.

„Ætla ég komið nú sé nóg
Fardaga upp hjá fossi.
Harpa þín mig hingað dró
ári minn kári og korríró
Fardaga upp að fossi
seiddi mig upp að Fardaganna fossi“

„Aldrei var ég Kristi kær“
stillti hann sína strengi
„kysstu mig hin mjúka mær“
mörgum skrefum gekk ég nær
strauk hann mér strengi
„virtu góðs þó verði það ekki lengi“

Villa og stilla mig hann má,
meyjanna mesta yndi
í brjóstunum hjörtun berjast þá
bara mig eina hann fyndi.
„Ekki gráta hringaná
þótt unni ég öðrum sprundum
Litlu góðu launa þær mér stundum“

„Vendi ég mínu kvæði í kross
vendi ég mínum vilja
engan færðu frá mér koss
flýttu þér aftur undir foss
beygi ég veikan vilja.
Sumum er ekki skapað nema skilja.

Vel sé þeim er veitti mér
Fardaga undir fossi
En falskan tón ég heyrði hér
bar hann hug minn burt frá þér,
Fardaga undan fossi
frá hellinum undir Fardaganna fossi.“

Share to Facebook