Uppskeruhátíð

Uppskeruhátíð á Sólheimum. Allt troðfullt af hollustu. Grænkál og rófur og litlar sætar gulrætur og allt. Borðað og dansað og dansað og dansað. Hann dansar líka. Dansar við mig og hina krakkana og við Bertu gömlu og líka einn. Svona stór! Þriggja ára og næstum því fullorðinn.

Svo kemur hann til mín, hálfvolandi. Segist þreyttur, vill fara heim að sofa. Við leiðumst út í haustnóttina. „Var ekki gaman“ segi ég, „jú“ segir hann og meinar það. Hefur ekki áður vakað svo lengi og undrast stjörnurnar; himneskar kartöflur, kannski tunglið sé næpa? Ég spyr hvort hann muni hvers vegna við höldum uppskeruhátíð.

Hann stoppar, snýr sér að mér, syfjuð augun kringlótt himintungl í jarðarlit. Sveiflar báðum handleggjunum í stóran hring og bendir til himins: „Af því allt og allt kemur upp úr jörðinni!“

Share to Facebook